17.12.1975
Efri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Málatilbúnaður hæstv. ríkisstj. í þessu máli er mjög svipaður því sem gerist í flestum öðrum málum sem birtast hér í þinginu. Það er boðað fyrst að einhver ákveðin stefna skuli uppi höfð eða að haldið skuli á málum á einhvern ákveðinn hátt, og svo líður nokkur tími og aðeins eru fáir dagar til jóla og þá er því öllu kollvarpað aftur og komið með málin í allt öðrum búningi en boðað hafði verið. Þetta hefur ekki gerst einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur a. m. k. fjórum sinnum nú seinustu dagana, og eitt af þessum málum er sem sagt það mál sem hér er til umr. um þungaskatt á dísilbifreiðum.

Ég ætla ekki við 1. umr. málsins að fara mörgum orðum um þetta mál, því að ég vek á því athygli að þetta er 1. umr. málsins. Það er búið að draga til baka stjórnarfrv., sem lagt var fram, og búið að leggja fram annað frv. gjörbreytt að öllum búningi. (Gripið fram í: Miklu betra.) Það er aftur á móti sennilega alveg rétt hjá hv. þm., að hið síðara frv. er þó skömminni til skárra en það fyrra, og má kannske segja að batnandi manni sé best að lifa. En staðreynd er það engu að síður að bæði frv. eru meingölluð, og það er ókosturinn við bæði þessi frv., að lögð er óhæfileg byrði á eigendur dísilbifreiða. En eins og ég ætlaði að fara að segja, þá er þetta 1. umr. málsins og ég hef hugsað mér að gefa út nál. að henni lokinni ef meiri hl. u. vill ekki fallast á nauðsynlegar breytingar á sínu frv., og þá gefst betra tækifæri til þess að ræða þetta mál og rökstyðja það frekar. Ég vildi hins vegar, án þess að ætla að gerast hér of langorður, aðeins segja hver afstaða mín er til málsins. Hún er einfaldlega sú, að það sé sanngjarnast og eðlilegast að það 16 kr. gjald, sem innheimt er af hverjum bensínlítra og rennur til Vegasjóðs, sé einnig lagt á dísilolíu, þannig að dísilolía hækki í verði úr 32 kr. í 48 kr., en að þungaskattur sé með öllu aflagður og ekki innheimtur.

Ég þarf ekki svo sem að eyða löngu máli í að rökstyðja það, að slík tilhögun væri miklu sanngjarnari gagnvart bifreiðaeigendum, því að þá færi það eftir því hvað þeir eyða raunverulega miklu af olíu hvað þeir eru látnir greiða. En í öðru lagi væri þetta að sjálfsögðu miklu hagkvæmara fyrir þjóðarbúið, því að þetta hvetti menn til þess, að eiga og reka dísilbifreiðar frekar en bensínbifreiðar. En þar er einmitt einn helsti ágalli á því frv., sem hér liggur nú fyrir, að ég tali nú ekki um frv. sem var fyrirrennari þess, að þau frv. skáru sig frá því ástandi sem verið hefur í þessum málum, að það var ekki lengur uppörvandi fyrir menn að eiga og reka dísilbifreiðar. Útkoman hefði því orðið mjög óhagstæð með fyrra frv. og að minni hyggju einnig óhagstæð með hinu síðara frv.

Menn kunna að segja að það sé erfitt að leggja 16 kr. gjald á dísilolíu og hækka hana úr 32 kr. í 48 kr. vegna þess að þá geti menn stundað það að kaupa sér húsaolíu til kyndingar og notað hana síðan á bílinn sinn ellegar að kaupa útgerðarolíu og nota hana á bílinn sinn. En ég vildi aðeins benda á það í þessu sambandi, að það er þrenns konar verðlag á olíu í dag. Það er olía til útgerðar sem kostar rúmar 6 kr., það er olía til húsahitunar sem kostar 24.20 kr. og það er olía til aksturs sem kostar 32 kr. Það er því slíkt ástand ríkjandi á dag, að ef menn hafa vilja og möguleika til að svindla á kerfinu, þá geta þeir það og eru hvattir til þess með allmiklum verðmismun, þannig að með þessari breytingu, þ. e. a. s. með því að taka hreinlega vegaskattinn inn í olíugjaldið, þá breyttist ekki skipulag þessara mála frá því sem nú er. Það væri að vísu orðinn meiri munur á olíuverði til húsahitunar og hinu almenna verði til vélanotkunar, en sá munur væri stigsmunur, en ekki eðlismunur. Auk þess vil ég benda á það, að í mörgum öðrum löndum er glímt við nákvæmlega sama vandamál og hér er verið að glíma við og þar er þetta yfirleitt leyst með þessum hætti, að það er reynt að taka þennan skatt inn í olíuverðið, þó að það kosti það, að það verði mismunandi verð á olíu, og síðan er reynt að leysa það með ýmsum ráðum að ekki verði um mikið svindl að ræða hvað þessa innheimtu snertir. T. d. má geta þess að í sumum löndum hefur það tíðkast að lita olíuna í mismunandi litum.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ég vildi orða þessa meginskoðun mína strax til þess að mönnum gæfist þá tækifæri til að hugleiða málið, því að ég er ekki enn úrkula vonar um að vanhugsað mál, eins og þetta er, kynni að verða tekið til endurskoðunar með það fyrir augum að finna skipulag sem væri heppilegra en þetta skipulag er.