16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

1. mál, fjárlög 1975

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ef ég hefði haldið hér langa ræðu áðan sem í hefði verið einhver ádeila, þá hefði hv. 5. þm. Vestf. haft efni í langa ræðu, fyrst hann gat talað svona lengi með jafnmiklum ákafa um þær upplýsingar sem ég gaf. Það er afskaplega erfitt að deila við menn sem beita þeim orðatiltækjum einum, að andstæðingurinn fari með rangt mál, án þess að finna því nokkurn stað. Hv. 5. þm. Vestf. leyfði sér þó þetta og gerði mér upp alls konar orð sem ég ætla, þegar ég fæ ræðu mína prentaða og ræða hans kemur líka prentuð, að bera saman hvort rétt eru eftir höfð.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara hér í deilur í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna nú. Hitt verð ég að segja hv. þm., að við skulum ekkert vera að þrefa um það hvenær afgreiðsla Atvinnuleysistryggingasjóðs var á hafnarlánabeiðni samgrn. Ég skal fá bókun af afgreiðslunni og lesa hana upp við 3. umr. Í sept. var hún ekki gerð. Hvort hún getur verið frá fundinum í nóv. eða fyrsta fundinum í des. skal ég ekki fullyrða, en fyrr var það ekki, því að ég hafði samband við nokkra úr stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að biðja um þessa afgreiðslu. Um það skulum við ekki þrefa, því að ég skal leggja það hér fram við 3. umr. þessa fjárlfrv.

Út af þessu Súðavíkurmáli mun hér á morgun verða útbýtt í hv. Alþ. skýrslu þeirri sem hefur verið gerð um hafnir á Íslandi, þar sem mun vera byggt á um framkvæmdir á árunum 1975–1978 og till. um hafnarframkvæmdir á árinu 1975 var á þessu byggð. Þar segir svo um Súðavíkurbryggjuna: „Löndunarkantur, 50 m staurabryggja, 24 millj. Dýpkun með grafskipi, 5 þús. rúmmetrar, 10 millj. Samtals 34 millj. kr.“

Það, sem þessi hv. þm. var hins vegar að fara fram á og hélt fram m.a. í umr. við mig s.l. föstudag, var stálþil sem ætti að gera þar. En þær upplýsingar, sem ég fékk hjá hafnamálastjórninni, verkfræðingi þeim sem hefur m.a. unnið þessa skýrslu, voru að það væri af mörgum talið og sér m.a. heppilegra að hafa staurabryggju heldur en gera stálþil, og uppfyllingin frá bryggjunni fram að stálþilinu eða staurabryggjunni breytist við það, hún yrði miklu styttri ef staurabryggjan yrði notuð. Að þessu leyti taldi ég málið óklárað eins og hann, það væri ekki framkvæmanlegt að ákveða sig með þetta fyrr en niðurstaða væri komin um hvort ætti að nota staurabryggju eða stálþil. Þetta vildi ég nú biðja hv. 5. þm. Vestf. að taka til athugunar og draga úr fullyrðingum sínum, þó að hann eigi eftir að tala hér oftar um þessa framkvæmd. Ég kann engin skil á því hverju hefur verið lofað um þessa framkvæmd á s.l. ári, en ég minnist þess ekki að ég hafi neitt slíkt loforð gefið.

Um Ísafjörð, sem hv. þm. var einnig að tala um, þar var talað um að fá steypta þekju, ganga frá vatnslögn og raflögn. Verkfræðingurinn sem ég talaði við, Bergsteinn Gizurarson, sagði að auðvitað yrði ekki gengið frá þessu fyrr en búið væri að gera stálþilið. Í hafnaráætluninni er það niðurrekstur og frágangur á stálþili, 60 m, og svo öðru, sem er 100 m, og svo bryggjan. Þegar þetta væri búið, þá væri hægt að ganga frá dekkinu, en það væri ekki hægt að byrja á því að byggja þakið, það yrði að byrja á veggjunum. Svo getur hv. 5..þm. Vestf. talað hátt og talað um að maður fari með tóm ósannindi. Hann getur leyft sér slíkan málflutning, ef það er að hans skapi. Ég læt mig það engu skipta.

Hitt verð ég svo að segja hv. 5. þm. Vestf., að ég fór í gærkvöld að lesa í Alþingistíðindunum frá í fyrra, m.a. úr fjárlagaumr. þá og einnig frá síðustu atburðum þingsins, áður en því lauk á s.l. vori. Ég veit ekki hvort þessi hv. þm. hefur meira til þess en aðrir hv. þm. hér í salnum að harma það að vinstri stjórnin skyldi ekki starfa áfram. Ég held að hann þyrfti að endurskoða eitthvað af sinni fyrri hugsun og sínum fyrri gerðum áður en hann leggur ríka áherslu á það.

Ég skal svo segja honum það, að ég mun hvar sem er og hvenær sem er verja mínar gerðir sem fjmrh. og ekki biðja á þeim afsökunar. Fyrst verður hv. 5. þm. Vestf. að gera sér grein fyrir að það verður hvorki í höfnum né öðrum framkvæmdum gert allt samtímis. En það, sem er mergurinn málsins, er í þeirri áætlun sem nú verður unnið að og verður lögð hér fyrir til afgreiðslu á hv. Alþ. eftir áramótin, þ.e. áframhald á þeirri uppbyggingu sem hafin var á þessu ári. Það er áframhald, einmitt þannig uppbyggt með jöfnum þunga, en ekki stillt inn á síðustu árin eins og hv. 5. þm. Vestf. vildi vera láta. Hann þarf í þeim efnum sem öðrum að gæta betur að raunveruleikanum en hann gerði í ræðu sinni áðan.