10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

73. mál, kaup á farþegaskipi er sigli milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka öllum ræðumönnum fyrir jákvæðar undirtektir undir frumhugmyndina um athugun á kaupum á þessu skipi. Það var einmitt hringvegurinn og sala Gullfoss sem ýtti við mér að móta nýja till. gjörólíka þeim viðhorfum sem áður höfðu verið. Það er ekkert undarlegt þó að sumir segi: Þetta er fjarstæða. Það kom mér ekkert á óvart. Fyrrv. forseti Sþ. kallaði þetta mjög merkilega byltingarkennda hugmynd, einhverja þá sérstæðustu sem fram hefði komið um fjölda ára skeið. Það, sem mig skiptir mestu máli og ég held að það sé sami tónninn hjá þeim sem tóku til máls er að hrinda þessari hugmynd í athugun fyrst og fremst og síðan til framkvæmda eftir því sem tök eru á og kostnaður leyfir okkur.

Ég þakka síðasta ræðumanni, 3. þm. Reykn., mjög fyrir hans þátt í þessu máli. Ég veit, að hann hefur flutt þessa hugmynd, kannske ekki bókstaflega eins og ég hef sett hana fram, en verið mjög hvetjandi að þetta mál yrði athugað í Norðurlandaráði. Ég tel einmitt að staðsetningin á Austfjörðum sé einn mikilvægasti þátturinn í þessu máli, vegna þess að það stuðlar að slíku fyrirkomulagi að rekstur á þessu skipi og gerð þess verður með allt öðrum og ódýrari en öruggari hætti en ella hefði verið með því að þurfa að sigla hingað til Reykjavíkur. Hef ég fyrir mér mann, sem var um árabil skipstjóri, sem ráðgefanda í þessu efni.

Einnig vil ég upplýsa það að ég hef haft samband við fleiri ferjuaðila, ef svo mætti segja, á Norðurlöndum og víðar sem hafa komið inn með svipuð skip og ég hef hér í huga. Fyrst í stað hefur þetta gengið slarkandi eða jafnvel treglega, en eftir að almenningur komst í kynni við góða þjónustu og þægilegt skipulag með bíla, eins konar fjölskyldufarþegamöguleika, þá hefur sívaxandi eftirspurn verið alls staðar. Það getur vel verið að það sé of draumórakennt að reikna með því hingað til landsins, en ég vil nú samt sannreyna það og athuga alveg sérstaklega.

Ég vænti þess að till. fái eðlilega meðferð í fjvn. og eðlilega athugun. Og þrátt fyrir það að sumum finnist hún draumórakennd, þá held ég að það sé með svona till eins og margt annað. Sumir eru á móti því að byggja hér á Íslandi veglegar og miklar brýr því að þær muni ekki bera neinn arð, er sagt, fyrstu árin. Það getur vel verið að þetta skip geri það ekki. En ég lít á þetta skip út af fyrir sig sem sérstaka brú milli Íslands og Norðurlandanna og sú brú skilar auðvitað ekki arði fyrstu árin. Þetta er liður í samgöngukerfi landsins.