18.12.1975
Neðri deild: 36. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Samkv. þeirri lánsfjáráætlun, sem lögð var fram á Alþingi í dag, er gert ráð fyrir erlendum lántökum til fjárfestingarlánasjóða upp á 2 milljarða 45 millj. kr. Það er þess vegna flutt brtt. á þskj. 235 um hækkun á þeirri tölu sem nú er í frv. eftir brtt. sem flutt var við frv. við 2. umr., þannig að í heild verði leitað heimildar fyrir erlendum lántökum að upphæð 6 milljarðar 655 millj. kr. í stað 4 milljarða 610 millj. kr., en þannig er lántökuheimildin nú. Jafnframt því er í brtt. till. um að fjmrh. sé heimilt að endurlána Framkvæmdasjóði allt að 2 milljörðum 45 millj. kr. á árinu af lánsfé samkv. 1. gr., en það er í samræmi við þá lánsfjárskýrslu sem lögð hefur verið fram. Það hefur jafnan verið litið svo á að um leið og ríkissjóður hefur heimild til þessarar lántöku, þá geti hann beitt þeirri lántöku sem ríkisábyrgð ef réttara þykir að þær stofnanir, sem lánin fá, taki sjálf þau lán.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja fram brtt. Hún er skriflega flutt og þarf því afbrigða við og vil ég biðja forseta um að leita afbrigða.