17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og þykir hlýða að greina frá því, hvers vegna ég skrifa undir með fyrirvara. Það stafar ekki af andstöðu við málið sem slíkt, heldur felli ég mig ekki við þau vinnubrögð sem höfð eru í sambandi við það í hv. iðnn.

Ég sagði áðan, þegar við töluðum um hitaveitu á Suðurnesjum, að ég teldi að nefndum Alþingis bæri að fylgja þeirri reglu yfirleitt að fara gaumgæfilega yfir þau mál, sem fyrir nefndirnar eru lögð, og afla sér nægilegrar vitneskju, taka til þess nægan tíma án þess þó að halda uppi nokkrum óeðlilegum töfum á slíkum málum. Ég sagðist telja að fyrirgreiðsla eins og sú, sem við veittum í sambandi við hitaveitu á Suðurnesjum, hlyti að vera undantekning, við gætum ekki gert það nema þegar sérstaklega stæði á og við vissum að mikið ylti á að mál fengju skjótan framgang.

Því er ekki þannig varið um það mál, sem hér liggur fyrir, frv. til l. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Það er ekki um það að ræða að teknar verði ákvarðanir um neinar framkvæmdir á næstunni, því að þetta mál er hreinlega á undirbúningsstigi, á rannsóknarstigi. Það sem þar hefir verið gert, er að ungur verkfræðingur hefur samið prófritgerð um þessa virkjun og er það vafalaust vel umnið verk, en það er eftir að vinna m.a. að því að teikna kort af þessu svæði. Það liggja fyrir ljósmyndir, en það er verið að teikna þessi kort úti í Svíþjóð og þau munu ekki verða tilbúin fyrr en í jan.–febr. Ýmsar aðrar kannanir þarf að gera. Hæstv. iðnrh. skýrði frá því við 1. umr. málsins að hann hefði falið tilteknu fyrirtæki hér í bæ að hanna þessa virkjun, þannig að allur þessi undirbúningur er í fullum gangi og það þarf ekki neitt frv. til l. um virkjun Bessastaðaár til þess að flýta þessum undirbúningi. Ég sé því enga ástæðu til annars en við fengjum þá vitneskju í iðnn. sem við óskuðum eftir að fá.

Raunar er eina ástæðan til þess að formaður iðnn. vildi endilega afgreiða málið nú fyrir jól að það væri ósk frá hæstv. iðnrh. Það var ekki gefin nein önnur skýring á þessum vinnubrögðum en sú, að þetta væri ósk hæstv. iðnrh., engin málefnaleg skýring, enginn rökstuðningur fyrir því að þetta væri nauðsynlegt að einu eða öðru leyti, að þetta mætti ekki einu sinni athuga eftir jólaleyfi og síðan afgr. á sinn hátt eins og önnur mál. Nei, það lá fyrir ósk frá hæstv. iðnrh. og þess vegna þurfti að afgreiða málið án þess að svarað hefði verið ýmsum spurningum um það.

Ég er algerlega á móti vinnubrögðum af þessu tagi. Ég tel að Alþ. megi ekki líta á sig sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. Það er vissulega nauðsynlegt að það sé höfð sem best samvinna milli ríkisstj. hverju sinni og nefnda, en n. mega ekki líta á sig sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. þannig að ef einhver ráðh. segir: Nú verðið þið að hætta í miðjum klíðum við það verk sem þið hafið verið að vinna, vegna þess að ég vil fá málið fram á þingi, þá sé það gert. Þetta þykir mér vera algerlega fráleitt.

Ég sem sagt skrifaði undir með fyrirvara af þessari ástæðu, að mér finnst við ekki hafa fengið nægilega vitneskju í iðnn. í sambandi við þetta mál. Ég t.d. óskaði eftir því að fá vitneskju um hvernig áformin um þessa virkjun tengdust við ákvörðunina um virkjun Kröflu. Eins og menn muna var ákveðið að tengja Kröfluvirkjun við Austfjarðasvæðið, og eins og kom fram í dag í mjög ánægjulegri skýrslu frá hæstv. iðnrh. er ástæða til að vera með mikla bjartsýni um það hversu vel gangi að virkja við Kröflu. Hæstv. ráðh. taldi allar líkur á því að virkjunin gæti tekið til fullra starfa á árinu 1977 og það væru vonir til þess að hún gæti hafið framleiðslu fyrr. Það er þannig alveg augljóst mál að raforka frá Kröflu er skjótvirkasta leiðin til þess að tryggja Austfjörðum raforku á því vandræðaskeiði sem fram undan er. Það hlýtur því að verða tengt þarna saman, enda svaraði hæstv. iðnrh., þegar ég spurði hann um það, að það væri engin breyting á þeim áformum að tengja Kröfluvirkjun við Austfirði. En þá óskaði ég eftir því í n. að fá vitneskju um samhengið á milli þessara framkvæmda, þ.e.a.s. hvenær talið væri æskilegt að Bessastaðaárvirkjun tæki til starfa, miðað við það að Austfirðir ættu kost á raforku frá Kröfluvirkjun, og hver væri orkuspáin fyrir þetta svæði, hver ætti þá að vera virkjunarröðin o.s.frv. Um þetta gat ég enga vitneskju fengið. Svo er sitthvað fleira, sem er mjög óljóst í þessu sambandi. T.d. segir svo í svari frá Jakob Björnssyni orkumálastjóra við fsp. frá n., með leyfi hæstv. forseta:

„Virkjunin getur vel fallið inn í heildaráætlun um virkjunarframkvæmdir í Fljótsdal. Til þess er nauðsynlegt að hafa virkjunina neðanjarðar og 1–2 km inni í fjallinu. Ekki er ljóst hvort af þessu hljótist aukakostnaður, þótt vel megi það vera, en aðallega krefst þetta tíma til þess að gera jarðgöng að stöðvarhúsi, en það er nánast viðbótarvirkjunartími um a.m.k. eitt ár. Með gerð tilraunajarðganga, sem byrjað væri á strax á næsta ári, mætti draga úr þeirri seinkun sem af þessu verður.“

Þannig virðist það vera óljóst, hvaða virkjunartilhögun þarna verður um að ræða, og til þess að fá úr því skorið þarf að gera þarna tilraunagöng, kostnaðarsama framkvæmd, en getur verið æskileg, ef hún skilaði jákvæðum árangri, sem ekki er vitað um. Enn fremur segir svo í þessu áliti:

„Tilraunagöng verða gerð eins grönn og ódýr og frekast er unnt og látin vera á þeim stað sem aðkeyrslugöng að stöðvarhúsi verða. Við uppbyggingu Bessastaðavirkjunar verða þau svo útvíkkuð í þá stærð, sem þarf fyrir aðkeyrslugöng, og jafnvel með frárennsli Bessastaðaárvirkjunar í kjallara ganganna. Tilraunagöngin eru jarðfræðirannsókn, sem öðruvísi framkvæmd er mjög dýr og tímafrek og styttir ekki byggingartíma Bessastaðaárvirkjunar. Tilraunagöng eru að sjálfsögðu líka mjög kostnaðarsöm framkvæmd, en kostir þeirra eru að þau falla inn í endanleg mannvirki með tilvist aðkeyrsluganga að stöðvarhúsi neðanjarðar og mundu aftur flýta gerð stórvirkjunar sem byggingartíma aðkeyrsluganganna nemur“

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. í þessu sambandi hvort á fjárl. næsta árs, þar sem orkuþátturinn hefur ekki verið afareiddur enn þá, verði gert ráð fyrir fjárveitingu til þess að gera þessi tilraunagöng. Mér sýnist þurfa mörg ákvörðunaratriði í þessu sambandi, en ekki lagasetningu með heimild til virkjunar.

Í annan stað segir svo í áliti orkumálastjóra: „Í lögum um Kröfluvirkjun er gert ráð fyrir að hún verði tengd aðalorkuflutningskerfi Austurlands. Það er ljóst, að Kröflu getur verið mun fyrr lokið en bjartsýnustu áætlanir um Bessastaðaárvirkjun gera ráð fyrir. Það er því beinlínis hægt að gera ráð fyrir að Bessastaðaárvirkjun verði í tengingu við Kröflu og Norðurland þegar hún tekur til starfa. Kröfluvirkjun er í eðli sínu grunnaflsvirkjun. Þessar virkjanir geta því unnið mjög vel gaman, þar sem önnur er grunnaflsstöð, en hin toppstöð. í þessu sambandi er rétt að athuga hver stærð Bessastaðaárvirkjunar á að verða. Nauðsynlegt er að hafa hana mun stærri en ella með samrekstur í huga og einnig að hún verði þá eðlilegri hluti stórvirkjunar á staðnum. Er því eðlilegt að láta ákvörðun um stærð véla í Bessastaðaárvirkjun standa opna, þar til frekari athuganir hafa verið gerðar. Raforkumarkaður austanlands verður með mjög sterka árssveiflu vegna rafhitunar. Er því æskilegt að tengja Austurland öðru svæði með minni árssveiflu í raforkunotkun, sem mun væntanlega verða til betri nýtingar orkuvinnslutækja beggja kerfa. Loks má geta þess, að Krafla mun hafa heldur meiri afkastagetu á vetrum en sumrum, sem gerir hana mjög heppilega til tengingar inn á rafhitunarsvæði. Það má því hiklaust svara því játandi, að tenging Bessastaðaárvirkjunar og Kröfluvirkjunar geti komið að góðum notum.“

Þarna kemur fram hjá orkumálastjóra, að það sé ekki tímabært að taka ákvörðun um stærð þessarar virkjunar, það þurfi frekari athuganir, könnun, áður en hægt sé að taka slíka ákvörðun. Mér finnst satt að segja vera farið dálítið aftan að hlutunum að ætla að leggja áherslu á lagasetningu fyrir jól, eins og talað er um, þegar vitað er að fram undan er fyrst og fremst mikið rannsóknarstarf, könnunarstarf. Mér finnst að með þessu móti sé verið að gefa austfirðingum í skyn að þarna sé einhver lausn á þeirra bráða raforkuvanda. Auðvitað vitum við allir, að svo er ekki. Hér er um að ræða áform, sem ekki geta orðið að veruleika fyrr en eftir æðimörg ár, 4–5 ár, að því er virðist.

Eins og frsm. iðnn. vék að barst einnig bréf frá Náttúruverndarráði og þar kom fram að ráðið skorti vitneskju til þess að geta tekið afstöðu til málsins og að virkjun Bessastaðaár hefði ekki verið rædd á fundum Náttúruverndarráðs, en næstu fundir þess yrðu eftir miðjan jan. Hins vegar var sent afrit af fundargerð frá n. þeirri sem sett var á laggirnar í tíð fyrrv. ríkisstj., samstarfsnefnd Náttúruverndarráðs og iðnrn., og þar hafði verið fjallað nokkuð um þessi áform, virkjun Bessastaðaár. Og þar er svo komist að orði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Orkumálastjóri upplýsti að nákvæmari gagna væri þörf til að endanlega væri hægt að segja fyrir um virkjunartilhögun, ekki síst korta vegna miðlunarlóna, en þeirra mætti vænta á fyrsta ársfjórðungi 1975 og e.t.v. í byrjun febr.

Að því er varðar umhverfismál kom þarna fram um gróðurlendi, að ljóst er að nokkurt gróðurlendi fer undir vatn í miðlunarlónum. Í okt. s.l. var að frumkvæði Sambanda sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi haldinn fundur með hreppsnefnd Fljótsdalshrepps um Bessastaðaárvirkjun og var Haukur Tómasson þar viðstaddur. Fundurinn var til kynningar og engin samþykkt var þar gerð, en æskilegt talið að fá sérfræðilegt mat um áhrif á gróðurlendi. Samstarfsnefndin mun óska eftir því við Ingva Þorsteinsson magister að gerð verði gróðurkort af svæðinu sem vatnsmiðlanir taka til. og mun Jakob Björnsson koma þeirri beiðni á framfæri. Talið er að ríkið sé eignaraðili umrædds landssvæðis þ.e.a.s. jarðanna Skriðuklausturs og Valþjófsstaðar .“

Sitthvað fleira kom fram á þessum nefndarfundi, sem enn er óljóst, og segir að lokum:

„Fulltrúar Náttúruverndarráðs munu kynna sér fram komin gögn og gera grein fyrir málinu í Náttúruverndarráði, og frekari málsgögn varðandi hönnun virkjunarinnar verða lögð fram af fulltrúum iðnrn. er þau liggja fyrir.“

Þarna sem sé er um það sama að ræða, það skortir enn þá þá vitneskju sem þarf til þess að hægt sé að ákveða framkvæmdir. Þess vegna get ég ekki séð hvað þessi undarlegi eftirrekstur nú á annatímum fyrir jól hefur að þýða, annað en það að hægt sé kannske að segja frá því í blöðum að menn séu að leysa orkuvandamál Austfirðinga með þessu móti, sem því miður er ekki raunin. Þrátt fyrir það mun ég ekki leggjast gegn þessu frv., heldur greiða því atkv. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að hæstv. iðnrh. hafi þessa heimild. En ég er hræddur um að hann kunni að þurfa að koma til Alþ. aftur með ýmis atriði í þessu sambandi, vegna þess að þarna er verið að taka ákvarðanir áður en nægileg vitneskja er tiltæk, og ég víl treysta því að hæstv. ráðh. hafi þá þann hátt á að hann leiti til Alþ. á nýjan leik þegar betur er vitað um forsendur þessarar væntanlegu virkjunar.

Ég flyt á þskj. 166 litla brtt. við frv. eins og það liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj. Í 4. gr. frv. segir svo:

„Óski sveitarfélög á Austurlandi að gerast eignaraðili að virkjun Bessastaðaár og öðrum orkuverum á orkuveitusvæðinu er ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd virkjunaraðilans“ — sem er Rafmagnsveitur ríkisins. Ég legg til, að þessi gr. orðist svo:

Ríkisstj. er heimilt að fela væntanlegri Austurlandsvirkjun, sem yrði sameignarfélag ríkis og sveitarfélaga á Austurlandi, að reisa og reka vatnsaflsvirkjunina í Bessastaðaá.“

Þetta er alveg sama orðalag og alþm. urðu sammála um í sambandi við Kröfluvirkjun. Þar var ríkisstj. heimilað að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun að reka og reisa gufuaflsvirkjun við Kröflu, og þetta byggist á því að undanfarin ár hefur mikið verið að því unnið í samráði við sveitarstjórnarmenn að gera áætlun um hvernig hægt væri að koma upp orkuöflunarfyrirtækjum í hinum ýmsu landshlutum. Á sumum stöðum er þetta starf langt komið og ég tel að hér væri um mikið nauðsynjamál að ræða. Ég held að það mundi styrkja landshlutana ákaflega mikið, fá hjá þeim eðlilegan samhug um myndarlegt átak á þessu sviði í staðinn fyrir smærri sjónarmið, sem oft hafa þar verið uppi, og þetta mundi einnig gefa landshlutunum möguleika á að koma á framfæri óskum sínum á miklu greiðari hátt en verið hefur, þannig að það þyrfti ekki að koma til þeirra vandkvæða sem við þekkjum um mjög langt árabil. En ég tel að þetta verði að gerast kerfisbundið og að hér á Alþ. þurfi að setja löggjöf um starfsemi slíkra landshlutavirkjana. Ég vil t.d. vara mjög við því, ef sá háttur yrði upp tekinn eða væri hugsanlegur, sem ég veit ekkert um, að einhverju tilteknu sveitarfélagi á Austfjörðum væri leyft að gerast aðili að hugsanlegri Bassastaðaárvirkjun, en önnur sveitarfélög kynnu ekki að hafa áhuga á því. Við þekkjum slíkt fyrirkomulag. Það er t.d. ákaflega annarlegt að mínu mati að aðeins Reykjavik ein skuli eiga aðild eð Landsvirkjun af sveitarfélögunum hér á Suðvesturlandi. Ég er þeirrar skoðunar að þessi sveitarfélög ættu öll að eiga aðild að Landsvirkjun og það mundi þar leysa margan vanda. Á sama hátt held ég að það hafi verið mikil mistök á sínum tíma þegar aðeins Akureyri varð aðili að Laxárvirkjun ásamt ríkinu. Ég held að þau skipulagslegu mistök hafi verið ein meginástæða þess hvernig mál þróuðust þar nyðra með afleiðingum sem allir þekkja, þannig að við skulum gera okkur ljóst að þessi skipulagsmál eru ekkert hégómamál og að við getum verið að taka ákvarðanir um þróun langt fram í tímann þegar við tökum skynsamlegar ákvarðanir um þau efni. Ég tel sem sé eðlilegt, ef heimildin til ríkisstj. á að koma á annarri skipulagningu á orkuframleiðslu á Austfjörðum en verið hefur, að hún yrði orðuð á sömu lund og Alþ. varð sammála um að gera í sambandi við Kröfluvirkjun og að slík heimild muni ýta undir áhuga og frumkvæði heimamanna um að stuðla að slíkri þróun.