14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

84. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég vil enn á ný mótmæla því, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að að málinu hafi verið staðið á óþinglegan hátt varðandi boðun fundar í menntmn. þessarar hv. d. Til þess fundar var boðað með eðlilegum hætti, og það hefur vitanlega oft komið fyrir áður að menn hafi ekki allir getað mætt. Ég hygg að nefndarálit, sem hv. þm. hafa fyrir framan sig á borðunum, sýni hvað gleggst að slíkt kemur fyrir. Það tel ég ekki ásökunarefni fyrir þá sem efna til fundar með þeim sem mætt geta. Það er hin venjulega aðferð hér á Alþ.

Í öðru lagi það, að þetta mál hafi ekki verið sent til umsagnar, þá vitnaði ég til þess í gær, þess eina fordæmis, sem fyrir er um þetta efni í sögu Alþ., það er frá 1943, þegar nákvæmlega sama breyt. var gerð á þáv, útvarpslögum og nú er gerð, þ.e.a.s. að fram að því gilti að útvarpsráð var kjöríð til 4 ára, en þá kom fram brtt. um að það skyldi kosið að afloknum alþingiskosningum, sem sagt nákvæmlega shlj. brtt. og þetta frv. felur í sér og því var ekki vísað til umsagnar þá. Þess vegna segi ég: Það er fordæmi fyrir því, sem ég studdist við þegar ég ákvað að eigin frumkvæði að hafa ekki forustu um að vísa málinu til umsagnar, enda tel ég þetta mál sem Alþ. sjálft verði að ákveða, en eigi ekki að spyrja hvorki útvarpsstjóra né starfandi útvarpsráð að. Þetta er mín skoðun.

Ég mótmæli því öllum aðdróttunum varðandi afgreiðslu málsins og endurtek það sem ég sagði í gær. Ég rakti þar í nokkru máli á hve margan hátt útvarpsráð hefur verið skipað á 46 ára starfsferli þess, hvernig kjörtímabili þess hefur verið háttað, sem hefur verið með allbreytilegu móti. Menn hafa verið að leita eftir leiðum í þessu efni, en sú till. eða það frv., sem hér liggur fyrir, gengur í þá átt að færa þessi ákvæði til sama vegar og ákveðið var 1943 og gilt hafa í 28 ár af 46 ára tíma, sem lög hafa gilt um útvarpsráð. Að þetta hafi ekki fengið þinglega meðferð, herra forseti, í n. því mótmæli ég harðlega.