17.12.1974
Neðri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. d. hefur tekið frv. fyrir á þremur fundum og mælir með því að það verði samþykkt. Á fund n. komu fulltrúar frá Orkustofnun, frá Rafmagnsveitum ríkisins og frá Hönnun hf. Þessir aðilar sendu allir skriflega grg. um þetta mál og má segja að undirtektir þessara aðila hafi verið jákvæðar, en allir vöktu þeir athygli á því að nákvæmar rannsóknir vantaði áður en hægt væri að hefja framkvæmdir við virkjun Bessastaðaár. Það liggur vitanlega í augum uppi og kom fram hér í hv. d. við 1. umr. málsins, að málið er ekki tilbúið til þess að það verði tekið á framkvæmdastig að svo stöddu.

Einnig barst n. erindi frá náttúruverndarráði, og tók náttúruverndarráð fram að það gæti ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli, vegna þess að ekki hefði farið fram sú athugun sem ráðið telur nauðsynlega. Þarf kortagerð og ýmislegt fleira að koma til sem ekki verður tilbúið fyrr en seinna í vetur. En eins og ég sagði, þá mælir margt með því að þessi virkjun geti verið hagstæð.

Í umsögn Orkustofnunar kom fram að það væri líklegt að það gæti verið mjög hagstætt að tengja saman Kröfluvirkjun og virkjun Bessastaðaár. Það kom einnig fram að nauðsynlegt yrði að gera uppistöðulón til þess að tryggja nægilegt vatnsmagn við virkjunina. En það hefur verið þannig við Austfjarðavirkjanir, þær tvær sem núna eru komnar eða eru að komast í gagnið, að það vantar vatnsmagn. Virkjun Grímsár vita allir um, að þar er mikill vatnsskortur, og virkjun Lagarfoss í því formi sem hún er nú virðist ekki ætla að koma að tilætluðum notum vegna vatnsskorts. En það kemur fram í álitsgerðum, bæði frá Rafmagnsveitum ríkisins og einnig frá Orkustofnun, að með því að koma fyrir uppistöðulóni uppi á heiðum, þá muni það bæta mjög Lagarfossvirkjun, þannig að líklegt sé að þá megi bæta vélasamstæðu við í Lagarfossi og auka orkuna þar um 5–6 mw. Þetta telja þessir aðilar að muni verða ef að líkum lætur og ef þær vonir, sem við þetta eru bundnar, bregðast ekki þegar fullnaðarrannsóknir hafa verið gerðar.

Þá er tekið fram, ef virkjun verður gerð í Bessastaðaá á þann hátt sem hér um ræðir, að þá muni það vera heppileg virkjun, ekki aðeins í nútíð, heldur sé það heppileg byrjun á því sem koma skal síðar, virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Það er ekki talinn neinn tvíverknaður að virkja í Bessastaðaá 30–35 mw. þótt siðar meir komi stórvirkjun í Jökulsá í Fljótsdal. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar rætt er um þessi mál, því að einhvern tíma kemur að því að Jökulsá í Fljótsdal verði virkjuð, og þar er talið heppilegt að virkja 250–300 mw. Það hefur verið gerð bráðabirgðaskoðun á vatnasvæði Austurlands, þannig að menn hafa getað gert sér nokkurn veginn grein fyrir því að þar er um mikið vatnsmagn að ræða til virkjunar. Hefur verið giskað á, að þar muni vera um 1600 mw. sem geti verið hagkvæmt að virkja, en heildarrannsóknir vantar enn þá. En það tekur tiltölulega langan tíma og kostar mikið fjármagn að gera nákvæmar rannsóknir á öllu svæðinu. En það er mjög æskilegt, að þær verði gerðar sem allra fyrst og það liggi fyrir hve mikill þjóðarauður er þarna ónotaður. Enginn vafi er á því, að þegar fullnaðarrannsóknir hafa farið fram á þessu svæði, þá er auðveldara að haga virkjunaráföngum þannig að það sé á sem hagkvæmastan máta gert frekar en ef ekki liggur fyrir heildaráætlun um það virkjanlega afl sem fyrir hendi er.

Talið er að það muni taka a.m.k. 3–4 ár að virkja Bessastaðaá þegar reiknað er með þeim undirbúningstíma sem óhjákvæmilega verður að reikna með fyrir þessa virkjun. En Kröfluvirkjun ætti, eins og lýst hefur verið, að geta komið allmiklu fyrr. Orkustofnun heldur því fram og reyndar Rafmagnsveitur ríkisins einnig, að það megi tryggja orku fyrir Austurland með linu frá Kröfluvirkjun fyrst um sinn. En nauðsyn ber til að hraða virkjun í Bessastaðaá frekar en að austfirðingar treysti á orku frá Kröflu með línu til Austurlands.

Það er ekki ástæða til að ræða þetta frekar í löngu máli. Frv. liggur fyrir með grg., um það hefur verið allítarlega rætt og ýmsar skýrslur liggja fyrir sem n. hefur séð. N. var sammála um að greiða fyrir þessu máli, helst að það yrði að lögum nú fyrir jólafrí. Þegar lög eru komin um þessa virkjun hefur ríkisstj. frekar ástæðu til að hraða rannsóknum í málinu. Hún hefur þá fyrir hendi vilja Alþ. og hefur frjálsari hendur með að leggja í nokkurn kostnað við rannsóknirnar heldur en ef það væri í óvissu hvort heimild Alþ. fengist fyrir framkvæmdinni.

Það er aðeins ein smávegis brtt., sem n. varð sammála um að flytja við 2. gr., og hún hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta, það kemur aftan við 2. gr. frv., svo hljóðandi:

„Sem hluti af virkjuninni skulu gerðar ráðstafanir sem að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og að dómi sérfræðinga teljast nauðsynlegar til að draga úr hugsanlegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki umhverfisins svo sem frekast er kostur.“

Þetta finnst öllum sjálfsagt, og það er ekki sterkar að orði kveðið en er í náttúruverndarlögum, þótt þessi breyting væri ekki gerð á frv. til l. um Bessastaðaárvirkjun væri samt sem áður skylt að fara eftir því sem er í gildandi lögum. En það fer öllu betur á því að setja þetta einnig inn í virkjunarlögin og varð því fullt samkomulag um að gera það.

Ég sé ekki, hæstv. forseti, ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. og vil endurtaka það, að n. öll varð sammála um að greiða fyrir málinu eins og frekast er unnt.