17.12.1975
Efri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

121. mál, almannatryggingar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram aðra brtt. við það frv. sem hér er til umr. Hún er við 3. gr., sem fjallar um 1% gjald á útsvarsstofn, og er svo hljóðandi:

„Gjaldið skal þó ekki lagt á útsvarsskyldar tekjur undir 400 þús. kr.“

Þessi till. skýrir sig nokkuð sjálf, og eins gerist nú ekki ástæða til að fjölyrða miklu frekar um mál þetta. Hæstv. fjmrh. vantar 1200 millj. kr. 1 kassann og hann hefur fengið hæstv. heilbr.- og trmrh. til að útvega þessa peninga fyrir sig með þeim hætti sem best komi út á pappírnum fyrir hæstv. fjmrh., að hækkunin komi ekki inn sem hækkun á fjárlögum. Í stað þess að leita leiða til að afla þessara tekna með venjulegum hætti, t. d. með því að hækka einhverja tekjupósta ríkisins, sem eru æðimargir, eins og menn vita, ellegar með því hreinlega að ríkið legði á 1% brúttóskatt, sem hefði líka verið hugsanlegur möguleiki, þá er sem sagt valin þessi sérstaka leið sem menn hafa hér fjölyrt um og ástæðulaust er að fara fleiri orðum um. Eins og hér hefur verið bent á, er þetta einhver óréttlátasti skattur sem unnt er að finna, því að hann leggst á alla, að vísu þeim mun meira sem menn hafa miklar tekjur, en hann er samt með þeim ósköpum gerður að jafnvel þeir, sem hafa sáralitlar tekjur, þurfa að gjalda hann. Mér finnst því að það væri sanngirnismál, að hæstv. ráðh. og stuðningsmenn haus hér á þingi gætu fallist á að þeir, sem hafa árstekjur undir 400 þús. kr., væru undanþegnir þessum skatti.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því að leitað verði afbrigða vegna þessarar till.