17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

84. mál, útvarpslög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að koma á framfæri þeirri skoðun minni, að mér finnst þeim hv. þm., sem sæti eiga í fjvn., sýnd lítilsvirðing með því að ætla þeim, á sama tíma og þeir eru að vinna að gerð fjárl., að rætt sé hér í hv. d. svo umdeilt mál sem hér er komið á dagskrá og ég geri ráð fyrir að allir hv. alþm. vilji fá að fylgjast með.

Ég fyrir mitt leyti mótmæli því, að þetta mál sé tekið hér á dagskrá, ef það er meining hæstv. ríkisstj.fjvn. sinni störfum og ljúki störfum að gerð fjárl. nú í þessari viku. Ég vil benda hæstv. menntmrh. á það, að enn hefur ekki fengist í fjvn. umr, um rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins. Það virðist vera meiri áhersla lögð á aðra þætti að því er varðar þá stofnun. Og mér finnst það lítilsvirðing við hv. þm., sem sæti eiga í þeirri n., hvort sem þar er um stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga að ræða, að þeim sé boðið það að þetta mál sé tekið hér á dagskrá, jafnumdeilt og það er, þannig að þm. gefist ekki tækifæri til að fylgjast með umr. og láta skoðanir sínar í ljós.

Ég ætla ekki nú að ræða efnislega um þetta mál, en ég vil koma þessum mótmælum mínum á framfæri. Og ég vil beina því til hæstv. forseta að hann komi þessum mótmælum mínum á framfæri við hæstv. ríkisstj., að ég ætlist til þess af þeim, sem ráða ferðinni um störf þingsins þá fáu daga sem eftir eru, að þeir leggi ekki upp í þetta, því að ef þetta er meining hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst sennilega hæstv. menntmrh. að þetta mál verði hér til umr., þá leiðir það af sjálfu sér að störf í fjvn. leggjast niður á meðan. Ég tel, að þm. sé ekki bjóðandi að vera fjarverandi við umr. um svona umdeilt mál og séu til þess settir að sitja innilokaðir við nefndarstörf. Og ég vil krefjast þess, að ef það er meining hæstv. ríkisstj. að afgreiða fjárlög fyrir jólahlé, þá verði þetta mál ekki tekið á dagskrá eða rætt meðan fjvn. situr að störfum.