06.11.1974
Neðri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir að bregðast svo við óskum sveitarfélaganna og stjórn Lánasjóðs sem raun ber vitni með flutningi þessa frv. Það er einnig ástæða til að þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað og lýstu stuðningi við frv. Þetta þykist ég hafa nokkuð umboð til að gera, af því að ég hef staðið að þeim áskorunum, sem beint hefur verið til ríkisvaldsins í þessu efni.

Það var sérstaklega ánægjulegt að heyra stuðning hv. 2. þm. Austf. Hann hefði kannske mátt koma fram fyrr, vegna þess að snemma á s.l. vetri var þáv. hæstv. ríkisstj. sent þetta frv. með ósk um, að það yrði flutt á hv. Alþ. Nokkrum sinnum var rætt við þáv. hæstv. félmrh., en því miður fékkst ekki stuðningur hans við þetta mál, a.m.k. var frv. aldrei flutt. Það kann að vera ástæðan fyrir því, að nokkuð stutt varð í þinginu í vor og því lauk nokkru fyrr en ætlað var. En skömmu eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, þá veit ég, að gengið var á fund hæstv. félmrh. og þessi mái kynnt fyrir honum, og það er mjög ánægjulegt, hversu vel hefur verið brugðist við þessum óskum.

Um ástæðurnar fyrir því, að samtök sveitarfélaga óska eftir úrbótum í þessu efni, þarf sjálfsagt ekki að ræða. Það eru þarfir sveitarfélaganna fyrir aukin lán til hinna nauðsynlegustu framkvæmda. Lánasjóður sveitarfélaga hefur aldrei getað fullnægt umsóknum um lán og raunar ekkert nálægt því. Ég held, að ég fari rétt með, að á þessu ári, 1974, lánar sjóðurinn um 179 millj. kr., en umsóknir um lán frá sveitarfélögunum námu 500 millj.

Að sjálfsögðu bjargar ekki þessi breyting á lögum um Lánasjóð fjárhag sveitarfélaganna almennt í landinu, enda ekki ætlunin. Þetta er eitt skrefið. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. er þetta eitt skrefið til að rétta þar nokkuð við. En það er ekki heldur hugsunin með þessu frv. að bjarga við fjárhag sveitarfélaganna eins og nauðsynlegt er. Til þess þarf miklu meira að koma til og hér er um að ræða fjárfestingarlánasjóð.

Ég ætla ekki við þetta tækifæri að ræða um, hvernig komið er fjárhag sveitarfélaganna í landinu. Ég hygg, að flestum hv. þm. sé ljóst, að þar er mjög slæmt ástand.

Í grg. með frv. er rakið, til hvaða þátta hefur einkum verið lánað, og hæstv. ráðh. rakti það hér áðan. Það er einn málaflokkur, sem mjög er vaxandi nú, sem sótt er á um lán til, og það eru gatnagerðarframkvæmdir. Það var ekki fyrr en á árinu 1973, sem farið var að lána til þess málaflokks að einhverju marki, en þá voru það 67 millj. rúmar, og svipuð upphæð mun hafa verið á árinu 1974. Það er alveg augljóst mál, eins og hér hefur komið fram, að fjárþörfin til gatnagerðarframkvæmda er mjög vaxandi og það er þáttur, sem Lánasjóður kemst ekki hjá að sinna í enn ríkari mæli en hann hefur getað gert til þessa.

Ég tek undir það, að að hluta til eru sveitarfélögin ekki að biðja ríkið um að gefa sér neitt, þó að þetta frv. verði samþ. Um leið og framlag Jöfnunarsjóðs til Lánasjóðsins eykst, minnkar að sama skapi það fé, sem kemur til skipta eftir höfðatölureglunni milli sveitarfélaganna. Það minnkar miðað við áætlun í ár um 32 millj., sem fer þannig til Jöfnunarsjóðsins. Frá ríkinu er hins vegar verið að biðja um 15 millj. í viðbót við það, sem áður var, og virðist ekki vera farið fram á mikið. Það kann vel að vera, að eðlilegt teljist, að ríkissjóður láti jafnmikið og Jöfnunarsjóðurinn, og ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi það, eins og hv. 2. þm. Austf. minntist á áðan.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að segja meira á þessu stigi málsins. Ég styð að sjálfsögðu þetta frv. og vildi aðeins þakka hæstv. ríkisstj. fyrir góðar undirtektir.