22.10.1975
Efri deild: 8. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

16. mál, heilbrigðisþjónusta á Vestfjörðum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Sem formann heilbr.- og trn. þessarar hv. d. langar mig til að segja hér nokkur orð strax, ekki síst vegna þess að flm. mun nú vera á förum af þingi. Hann tók skýrt fram að hann segði mörg stór orð. Það er að vísu alveg rétt, en það er ekki neitt nýmæli í sambandi við heilbrigðisþjónustu. Ég vil þó eindregið halda því fram að — ekki síst fyrir dreifbýlið — hafi samþykkt laga um heilbrigðisþjónustu verið mjög mikilvægt skref fram á við og að það sé svolítið erfitt að halda því fram að hún varði veginn dauðsföllum, sú samþykkt.

Ég vil enn fremur taka fram að það verður vafalaust aldrei sem við komumst það langt að hver einasti landsbúi, hvort sem hann býr í Reykjavík eða úti í hinum dreifðustu byggðum, geti fengið þá læknisþjónustu á hverjum tíma sem mundi verða honum hagstæðust og nauðsynlegust. En við vinnum að þessu og þess vegna stendur þetta í heilbrigðislöggjöfinni, að allir menn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.

En það er með heilbrigðisþjónustuna eins og annað, menn greinir á hvernig beri að framkvæma hana. Sú stefna var tekin upp með setningu nýju heilbrigðislöggjafarinnar, að færa lækna saman, stækka umdæmin í þeim tilgangi að geta veitt landsfólkinu betri þjónustu. Jafnvel þótt einn læknir sé staðsettur í Kjósinni, þá er ekki þar með sagt að hann sé tilbúinn til að veita hverjum kjósaringi tæknisþjónustu á þeim tíma sem hann þarf þess frekast með. Hann þarf að fara langar leiðir í læknisvitjun, á meðan er kannske þörf fyrir hann annars staðar og þá er hann ekki viðlátinn. Þetta var ætlunin að fyrirbyggja að mestu með því að hafa tvo eða fleiri lækna í læknamiðstöðvunum, og ekki aðeins það, heldur hafa þar sérhæft starfsfólk með læknunum, hjúkrunarkonur og fleiri aðila er gætu að hluta gegnt störfum þeirra ef þeir væru ekki sjálfir viðlátnir.

Segir það ekki nokkuð um hvað þetta er erfitt mál viðureignar, að þegar þessi lög um heilbrigðisþjónustu voru til umr. í þessari hv. d. 1973, þá viðhafði varamaður Steingríms Hermannssonar einnig stór orð. Steingrímur var þá erlendis í ákveðnum erindagjörðum eins og nú og varamaður hans sagði þá að það væri að berja höfðinu við steininn að ætla sér að hafa læknissetur á Bíldudal. Það er ekki lengra síðan en þetta og þetta var enginn glaumgosi.

Þetta var mikill og merkur bóndi og alþekktur hæfileikamaður. Ástæðan var sú, að Bíldudalur var þá búinn að vera læknislaus í 10 ár, og hann hélt því fram að héraðið væri miklu tryggara, miklu öruggara ef það fengi bættar sínar samgöngur ef það fengi öruggan og tryggan aðgang að læknamiðstöð á Patreksfirði, en það væri ekkert öryggi fyrir því, þótt ákveðið yrði um læknissetur að Bíldudal, að þar yrði læknir að staðaldri. Þetta segi ég aðeins til þess að sýna ykkur hve flókið þetta mál er. Þessi orð voru látin falla í tilefni þess, að hæstv. forseti þessarar d , Þorv. Garðar Kristjánsson, hafði hér í d. flutt brtt. við heilbrigðislöggjöfina um að hafa læknissetur á Bíldudal og í Nd. hafði núv. heilbrrh. einnig flutt þessa sömu till. En hún var felld og hún var felld á þessum grundvelli, að það væri meira öryggi að stækka umdæmin. hafa fleiri lækna og fleiri sérmenntaða starfskrafta, heldur en að einn læknir væri í hverju þorpi, með því öryggisleysi sem því var talið fylgja.

Þetta er aðeins til þess að sýna fram á hvað þessi mál eru erfið. Hins vegar hefur það svo skeð, að nú fyrst er hafin mikil uppbygging heilbrigðisþjónustunnar á Vestfjörðum og það er núna einmitt á þessu ári sem hún er fyrst og fremst stórkostleg. Ég man eftir því að 1. þm. Vestf. þá, Steingrímur Hermannsson, gerði fsp. til heilbrrh. um læknisbústað á Hólmavík. Þetta var 1972 eða 1973 og um þetta urðu allmiklar umr. M. a. kom það fram þar, að bremsunefndin svonefnda hér í Reykjavík hafði haldið 16 fundi um málið, en enn þá, þegar þessi fsp. var lögð fram, var langt frá því að búið væri að samþ. bústaðinn. Þarna átti hann að vera í byggingu.

En núna hefur verið hafist handa eins og fram kemur reyndar í samþykkt frá Klúku, eins og flm. kannast við, þar sem vestfirðingar lýsa þakklæti til hæstv. heilbrrh. og þm. kjördæmisins fyrir þær framkvæmdir sem verið sé að byrja á í Vestfjarðakjördæmi. Þetta er víða og stórkostlegar aðgerðir. Það er, eins og við vitum, verið að byggja heilsugæslustöð og sjúkrahús á Ísafirði, verið að byrja á því. Það er verið að byggja læknisbústað á Hólmavík. Það er verið að byggja heilsugæslustöðvar víðar á Vestfjörðum, og þetta eru allt hlutir sem eru að gerast einmitt núna og hafa gerst í tíð núv. ráðh. Þetta þýðir ekki að vestfirðingar séu búnir að fá sína fullkomnu heilbrigðisþjónustu, sem þeir munu fá, vegna þess að það er nú fyrst sem verið er að hefja þessi störf, og það tekur auðvitað sinn tíma að bæta úr þessu.

Sama er um Reykhóla. Stöðinni í Búðardal var breytt í H2, þ. e. í stöð fleiri lækna en eins, einmitt með það í huga að meira öryggi væri fyrir barðstrendinga að fá sína þjónustu frá stórri læknamiðstöð sem hefði sérhæft fólk að staðaldri og engin hætta væri á að það færi frá, heldur en að hafa lækni á staðnum. Um þetta vil ég í sjálfu sér ekki fella neinn dóm, en þessi varð niðurstaðan. Og ég verð að segja það, að ég held að samþykkt heilbrigðisþjónustulaganna hafi fyrst og fremst verið einmitt flýtt eins og gert var vegna dreifbýlisins, til þess að breyta því gamla — sem þeir kölluðu þá — úrelta kerfi héraðslækna yfir í kerfi heilsugæslustöðva. Það var vitað mál og var vakin athygli á því hér að þetta mundi hafa annmarka í för með sér, og þessir annmarkar eru nú að koma í ljós. En eins og ég sagði fyrr: Við öðlumst aldrei þá heilbrigðisþjónustu að ekki geti það skeð, einkum þar sem einn læknir er starfandi, að hann sé fjarverandi þegar mest þarf á honum að halda. Annað mál er það, að í sambandi við fækkun læknissetra í landinu stendur einnig til og er þegar farið að gera átök í vegagerð og ýmsum öðrum umferðarmálum sem eru stór þáttur orðinn í læknisþjónustunni. Það er ekki lítið atriði fyrir súgfirðinga að eiga flugvöll og ekki heldur að hafa góðan snjóbil og snjósleða. Þetta kemur ekki í staðinn fyrir það að það sæti þar læknir. Ég er ekki að halda því fram. En það er þó mikil bót. Og á Ísafirði verður í framtíðinni og er líklega nú þegar það mikill fjöldi af heilbrigðisstarfsfólki að þar ættu þeir örugglega að geta náð til læknis. Hinu neita ég ekki, að það er skynsamlegt, ef hægt væri að koma því við á þessum stöðum, ekki bara á Vestfjörðum, heldur einnig á Austfjörðum og sums staðar á Norðurlandi, að þar væru staðsettir læknar á vissum stöðum yfir vetrarmánuðina sem ekki væru þar sumarmánuðina. En ég var aðeins að segja ykkur frá því, að þessi var tilgangur þessarar nýju laga: að gera þjónustuna öruggari og tryggari með því að stækka umdæmin.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á að það mun verða litið á þessa till. og hún verða skoðuð í ljósi þeirrar staðreyndar að nýlega hefur verið gerð breyt. á okkar gamla kerfi, breyting sem við vonum öll að reynist vel. Ég held að það komi ekki til mála annað en að við séum á réttri leið. Hins vegar vil ég skýrt taka fram, að það er tekið fram í lögunum að hægt sé að fjölga heilsugæslustöðvum og læknissetrum án sérstakrar lagasetningar. Það er ákvörðun ráðh. Komi í ljós að vandræðaástand sé á einhverjum stað, þá hef ég trú á að reynt verði að bæta úr því á einhvern hátt.