18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

89. mál, vörugjald

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Forseti. Þetta mál hefur nú tekið talsverðum breytingum frá því það var hér síðast til umr. Eins og hafði komið fram í umr. áður var efni þessa frv. að staðfesta brbl. sem gefin voru út á s. l. sumri um 12% tímabundið vörugjald. Samkv. þeim brbl. átti þetta gjald að falla niður nú um áramót. En nú hefur málið tekið þeim breyt. að gert er ráð fyrir að framlengja þetta gjald út allt næsta ár, að vísu aðeins í lækkandi formi, þannig að gjaldið verði fyrstu 8 mánuði næsta árs 10% í staðinn fyrir 12% og síðan næstu 4 mánuði á eftir 6%. Gert er ráð fyrir að gjaldið gefi í tekjur á næsta ári 2 200 millj. kr., og er þá miðað við reynslu af þessu 12% gjaldi á síðara hluta þessa árs en reynslan varð sú að gjaldið gaf allmiklu minni tekjur en ráð hafði verið fyrir gert. Þegar gjaldið var lagt á í júlímánuði var reiknað með því að þessi gjaldstofn gæfi um 1850 millj. kr. á árinu, en reynslan hefur orðið sú að hann gefur ekki nema 1350 millj. kr. Er því augljóst að þetta sérstaka gjald hefur orðið til þess að draga mjög verulega úr innflutningi á þeim vörum sem gjaldið átti aðallega að falla á.

Nú þykir mér líklegt að gjaldið gefi meiri tekjurá næsta ári en sem nemur 2 200 millj. kr., vegna þess að ég geri ráð fyrir því að allmargir, sem standa fyrir því að flytja inn þær vörur sem hér er um að ræða, hafi dregið að flytja þær inn þar til gjaldið félli niður, því að því var hátíðlega lýst yfir að gjaldið ætti að falla niður í árslok. Það munar að sjálfsögðu um 12% gjald á fob-verðmæti vöru og því geri ég ráð fyrir að það hafi verið jafnvel óeðlilega lítill innflutningur á þeim vörum, sem skipta mestu máli varðandi þetta gjald, á seinni hluta þessa árs. En ótrúlegt er, eftir að þessi framlenging er ákveðin, að menn dragi það einnig við sig á næsta ári að flytja inn þessar vörur í jafnríkum mæli og þeir hafa sýnilega gert á síðari hluta þessa árs, enda hygg ég að eftir það, sem gerst hefur í þessum efnum, leggi ekki margir trúnað á að gjaldið verði fellt niður. Ég býst við að menn fari nú að trúa því að þetta verði eitt af þeim gjöldum sem eru framlengd árlega, og því á ég von á því að innflutningur á þeim vörum, sem gjaldið nær til, verði nærri því sem hann var áður og að þessi gjaldstofn, 10% í 8 mánuði og 6% í 4 mánuði, muni gefa talsvert ríflegri tekjur en hér er reiknað með.

Frá því hefur svo verið skýrt um leið að aðrar breytingar verði gerðar í fylgd með þessari og þá í þá átt að það verði ekki dregið úr niðurgreiðslum á vöruverði í jafnríkum mæli og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., en í fjárlagafrv. var við það miðað að niðurgreiðslur á vöruverði yrðu minnkaðar á árinu 1976 um 1425 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir því að hnika þessari tölu þannig til að muni um 700 millj. og má því búast við því að niðurskurðurinn á niðurgreiðslunum eða breyt. á niðurgreiðslum frá því, sem hefur verið, verði rúmlega 700 millj. kr. samkv. þessari nýju áætlun. Má því segja að þegar miðað er við það, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., þá sé hér ekki um mikla verðsveiflu að ræða þar sem framlengingin á vörugjaldinu þýðir auðvitað hækkað verð, en breyt. á niðurgreiðslunum þýðir aftur á móti að verð á þeim vörum, sem niðurgreiðslurnar ná til, hækkar ekki eins mikið og gert hafði verið ráð fyrir við framlagningu fjárlagafrv. En hvort tveggja þýðir þetta auðvitað hækkun frá því sem verið hefur því að það er verið að boða með þessu hækkandi verð frá því, sem í gildi hefur verið á niðurgreiðsluvörunum, sem nemur um 700 millj. á ári. Það er einnig verið að boða hér álagningu þessa sérstaka vörugjalds á næsta ári. Það er því enginn vafi á því að í þessari till. um framlengingu vörugjaldsins og þeim ráðstöfunum, sem boðaðar eru varðandi niðurgreiðslur, felast álögur frá því sem nú er á þjóðina um í kringum 3000 millj. kr. til verðhækkunar frá því ástandi sem er í dag.

Ég tel að þessar ráðstafanir séu mjög óheppilegar, vægast sagt, miðað við það ástand sem ríkir hjá okkur nú í verðlagsmálum og í kaupgjaldsmálum. Það hefði vissulega þurft að mæta þeim vanda, sem menn standa frammi fyrir nú, með því að sýna það eins og mögulegt var í öllum greinum að staðið yrði gegn verðlagshækkunum til þess að hægt hefði verið að ná samningum í kaupgjaldsmálunum þannig að ekki hefði verið um mjög verulegar kauphækkanir að ræða. En allar ráðstafanir, sem miða í þá átt að hækka verðlag beint með álögum eða öðrum stjórnarráðstöfunum, torvelda vitanlega samninga um litlar kauphækkanir, og þær knýja á um það að krafist verði enn meiri kauphækkana en ella.

Á þetta hafa launþegasamtökin bent og margundirstrikað að þau muni haga sínum launakröfum í fullu samræmi við þetta. En mér sýnist að viðbrögð hæstv. ríkisstj. séu þannig í þessum málum að hún taki ekkert tillit til þeirra aðvarana sem gefnar hafa verið. Hún miðar allar sínar ráðstafanir varðandi þessi mál við það eitt að fjármál ríkisins séu illa komin, ríkissjóður sé rekinn með halla og safni yfirdráttarskuldum við Seðlabankann, skuldahali hafi myndast í þessu fyrirtæki og hinu, eins og hér var verið að minnast á, og af því þurfi að afla meira fjár, af því þurfi að leggja meira á en gert var áður til þess að hafa upp í þessar umframgreiðslur, til þess að geta borgað þær skuldir sem stofnað hefur verið til. En í þeirri stöðu, sem við erum nú, leysir þetta hreinlega engan vanda. Það er ekki að leysa vandann, þegar útgjöldin hafa orðið hærri og meiri en talið er að þjóðarbúið þoli með góðu móti, að svara slíkum útgjöldum með því að segja: Ja, við verðum að halda þeim áfram og við verðum bara að leggja á enn meira en við gerðum áður. — Slíkum aðgerðum vitum við öll að verður svarað af launþegum í landinu með því að þeir krefjast launahækkana á móti, og vandinn hefur sem sagt ekki verið leystur. Það er útilokað að hæstv. ríkisstj. geti afsakað þessa stefnu sína með því að tala í sífellu um mikla verðbólgu, miklar verðhækkanir og skella skuldinni í þeim efnum alltaf á launþega landsins. Það er ríkisstj. sem með ráðstöfunum sínum stendur beinlínis fyrir því að verðlagið hækkar ýmist með því að leggja á nýja skatta eða auka útgjöld á þann hátt sem verður beinlínis til þess að hækka vöruverð í landinu. Hún kallar þannig á hækkandi kaupgjald óhjákvæmilega sem síðan leiðir auðvitað aftur af sér viðbótarverðhækkanir.

Eina hugsanlega leiðin í þessum vanda er auðvitað að takast á við vandamálið sjálft, reyna að færa útgjöldin í þessari stöðu niður, stöðva þessar miklu umframgreiðslur. Ég trúi því ekki að því sé haldið fram í fullri alvöru um ríkisfyrirtækin öll, sem hér hafa verið nefnd og eru oft nefnd í þessu sambandi, að útgjöld þeirra, sem leitt hafa til umframgreiðslna hjá þeim og skuldasöfnunar, sé öll algjörlega hrein og heilög og það sé ekki hægt að koma þar neinni breytingu á, þar sé ekki hægt að koma fram neinni breytingu. En á meðan þessi leið er valin, að hækka bara í sífellu verðlag í landinu með nýjum álögum, þá heldur þetta hringkast allt saman áfram og þá þýðir lítið að fjasa út í það þó að dýrtíð eða verðbólga sé hér meiri en víðast annars staðar.

Í sambandi við allar umr. manna um verðbólgu og þá miklu ógæfu, sem fylgir henni, hafa menn verið að gleðja sjálfa sig yfir því upp á síðkastið að nú hafi dregið örlítið úr verðbólguhraðanum, hann sé aðeins minni, og menn geta jafnvel fagnað 30% hraða vegna þess að hraðinn komst í eitt skipti upp í 54% miðað við ár. En hver sá, sem hugleiðir þessi mál örlítið meira, sér að það hefur ekkert gerst í þessum efnum með minnkandi verðbólguhraða sem raunverulega táknar að ástandið sé að batna. Hraðinn, sem mældur var upp í 54%, stafaði ósköp einfaldlega af því að hann var bein afleiðing af tilteknum ráðstöfunum af hálfu stjórnvalda í landinu. Þá var gengið lækkað tvívegis, þá var verið að hækka söluskatt og þá var verið að leggja á ótal ný gjöld sem leiddu til almennra verðhækkana, auk þess sem gengi krónunnar var látið síga. Allt er þetta mælanlegt í verðlaginu. Við höfum svo mikla reynslu í þessum efnum. Þetta er líka viðurkennt af öllum þeim sem um þessi mál hafa fjallað, að það er hægt að mæla út hve mikil verðhækkun hefur orðið af þessum sjáanlegu og skýranlegu ástæðum. Afleiðingarnar hafa næstum alltaf orðið þær, að svo hefur liðið örstuttur tími þangað til launþegasamtökin í landinu koma og svara svona aðgerðum með sínum ráðstöfunum, og nú er sá tími kominn, þegar 30% hraðinn er nefndur, að launþegasamtökin eru að búa sig undir sína lotu. Það er ekkert annað sem er að gerast. Ef þau svara á sama hátt og áður, þá breytist 30% hraðinn skyndilega í 50 eða 54% hraða. Vitanlega er hraðinn núna aðeins minni bara vegna þess að það er nokkuð um líðið síðan ríkisstj. gerði sínar ráðstafanir sem höfðu þessi miklu áhrif á verðbólguþróunina og hinn aðilinn er ekki búinn að leika sinn leik enn til þess að svara afleiðingunum af verðhækkunum sem ríkisstj. stóð fyrir. En um leið og það svar kemur fer hraðinn upp aftur.

Við stöndum hér í nákvæmlega sömu sporunum og við höfum staðið í áður. Það er því algjör misskilningur af ríkisstj. að gleðjast yfir því að nú sé um eitthvað batnandi ástand í þessum efnum að ræða. Það er það ekki. Og mér sýnist að ríkisstj. bregðist við þeim vanda, sem hún stendur frammi fyrir og þjóðfélagið í heild, kröfum launþega í landinu um að fá bætur á móti þeim verðhækkunum sem yfir hafa gengið að undanförnu, þannig að hún vilji ekki gera neina samninga sem miða að því að draga úr verðbólguvexti, stöðva verðhækkanir. Hún svarar þessu þvert á móti með nýjum álögum, nýjum verðhækkunum til viðbótar við það sem á undan var komið, og það hlýtur vitanlega að hafa þær afleiðingar að knúnar verði fram meiri kaupgjaldshækkanir en annars hefði orðið, og verðbólguvandinn verður síst minni en hann var.

Hæstv. ríkisstj. hefur gert nokkra grein fyrir því hvernig á því stendur að hún leggur nú til að framlengja þetta gjald og hvernig stendur á því að hún telur óhjákvæmilegt að fara í þessar viðbótarálögur við það sem áformað hafði verið. Þá telur hún upp og nefnir m. a. að mikil skuld hefur safnast fyrir hjá ríkissjóði í Seðlabankanum og nú er ætlunin að grynna á þessari skuld á næsta ári með því að borga Seðlabankanum upp í skuldina 900 millj. kr. Ekki er þetta nýtilkomið, ríkisstj. hefur vitað það í marga mánuði, meira að segja áður en hún lagði fram fjárlagafrv. sitt, að þessi mál stóðu svona. Þessi útgjaldaupphæð er því ekkert nýtilkomin. Ég hygg að það hafi engum manni komið til hugar á miðju ári að rekstrarhalli ríkissjóðs yrði minni á þessu ári en sem næmi 3000 millj. kr. En hann ætlar að reynast nokkru meiri og menn tala jafnvel um 4000 millj. kr. til viðbótar við rúmlega 3000 millj. kr. halla á fyrra ári. Hér er því ekki um nein ný rök að ræða, heldur aðeins það að ríkisstj. metur stöðuna þannig að það sé rétt að fara út í verðhækkun til þess að ná í meiri tekjur handa ríkissjóði eins og nú standa sakir til þess að grynna á skuldinni við Seðlabankann, þó að hún viti að það geri alla samninga í kaupgjaldsmálum erfiðari en annars hefði orðið.

Þá telur ríkisstj. upp ýmis önnur útgjöld. Hún t. d. tilgreinir að það þurfi að greiða til Seðlabankans líka um 350 millj. kr. á næsta ári vegna verðtryggingar á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þetta vissu allir. Menn áttu að vita það að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var gengistryggður. Það þurfti að borga ákveðin gengistöp sem komu fram við þriðju gengislækkunina á árinu 1974. Og það þurfti aftur að borga gengistöp í sambandi við Verðjöfnunarsjóðinn vegna gengislækkunarinnar sem átti sér stað í febrúarmánuði á þessu ári. Hér er því ekki um neina nýja greiðslu að ræða, þetta hefur legið fyrir allan tímann, en nú er þetta tínt fram.

Þá er á það bent að það þurfi að greiða á milli 100 og 150 millj. kr. vegna ábyrgðar sem gefin hafi verið í sambandi við ákvörðun á fiskverði fyrir þrjá síðustu mánuði þessa árs, október, nóvember og desember. En fiskverðið var ákveðið á þeim grundvelli að það mátti búast við því að Verðjöfnunarsjóður þyrfti að greiða nokkurn hluta af fiskverðinu. Þetta hefur líka legið fyrir allan þennan tíma. Hér er ekki um neina nýja upphæð að ræða.

Þá er nefnt til að ríkisstj. hafi keypt togarann Baldur og þurfi 175 millj. í því skyni. Það er út af fyrir sig mjög hæpið í þeirri aðstöðu, sem við erum í nú, að rökstyðja nýjar álögur og nýjar verðhækkanir í landinu með slíkum eignaskiptum eins og þar fara fram.

Þá er einnig tilnefnt að greiða muni þurfa vegna ríkisábyrgða á togaralánum allt að 200 millj. kr. Þetta hefur líka legið fyrir allt árið. Og það er alveg furðulegt ef þeim, sem fara með fjármál ríkisins, hefur yfirsést í sambandi við þetta.

Nei, hér er um það að ræða að hæstv. ríkisstj. veit auðvitað um það að fjármál ríkisins og fjármál ýmissa ríkisfyrirtækja eru í mesta ólestri. Þar er um hallarekstur að ræða og áætlanir, sem gefnar hafa verið út með nokkurra mánaða millibili, hafa allar reynst rangar. Það hefur yfirleitt ekkert staðist. En spurningin er hvort ekki á að takast á við þessi vandamál með öðrum hætti en þeim sem hæstv. ríkisstj. velur. Þessi aðferð, að ætla að mæta þessum vandamálum öllum á þann einfalda hátt að auka álögur, leggja meira á, afla ríkissjóði meiri tekna, hefur sín eftirköst og menn mæta þessum vanda bara á öðru sviði á eftir. Það er allt og sumt sem gerist.

Það getur verið að hæstv. ríkisstj. meti þessi mál þannig að vandinn sé tiltölulega lítill í sambandi við kaupgjaldsmálin, launþegasamtökin hljóti að fallast á það, að til viðbótar við alla hina margumtöluðu verðbólgu sem yfir hefur gengið áður, verði menn einnig að taka við þessari verðbólgu sem nú er verið að efna til.

Ég vek athygli á því, að það er ekki aðeins þessi breyting sem ég hef hér minnst á, sem ríkisstj. stendur nú fyrir og þýðir auknar álögur. Ríkisstj. ákvað að hækka söluskattinn um 2% stig til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, en það þýðir að ríkissjóður er að ná til sín viðbótartekjum á þann hátt sem nema 2500 millj. kr. á ári. Það var auðvitað kjörið tækifæri nú, þegar ekki þurfti að láta þetta gjald renna lengur í Viðlagasjóð vegna þeirra verkefna sem hann stendur undir, að nota einmitt þessi 2% til þess að veita nokkurt svigrúm í sambandi við kaupgjaldsvandamálið. En ríkisstj. ákveður að taka þessa upphæð enn til sín í ríkissjóð.

Svipað er farið að í sambandi við tryggingamálin. Þar er sú leið farin, þegar um mikil útgjöld er að ræða í tryggingum að leggja bara eitt viðbótarprósentustig á útsvarsgjaldstofninn, leggja þannig á landsmenn 1100–1200 millj. kr. og bæta síðan við aukagjaldi á sjúklinga sem nemur í kringum 500 millj. kr. Það er farið að muna talsvert um allar þessar ráðstafanir þegar þær eru lagðar saman. Þær verða aukaútgjöld almennings frá því sem verið hefur.

Það er verið að standa að aðgerðum sem munu nema á milli 6 og 7% almennri verðlagshækkun í landinu á ári. Meira að segja fyrri yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. varðandi kaupgjaldsmál hafa verið í þá átt að hún vildi standa að því að tryggja launafólki a. m. k. jafnmikinn kaupmátt og samið var um í síðustu kaupgjaldssamningum eða hefur verið nú að undanförnu. Þessar aðgerðir allar, sem ég hef hér gert að umtalsefni, miða að því að atvinnuvegirnir verða annaðhvort að taka á sig launagreiðslur sem nema 0–7%, eftir því hvað þetta verður reiknað til mikilla almennra útgjalda, 6–7% hækkun á launum til þess að standa aðeins við þetta fyrirheit sem ríkisstj. hefur gefið. Það er alveg augljóst að auðvitað sækir í það að launin þurfa að hækka um miklum mun meiri upphæð en menn voru að búast við vegna þess að ríkisstj. velur þessa leið. Og þó að jafnt við í stjórnarandstöðunni sem forustumenn í verkalýðshreyfingunni bendum ríkisstj. á ýmsar leiðir til þess að þessi mál geti farið betur, þá er ekki hlustað á það á neinn hátt.

Þá segir t. d. hæstv. ríkisstj. að hún hugsi sér að lækka tollagreiðslur og lækka tekjur ríkissjóðs með lækkandi tollum nú um næstu áramót sem nemur í kringum 800–900 millj. kr. í tekjum fyrir ríkið á næsta ári. Af þessari tollalækkun er talið að lækkun á tollum bara á iðnaðarvörum frá Efnahagsbandalagslöndum nemi 500 millj. kr. á ári. Það er það sem Þjóðhagsstofnunin gefur upp. Það á sem sagt að lækka tolla á iðnaðarvörum, fullunnum vörum frá Efnahagsbandalagslöndum, á næsta ári, — löndunum sem hafa svikið á okkur tollasamning — það á að lækka tolla á þeirra vörum sem nemur 500 millj. kr. á næsta ári og frá Efta-löndum sem nemur í kringum 100 millj. Og það var eiginlega upphæðin sem við vorum þó skuldbundnir til.

Auk þess er svo um tollalækkun að ræða sem miklu frekar gat komið til greina því að hún táknar vissa tilfærslu, en það er tollalækkun á ýmsum hráefnisvörum fyrir okkar innlenda iðnað. Er talið að tekjurýrnun ríkissjóðs af því geti numið 100–150 millj. kr. En sú tollalækkun getur að sjálfsögðu komið iðnrekstrinum í landinu til góða, svo að það er ekki á neinn hátt sambærilegt við hina tollalækkunina sem þvert á móti mun verða notuð af atvinnurekendum meðal iðurekenda í málflutningi þeirra, þannig að þeir eigi erfiðara eftir en áður að standa undir kaupgjaldshækkunum því að samkeppnin við erlendar vörur harðni hjá þeim. En það er eins og ég segi, það er alveg sama hvort stjórnarandstaðan í landinu bendir á hluti eins og þessa, sem miða að því að hætta við að skerða tekjur ríkissjóðs, eða hvort það eru forustumenn í verkalýðshreyfingunni sem benda á þetta, ríkisstj. lokar sínum hlustum, læst ekki heyra neitt og strunsar áfram. Og svo þegar kemur að kaupgjaldsvandanum eftir stuttan tíma, þá auðvitað rekur hún upp eitt mikið óp og talar um að nú séu forustumenn í launþegasamtökunum að steypa öllu um koll í þjóðfélaginu.

Ég efast auðvitað ekkert um að hæstv. ríkisstj. getur haldið áfram þessari endileysisstefnu sinni nokkurn tíma enn í fjármálum landsins og í fjármálum ríkisfyrirtækja, hún getur enn haldið áfram þessari hringavitleysu. En hún getur aldrei fengið annað út úr þessu dæmi en bullandi verðbólgu og sífellt stríð við launafólkið í landinu, og þetta allt saman verður til þess að þjóðarframleiðslan fer minnkandi, þjóðartekjur fara minnkandi og síðan á að nota minnkandi þjóðartekjur sem röksemd fyrir því að það sé ekki hægt að halda uppi sama kaupi og áður var. En stefnan hjá hæstv. ríkisstj. í þessum málum er auðvitað í grundvallaratriðum röng.

Það er ekki tími til þess að ræða þessi mál á mjög almennum grundvelli hér eins og komið er tíma þingsins. Ég skal því stytta mál mitt, en vil aðeins segja það að við alþb.-menn erum á móti þessum till. hæstv. fjmrh. og á móti þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur verið að boða hér, eins og það að draga úr niðurgreiðslum á vörum sem enn er hangið í. Þó að hún hafi hopað þar nokkuð frá því sem hún hafði boðað áður, þá sem sagt stendur enn boðun um að minnka niðurgreiðslur á vörum. Við teljum að þessi stefna sé röng og það hefði átt að velja aðrar leiðir.