18.12.1974
Efri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft frv. til l. um breyt. á l. nr. 97 27. des. 1973, um löndun á loðnu til bræðslu, til athugunar og skilað álíti á þskj. 183. N. mælir einróma með samþykkt frv., en leggur til eina breytingu sem þar kemur fram og ég mun ræða nánar.

Í frv. þessu felast fyrst og fremst þær breytingar sem styrkja eftirlit með loðnulöndun, styrkja loðnunefnd sem að þessu hefur starfað. Er það fyrst og fremst byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur að undanförnu í framkvæmd þeirra laga sem um þetta gilda. Sjútvrn. sendi drög að þessu frv. út til umsagnar og óskaði þess að svör bærust fyrir 10. nóv. Það var sent til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Félags ísl. fiskmjölsframleiðenda, Sjávarafurðadeildar SÍS, LÍÚ og Sjómannasambands Íslands, en svör bárust aðeins frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. N. fékk þessi svör til meðferðar og taldi með tillíti til þessarar meðferðar málsins ekki nauðsynlegt að senda frv. að nýju til umsagnar. Í þessum tveimur svörum, sem bárust, komu ekki fram aths. við frv. Er þar mælt með samþykkt þess, en bent á viss atriði í framkvæmd, m.a. að frv. geti aldrei orðið annað en rammi um þessa aðgerð og því sé nauðsynlegt að sjútvrn. sé heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Þetta tók rn. til greina og bætti við 4. gr. frv. þar sem segir svo:

Sjútvrn. getur sett reglur um löndun á loðnu til frystingar, enda ríki um þær samstaða milli sölusamtaka hraðfrystihúsanna og samtaka útvegsmanna og sjómanna.“

Virðist þannig fullnægt þeirri einu aths. sem fram hafur komið.

N. barst hins vegar bréflega beiðni frá einstaklingum um heimild til þess að ákveðið erlent skip fengi að landa loðnu á þessari vertíð hér á landi. Þar er um að ræða mann, sem á 1/3 í hlutafélagi í Danmörku. Hefur hann verið búsettur erlendis lengi. Það félag er að láta smíða 800 lesta skip sem mun vera skráð í Hirtshals í Danmörku. Þessi íslendingur fer fram á heimild til þess að þetta skip megi landa loðnu í íslenskum höfnum í febr. og mars 1975, enda verði áhöfn þess íslensk og það rekið af íslenskum aðila. Skipið verður m.ö.o. tekið á leigu.

Sjútvn. er ljóst að þetta er mjög vandasamt mál og getur skapað fordæmi sem nauðsynlegt er að skoða. Hins vegar er hér um einstakt tilfelli að ræða. Hér er um að ræða einstakling sem kunnur er í íslenskum sjávarútvegi, og hér er nánast um að ræða skip sem segja má að sé smíðað fyrir íslenskt skip sem fórst.

Eins og kom fram í því, sem ég sagði áðan, mun áhöfn skipsins verða alíslensk og það rekið af íslenskum aðila. Með tilliti til þessa taldi sjútvn. rétt að bæta við ákvæði til brb. sem er svo hljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði l. nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, skal m. s. Ísafold, 800 lesta skipi frá Hirtshals í Danmörku, vera heimilt að veiða loðnu í landhelgi og landa henni á svæðinu frá Patreksfirði norður um til Seyðisfjarðar sem íslenskt skip í febr. og mars 1975, enda hlíti það reglum er sjútvrn. setur, sé rekið af íslenskum aðila og áhöfn þess sé íslensk.“

Þarna er bætt við ákvæði um það svæði, sem heimilt er að leyfa þessu skipi að landa á. Það er gert í samráði við forráðamenn þessa skips. Ég vil jafnframt geta þess, að við þá menn var rætt og upplýst að eingöngu er átt við veiðar með nót, en ekki flotvörpu. Því er nauðsynlegt og raunar kæmi ekki til greina að mínu viti að veita undanþágu frá lögum um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek að n. mælir einróma með samþykkt þessa frv. með þeirri brtt., sem ég hef nú greint frá.