11.12.1974
Efri deild: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

95. mál, vegalög

(Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 106 er frv. til l. um breyt. á vegalögum. Ég vil nú gera grein fyrir þessu frv. og nokkrum öðrum atriðum er varða vegamálin í landinu.

Hinn almenni tilgangur með flutningi þessa frv. má segja að sé að efla sýsluvegasjóðina vegna breyttrar tækni við mjólkurflutninga og auk þess að styrkja gerð þjóðvega í þéttbýli, gera framlag ríkisins til þéttbýlisveganna hreyfanlegra, þannig að unnt sé að bæta það í samhengi við vegakerfið. Í 1. gr. frv. er viðbótarákvæði um að vegáætlun skuli einnig ná til þjóðgarðsvega og vega til fjölsóttra ferðamannastaða. Í skýringu er vísað til 11. gr. frv., en þar er rangt með farið því að þar er um að ræða 12. gr.

Verðbreytingar á undanförnum árum hafa gert óhjákvæmilegt að víkja nokkuð frá röð framkvæmda, einkanlega á síðari árum vegáætlunartímabilsins. Hér er því lagt til að sú breyting verði gerð að nákvæm sundurliðun um einstakar framkvæmdir verði aðeins 3 fyrstu árin, en fjórða árið verði til þess að jafna þann slaka sem kynni að verða kominn á vegáætlunina ef yrði að breyta vegna breyttra kostnaðaráætlana. Telja verður að þetta fyrirkomulag, sem hér er lagt til, ef að því verður horfið, auki líkur á því að unnt sé að halda í einu og öllu við áætlunina, þar sem það mundi gera auðveldara að jafna hallann sem væri orðinn á, eins og ég áður sagði.

Vegna aukinna framkvæmda í óbyggðum, en þar til má nefna Sigölduvirkjun, þykir rétt að einskorða heimildina ekki við býli, en láta hana einnig ná til orkuvera. Jafnframt er gert ráð fyrir því að heimilt sé að taka í tölu landsbrauta vegi að flugvöllum utan kaupstaða, þar sem reglubundið áætlunarflug hefur verið starfrækt samkv. leyfi samgrn. í eitt ár eða lengur. Til þess að eðlilegt samhengi sé í samgöngukerfinu þykir nauðsynlegt að nokkuð tryggar og góðar samgöngur séu að flugvöllum þessum, sem hljóta að teljast mikilvægir fyrir það byggðarlag sem þeir þjóna. Verði heimild þessi nýtt að fullu lengist þjóðvegakerfið um 7 km. Þá þykir eðlilegt að heimilt sé að taka í tölu landsbrauta vegi að skólastöðum þar sem vísir að þorpi hefur myndast, þó að þessir vegir nái ekki 2 km. Er þetta gert í samræmi við sams konar undanþáguheimildir varðandi kauptún og mundi auk þess létta nokkuð á ýmsum sýsluvegasjóðum. Sama gæti gilt um heilsuhæli.

Varðandi breytingu í 4. gr. frv., e-líð 19. gr., er það að segja að með tilliti til bættrar öryggis- og heilbrigðisþjónustu þykir rétt og eðlilegt að sýslunefndir hafi heimild til að taka vegi að sjúkraflugvöllum í .tölu sýsluvega. Sjúkraflugvellir munu nú vera um 70 talsins á landinu.

Samkv. gildandi l. er ekki heimilt að taka í tölu sýsluvega vegi sem eru styttri en 200 m og skal slíkur vegur aldrei teljast ná nær býli en 200 m ef hann endar þar. Hér er lagt til að allir vegir að býlum verði sýsluvegir nema síðustu 50 metrarnir. Vegna aukinnar umferðar, m.a. vegna tankvæðingar kúabúa, hefur kostnaður við gerð og viðhald á vegum að býlum stóraukist. Er því svo sem nú er háttað í dag erfitt fyrir marga bændur að halda við heimreiðum að býlum sínum og kemur slíkt viðhald ójafnt niður þar sem heimreiðir sumra býla geta orðið allt að 400 m langar. Ekki þykir þó rétt að fara nær býlum en 50 m og verður þá vegurinn heim einkavegur.

Í einstökum sýslum taka nú sumarbústaðahverfi yfir viðáttumikið landssvæði. Þykir því eðlilegt að fella vegi um þessi hverfi a.m.k. að einhverju leyti inn í vegakerfi sýslnanna og er því lagt til að heimilt verði að styrkja vegi þessa með fé sýsluvegasjóðs með tilteknum skilyrðum. Ákvæði um þetta eru í 5. gr. frv.

Með vísun til þess kostnaðarauka fyrir sýsluvegasjóði, sem einkum kemur til vegna ákvæðis 3. mgr. 3. gr. frv., er lagt til í 6. gr. frv: að hvert hreppsfélag geti ákveðið að greiða sýsluvegasjóði allt að tvöfalt hærri upphæð en nú er ákveðið í lögum. Sýsluvegasjóðsgjald samkv. 23. gr. vegal. er mjög lágt og víðast naumast talið svara kostnaði að innheimta það. Til þess að gjald þetta nái tilgangi sínum með hliðsjón af 4, gr. frv. þessa er lagt til að hækka það um pro mill-tölu af matsverðinu sem skatturinn nemur. Er lagt til í 7. gr. frv. að talan verði um 2 af l000 í stað 0.3 eða 3 í stað 0.6 sem nú er.

Samkv. gildandi l. um framlag ríkissjóðs samkv. 28. gr. vegal. kemur það ekki til greiðslu fyrr en 1–2 árum eftir að framlag hreppsins er greitt. Í 8. gr. er lagt til að heimilt verði að greiða framlag þetta á sama ári og framlag hrepps er innheimt og skal það renna óskipt til sýsluvegasjóða í viðkomandi hreppi. Er þetta lagt til m.a. vegna þeirrar tankvæðingar sem þegar er hafin og fyrirsjáanleg er, svo sem áður er vitnað til. Til framkvæmda kemur á næstu árum mikill kostnaður við styrkingu vega, sem af þessum sökum er æði misjafn í einstökum hreppum, og þykir því rétt að leggja það í sjálfsvald þeirra hve langt skuli gengið í gjaldheimtu til sýsluvegasjóða gegn óskertu ríkisframlagi sama ár.

Í kauptúnum landsins er nú mikil hreyfing í þá átt að ganga frá götum og vegum með bundnu slitlagi. Til þess að fleiri kauptún geti notið fjárframlags samkv. 32. gr. vegal, er lagt til í 10. gr. að miða við 200 íbúa kauptún í stað 300 áður. Miðað við manntal 1. des. 1972 munu eftirtalin kauptún til viðbótar njóta ríkisframlags samkv. þessari gr.: Búðardalur, Súðavík, Hofsós, Hrísey, Stöðvarfjörður og Vogar. Til samræmis þessu er sams konar breyting gerð á 9. gr. e-lið í 30. gr. gildandi vegal., sbr. 4. og 9. gr. frv.

Í 11. gr. frv. er lagt til að árlega skuli halda eftir 25% af heildarframlagi því sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum í stað 10% svo sem nú er. Þetta er lagt til til þess að auðvelda fámennum kauptúnum og kaupstöðum að flýta gerð þéttbýlisvega með bundnu slitlagi samkv. 30. gr. Nýmæli er að skylt er að leita umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga um skiptingu fjár þess, sem hér um ræðir, áður en hún er endanlega ákveðin. Til þessa hefur framlag þetta verið bundið í Hafnarfjarðarvegi um Kópavog og Suðurlandsvegi um Selfoss, en nú er gert ráð fyrir frekari dreifingu þessa fjár.

Lagt er til að þjóðvegir og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum skuli taldir sérstaklega í vegáætlun, svo sem verið hefur um aðalfjallvegi. Vegi þessa hefur hingað til eigi verið heimilt að taka inn í vegáætlun en vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna og þar af leiðandi aukins álags þykir nauðsyn bera til að tekið sé tillit til þeirra við gerð vegáætlunar.

Reynslan hefur sýnt að í mörgum tilfellum hefur viðhald brúa á sýsluvegum reynst sýslusjóðum ofviða og er því lagt til í 13. gr. frv. að það verði greitt í sömu hlutföllum og stofnkostnaður.

Loks er í 14. gr. frv. lögð til breyting á gildandi vegalögum í samræmi við lög nr. 11 1973 um framkvæmd eignarnáms.

Þetta eru helstu atriði, sem ég hef um að segja í sambandi við vegalagafrv. það sem hér liggur fyrir. En auk þess sem hér er talið þykir mér rétt að gera nokkra frekari grein fyrir málefnum í vegamálum sem hafa verið til athugunar á yfirstandandi ári.

Það var í sept. s.l. sem ég óskaði eftir því við vegamálastjóra að gerð yrði athugun á því hvaða vegir eða vegakaflar væru um landið almennt sem hægt væri að leggja varanlegt slitlag á án þess að þeim væri breytt frá því sem nú er. Það svæði, sem ég bað um að athugað yrði fyrst, var svæðið frá Hvolsvelli um Reykjavík og vestur um land allt til Akureyrar. Þessi athugun hefur nú farið fram og þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir henni.

Hér er um að ræða vegi sem eru 94 km á lengd. Í fyrsta lagi er það vegurinn frá Hvammsvík í Brynjudalsvog, sem er rúmir 8 km. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þessa vegagerð yrði um 84 millj. kr. tæpar. Næsti kafli, sem þannig er ástatt um, er frá Hrafnabjörgum að Kalastaðahæð, sem ern tæpir 7 km, og er gert ráð fyrir að kostnaður sé 63 millj. kr. Í þriðja lagi er vegurinn frá Fiskilæk að Hafnará, sem er 5 km og gert er ráð fyrir að kosti um 37 millj. kr. Í fjórða lagi er svo vegur frá Hrútatungu að Þóroddsstöðum í Hrútafirði, sem er 13.5 km og kostnaður er áætlaður tæpar 73 millj. kr. Í fimmtalagi er vegur frá Nípukoti að Gröf í Húnavatnssýslu, það eru rúmir 7 km og 62 millj.. kr. kostnaður. Í sjötta lagi er vegurinn frá Gljúfurá í Húnavatnssýslu að Öxl í Þingi, sem er tæpir 6 km og kostnaður 47 millj. kr. Í sjöunda lagi er vegur frá vegamótum Reykjabrautar og Norðurvegar til Blönduóss, sem er um 11 km og gert er ráð fyrir að kosti um 78 millj. tæpar. Enn fremur vegur frá Blönduósi að Fagranesi í Langadal, sem er 14 km og kostnaður líka 77 millj. kr. Hér er um að ræða næstum því samfellda leið, sem er um 25 km. Þá er Kjálkavegur að Valagilsá, 12 km og kostnaður 113 millj. kr. Og í Öxnadal er um að ræða tæpa 10 km og 77 millj. kr. kostnað.

Eins og ég áðan sagði er hér um að ræða lagningu vega, sem eru 94 km, og heildarkostnaðurinn við þetta slitlag yrði 711 millj. kr. Hér er nokkurt verk að vinna, en ekki orkar tvímælis að þarna er um að ræða stórkostlega framför og ábyggilega mundi þetta verða til þess að greiða fyrir vegamálunum almennt, og á þennan hátt er líka farið að vinna að varanlegri vegagerð um landið víða.

Í framhaldi af þessu þykir mér rétt að greina frá því í stórum dráttum hvað það mundi kosta að gera varanlegan veg austan frá Hvolsvelli um Reykjavík og allt norður til Akureyrar. Það skal að vísu tekið fram að eins og kemur fram í þessu yfirliti frá Vegagerðinni er hér um að ræða lauslega áætlun sem gæti breyst við nánari athugun sérstaklega á þeim köflum sem enn eru óundirbyggðir. Í þessari athugun er um að ræða vegakafla innan Rangárvallasýslu sem eru 31 km, í Árnessýslu rúmir 3, í Kjósarsýslu 41, í Borgarfjarðasýslu 45 km, í Mýrarsýslu 69, í Strandasýslu 15, í Vestur-Húnavatnssýslu 63 og Austur-Húnavatnssýslu 65, í Skagafjarðarsýslu 53 og Eyjafjarðarsýslu 52. Allur kostnaður við vegagerð úr varanlegu efni á þessari leið er talinn nema 5 milljörðum 728.6 millj. kr. og við brúargerðir er einnig gert ráð fyrir að kostnaður á þessari leið mundi verða 1 milljarður 621 millj., eða 622 millj. kr. Hér er því um að ræða kostnað upp á um rúma 7 milljarða kr. Þetta eru vegir, sem eru 439 km á lengd, sem yrðu gerðir úr varanlegu efni ef af þessari framkvæmd yrði.

Ég vil við þetta tækifæri lýsa þeirri skoðun minni að ég tel brýna nauðsyn bera til að hefja nú þegar á þessu ári eða næsta ári framkvæmdir við þá vegarkafla, sem ég talaði um áðan að hefðu þá sérstöku stöðu að vera tilbúnir undir það að væri hægt að leggja á þá varanlegt slitlag, því að það mundi bæta vegina og það mundi einnig draga úr viðhaldskostnaði á þessum vegum.

Þá hef ég einnig látið athuga kostnað við endurbætur á vissum köflum á hringleiðinni til austurs og hef látið gera kostnaðaráætlun um þá vegi: Í fyrsta lagi Eldhraun að Skálm í Vestur-Skaftafellssýslu, þar er um 43 km vegalengd að ræða og mundi kostnaður alls verða 158 millj. kr. Ástæðan til þess að þessi vegur er dýr er vegna þeirra brúa sem þarf að gera í sambandi við þessa vegarlagningu. Jafnhliða þessu hefur verið athugað hvað kostaði að gera góðan veg á Mýrdalssandi til viðbótar því sem þegar er búið að gera, en þar er um að ræða 25 km veg, og vegagerðin ásamt brúm mundi kosta 38 millj. kr. Næsta atriði, sem Vegagerðin hefur skoðað, er vegurinn fyrir Hvalneshorn. Það er vegur sem er 138 millj. kr. að kostnaði og 35 til brúargerða eða samtals 173 millj. kr. Svo hef ég einnig látið athuga að gera góðan veg á Breiðamerkursandi. Þar er um að ræða veg sem kostar 56 millj. kr.

Hér er því um að ræða vegi sem kosta yfir 400 millj. kr., í þessum heildarhringvegi, sem ég hef verið að láta sérstaklega athuga. Það, sem eftir er þá í sambandi við þessar vegaathuganir á hringveginum, er svæðið frá Akureyri austur til Hvalness, en víða eru á þessari leið nýuppbyggðir vegir þótt nokkuð skorti á að svo sé alls staðar.

Af framkvæmdum, sem ég hef einnig beðið um skoðun á, er vegurinn á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur eða Kópavogs, sem svo nú er að verða. Um það er það að segja að allar þessar áætlanir eru með fyrirvara, en það er talið að kostnaður við lagningu nýrrar akreinar frá Hliðarvegi í Kópavogi að vegamótum við Engidal mundi nema um 200 millj. kr. og er þá miðað við ágústverðlag. Í þessu er falin ný brú á Kópavogslæk og ný akbraut með tengivegum á sama plani í Arnarvog og við Vífilstaðaveg.

Af þessu sést að mörg verkefni bíða í vegagerð. Þeim verður ekki lokið nema mikið fjármagn komi til. Eitt af stærstu verkefnum sem nú á næstunni eru í vegagerð er brú yfir Borgarfjörð milli Borgarness og Seleyrar. Undirbúningi að því verki er nú senn lokið og næsta föstudag mun Vegagerðin halda fund með bændum uppi í Borgarfirði út af þessu máli, en áður hafa tveir fundir verið haldnir með þeim í sambandi við þessa brúargerð. Það hefur komið fram í áliti sumra manna, og kannske er sú skoðun útbreiddari en kunnugir gera sér grein fyrir, að þessi brúargerð sé frekar ævintýrakennd heldur en í raunveruleikanum. En við athugun sérfræðinga á þessu máli er ekki um það að ræða. Krókurinn inn fyrir Borgarfjörð og til Borgarness, sem félli niður í sambandi við þessa vegargerð, er um eða yfir 30 km og styttingin á veginum yrði fast að því 30 km. Þessi vegur inn fyrir Borgarfjörð er með elstu vegum, bæði veginn og allar þær brýr, sem þar eru, yrði að endurbyggja. Þegar sá samanburður er gerður er hagkvæmni við brúarbyggingu yfir Borgarfjörð og veginn þar yfir talin gefa í kringum 20% í arðgjöf. Þetta er því eitt með betri verkum í vegagerð hér á landi. Kom þetta fram hjá dönskum verkfræðingum sem athuguðu þetta mál fyrir nokkuð mörgum árum og þetta hefur einnig komið fram í þeim athugunum sem síðar hafa verið gerðar. Hér er því um hagkvæmnisframkvæmd að ræða sem nauðsyn ber til að hraða, enda mun verða farið í þessa framkvæmd á næsta ári því að vegakerfið inn fyrir Borgarfjörð er nú gersamlega að bila. Þetta er einn þáttur í þeim tölum sem ég nefndi áðan um framkvæmd við vegagerð á Vesturlandsvegi og á leiðinni norður til Akureyrar.

Ég vil í sambandi við vegamálin geta þess að nú, áður en fjárlög verða afgreidd, mun samgrn. skila fjmrh. og fjvn. áætlun um vegagerð á næsta ári. Ég tel nauðsynlegt í sambandi við fram komið frv. um happdrættissölu á bréfum til vegagerðar að þar verði um að ræða nokkra stefnumörkun sem einnig var gerð með afgreiðslu á tekjuöflunarfrv. til vegagerðar á yfirstandandi ári. Sala á happdrættisskuldabréfum til vegagerðar hefur gefist vel og hefur salan á þessu ári orðið mun meiri en nokkur hafði gert sér grein fyrir eða vonast til. Talið var í sumar að ekki væru líkur fyrir því að það þýddi að gefa út þau 150 millj. kr. bréf sem ætlað var að selja vegna Skeiðarársandsvegar. Þegar Djúpvegurinn bættist við var það þó talið enn þá fráleitara. Hins vegar varð reynslan sú að bréfin til Djúpvegar seldust upp á nokkrum dögum eða fyrr en nokkur hugði. Það varð til þess að út voru gefin þessi 150 millj. kr. bréf til vegaframkvæmda í sambandi við Skeiðarársandsveginn, og ég veit ekki annað en þau bréf séu einnig uppseld. Það verður því till. samgrn. að í vegáætlun fyrir næsta ár verði tekin upp happdrættislánabréfasala fyrir 600–600 millj. kr. Ég tel eðlilegt að í meðförum Alþ. komi inn í frv. það um Norðurveg, sem liggur fyrir samgn. hv. Nd., að færa þetta út, þannig að það geti verið um heildarsölu að ræða á skuldabréfum til hringvegarins og þá einnig til Suður- og Austurlandsins.

Út frá því, sem ég sagði áðan, að það mundi kosta á nútímaverðlagi eina 7–8 milljarða að gera varanlega vegi frá Reykjavík austur á Hvolsvöll og frá Reykjavík til Akureyrar og svo veginn til Hafnarfjarðar og áframhald vegarins austur á bóginn og byrja á þeim stöðum, sem verstir eru. Þá mun vera að ræða um ca. 8 milljarða eða eitthvað slíkt. Ég tel nauðsyn bera til að gera áætlun um það á hve löngum tíma við ætlum okkur að leysa þetta verk og 2–3 vegáætlunartímabil mundi ég telja líkleg í þeim efnum.

Það er ekki nokkur vafi á því að framkvæmdir í vegamálum hér á landi eru stórkostlegt fjárhagslegt spursmál og stórkostlegur ávinningur að öllum vegabótum. Íslendingar eiga orðið það mikið af bifreiðum í landi sínu núna að það skiptir verulegu máli hvort þessar bifreiðar endast lengur eða skemur. Þær kosta það mikið og viðhald á bifreiðum núna er svo dýrt að það er geysilegur munur hvort hægt er að aka á góðum vegi eða slæmum. Sama er að segja um bensín og aðra orkugjafa, það er líka geysilegur munur hvort vegurinn er góður eða slæmur. Ég tel að skynsamlegast sé fyrir hv. alþm. nú við gerð vegáætlunar, sem verður lögð fram eftir áramótin, því að hún verður ekki lögð fram í jólaösinni. Það hefur enga þýðingu að öðru leyti en því sem hún verður tekin með fjárl. Skynsamlegast er að gera eina heildaráætlun um lagningu hringvegarins út frá þeim áætlunum sem ég hef hér greint, og mun ég í framhaldi af þessu láta halda áfram að vinna við áætlun á aðalveginum um Vesturland þar til þessum hring er lokið. Að minni hyggju ber brýna nauðsyn til þess að vinna að málinu á þennan veg því að það verður afskaplega erfitt að vera með margar áætlanir í gangi og þess vegna væri best að steypa þeim sem allra mest saman.

Þetta mál mitt er nú orðið alllangt, enda hef ég farið viðar en sjálft frv. gaf tilefni til. En ég taldi brýna nauðsyn bera til þess að við grg. með þessu frv. kæmi fram frásögn af þeirri athugun sem gerð hefur verið í vegamálunum og jafnframt verði sagt frá hugmynd af þeirri stefnu sem nauðsyn ber til að verði fylgt í framkvæmdum í vegamálum.

Ég geri ráð fyrir því að á fjárlagafrv. verði niðurstöðutala til vegamála tæpir 4 milljarðar. Er það ekki mikil hækkun frá því sem verður á yfirstandandi ári, ca. 30% af framkvæmdakostnaði, og verður að segja eins og er að það er tæplega að það haldi í við framkvæmdir á þessu ári. Þess vegna er ljóst að hjá því verður ekki komist að fara þá leið til tekjuöflunar sem ég greindi hér frá áðan og ég tel brýna nauðsyn bera til að það náist samstaða um hana hér á hv. Alþ. Þess vegna hef ég tekið inn í þetta dæmi frásögn af þeim vegarspottum, sem ég tel mesta þörf að leggja, og jafnframt þeim vegarspottum sem eru undir það búnir að verja þá varanlegu slitlagi og draga þannig úr viðhaldi og koma þeim í framtíðarhorf.

Ég veit að allir hv. þm. hafa áhuga á vegamálum og samgöngumálum á landi og samgöngumálum yfirleitt. Ég tel því að það þurfi að gera heildaráætlun um samgöngukerfið, bæði í landi, lofti og á legi, því að það mun reynast okkur hagkvæmast. Verkefni þeirrar n., sem vinnur að því að athuga um flutningskostnað á landsbyggðina, einn þáttur, sem væri tengdur því, gæti einmitt verið samgönguþáttur í öllum greinum samgöngumála. Ég er einnig með í athugun að fara fram á það að á vegum flugráðs verði gerð áætlun í sambandi við flugvelli og uppbyggingu flugvallanna sem samgöngutækja. Ég tel, að það þurfi einnig þar að gera áætlum til lengri tíma en eins árs til þess að vinna að því að skipulega sé að þessum málum staðið.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu. Ég hef viljað leggja áherslu á að skýra hv. þdm. frá því í fyrsta lagi hvaða breytingar eru fólgnar í þessu frv. og þar vil ég nefna að þar er sérstaklega bætt úr fyrir sýslusjóði og einnig fyrir kauptún og kaupstaði um varanlega gatnagerð innan síns byggðarlags. Fleiri þættir eru í því máli eins og ég hef áður greint frá.

Ég hef einnig skýrt frá því hvað búið er að gera til þess að vinna að því að gera varanlegt slitlag á vegi, og það eru þó nokkrir vegakaflar víðs vegar um landið sem hægt er að leggja á varanlegt slitlag nú þegar, án þess að um frekari undirbúning sé að ræða. Þetta eru tæpir 100 km. Inn í þetta dæmi eru ekki teknir vegakaflar sem eru styttri en hálfur km. Ég hef einnig tekið fram um stærstu verkefni önnur á hringveginum. Hins vegar hef ég ekki farið út í einstaka vegi nema inn í hringveginn kemur að sjálfsögðu Djúpvegurinn sem verður lokið við á næsta ári og eru fjármunir til framkvæmda þar nú afgangs af happdrættissölunni á yfirstandandi ári. Ég efast ekkert um áhuga á því að koma þessum málum áfram og veit að sú leið, sem valin hefur verið til þess að styðja fjárhagskerfi veganna, á góðan byr á hv. Alþ., enda ber brýna nauðsyn til þess.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.