14.12.1974
Sameinað þing: 23. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mál það, sem hv. 2. þm. Austf. gerði hér að umræðuefni, er mjög þýðingarmikið varðandi starfshætti Alþingis. Í þingsköpum mun ekki vera einn stafur um umr. utan dagskrár. Það er því algerlega á valdi forseta hvort hann yfirleitt leyfir slíkar umr. og hvernig hann hagar þeim. Hins vegar er fyrir því löng hefð, að forsetar leyfi þessar umr. yfirleitt og hafi yfirleitt ekki sett þeim strangar skorður, enda þótt þeir reyni yfirleitt, sem eðlilegt er, að láta þær ekki brjóta eðlileg bönd eða hindra aðra vinnu á þinginu. Hins vegar hefur orðið á þessu breyting eftir 1972, þegar þingsköpum var breytt, og síðan þá hafa forsetar oft minnst á að þeir telji rétt að sömu tímatakmörk gildi um ræðuhöld utan dagskrár eins og um fsp.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að umr. geti átt sér stað utan dagskrár, vegna þess að það koma oft fyrir þau atvik í þjóðfélaginu sem gera óhjákvæmilegt að Alþ. ræði þau þegar í stað. Eftir því sem ég best veit eru ýmsar mismunandi leiðir til þess að slíkar umr. geti átt sér stað í öllum lýðfrjálsum þingum.

Um þetta hafa menn hugsað töluvert mikið og eftir þær deilur, sem urðu nú nýlega, gerði ég mér það til dundurs, að ég samdi frv. um breytingu á þingsköpum þar sem sett væru inn ákveðin ákvæði um þessar umr. Ég lagði þetta frv. inn í gær og það er í prentun, og ætlun mín var að koma með því af stað umr. um það hvort við ættum ekki að setja þetta mál í fastar skorður.

Umr. utan dagskrár eru oft í því formi að menn byrja á því að spyrja ráðh. um eitt eða annað varðandi atvik sem gerst hafa, og það er þess vegna sem forsetar hafa borið þessar umr. saman við fsp. En í raun og veru eru umr. oftast miklu víðtækari og því alls ekki eðlilegt að láta gilda um þær sömu reglur og gilda um fsp. þó að til séu þau atvik að ástæðulaus sé lengri ræðutími. Hitt er svo rétt að viðurkenna líka, að umr. utan dagskrár eru oft notaðar í pólitískum tilgangi, er menn reyna að komast þar að til þess að vekja athygli á sjálfum sér og málum sínum, og fjölmiðlar eru óneitanlega sekir um að skýra meira frá umr. utan dagskrár heldur en innan dagskrárinnar.

Frá sjónarmiði Alþingis er æskilegt að umr. utan dagskrár verði ekki það fyrirferðarmiklar, að þær gangi út yfir önnur þingstörf. En ég endurtek, að ég tel það einn þýðingarmesta þátt í starfi Alþ., að hægt sé að hefja hér þegar í stað umr. um ýmsa atburði sem gerast í þjóðfélaginu. Þeir eru oft, t.d. atburðir á vettvangi utanríkismála, landhelgismála eða annars slíks, með þeim hætti að með öllu er fráleitt að takmarka menn við tveggja mínútna ræðutíma.

Af því að mál þetta ber nú á góma vil ég aðeins skýra frá því, að ég hef lagt þetta frv. fram og það kemur væntanlega til umr, eftir jól svo að menn geta þá íhugað hvort rétt er að viðurkenna tilvist slíkra umr. og setja einhver ákvæði inn í þingsköp um þær. Mætti þá e.t.v. skilja á milli þess, ef umr. utan dagskrár eru tiltölulega einföld fsp, til ráðh. þá má láta tímatakmörk fsp. gilda og þá er það rétt, sem t.d. Eysteinn Jónsson sagði oft, að hann teldi algerlega óeðlilegt að menn gætu skotið inn fsp. utan dagskrár og þar með fengið sérréttindi fram yfir alla þá sem leggja fram fsp. skriflega eftir þingsköpum og verða stundum að bíða í margar vikur eftir að fá svör.

Þetta eru vandamál sem eru leyst á mjög sérkennilegan hátt í sumum þingum. Það er t.d. algengast í breska þinginu, ef menn vilja fá að tala á svipaðan hátt og við gerum utan dagskrár, þá flytur þm. till. um að fundi skuli slitið. Þeir líta svo á að till. um það, að fundi skuli slitið, sé svo viðtæk að í sambandi við hana megi tala um allt milli himins og jarðar. Þeir gera þetta yfirleitt seint á fundum sem lýkur venjulega um tíuleytið á kvöldin hjá þeim. En ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það að þörfin er viðurkennd víða og ýmsar leiðir farnar. En við skulum íhuga hvort við eigum ekki að setja þetta í fastan ramma.