19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Lúðvík Jósepason:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. félmrh. fyrir mjög skýra yfirlýsingu og glöggt svar við fsp minni um atriði sem ég tel skipta miklu máli. Ég tel að nú leiki enginn vafi á því hvernig framkvæmdin verður varðandi það atriði verði þetta frv. gert að lögum.

En fyrst ég er staðinn upp langar mig til að gera örstutta athugasemd við það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., Ólafi G. Einarssyni. Þó að ég væri honum sammála um sum atriði, þá fannst mér hann flytja sitt mál þannig að hann reyndi að halda því fram að Samband ísl. sveitarfélaga stæði í rauninni með fyrri stefnumörkun sinni varðandi verkefnaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga að því frv. sem hér lægi fyrir, því að það væri fyllilega í samræmi við yfirlýsta stefnu sambandsins. Ég tel að þessi túlkun sé ekki alls kostar rétt, og ég dreg það m.a. af því að ég er með í höndunum samþykkt sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gerði um þá verkaskiptingu sem hér liggur fyrir. Að vísu var frv. þá ekki nákvæmlega í þeim búningi sem það liggur fyrir nú, en þó í öllum meginatriðum. Í þessari samþykkt, sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gerði, er t. d. tekið fram varðandi liðinn um dagvistunarheimili, með leyfi hæstv. forseta:

„Skiptar skoðanir eru í stjórn sambandsins um það, hvort rétt sé að sveitarfélögin greiði allan stofnkostnað dagvistunarheimila“ — og svo áfram fjallað um rekstrarkostnaðinn.

Það er þetta sem liggur fyrir, að það eru mjög skiptar skoðanir í röðum sveitarstjórnarmanna um þessa verkaskiptingu, hvað sem svo líður einhverjum samþykktum sem kunna að hafa verið gerðar á vegum þessara samtaka áður. Hitt er einnig staðreynd, að stjórnin fékkst ekki til þess nú, þegar hún þingaði um þessi mál. að leggja samþykki sitt við þessu frv. Samþykkt stjórnarinnar að þessu sinni var háð margvíslegum skilyrðum sem sett voru fram og ljóst er að ekki hafa verið uppfyllt.

Í samþykktinni kemur einnig fram að stjórn sambandsins gerir mjög verulegar aths. við kostnaðarhliðina í sambandi við þessa verkaskiptingu. Þar skakkar t. d. allverulega varðandi rekstrarkostnað dagvistunarheimila, þar sem stjórn sambandsins bendir á að samkv. áætlunum, sem gerðar voru í menntmrn. í maímánuði á þessu ári, var reiknað með því að greiðslur í sambandi við rekstrarkostnað dagvistunarheimila mundu verða á næsta ári 187.5 millj. kr., en ekki 120 millj. kr. eins og gert er ráð fyrir í grg. þessa frv. í sambandi við þessa verkaskiptingu og tekjutilfærslu.

Þó að það hafi eflaust verið rétt sem hv. þm. greindi hér frá um fyrri stefnumörkun og samþykktir á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, þá liggur hitt fyrir, að skoðanir eru skiptar meðal sveitarstjórnarmanna um þessi mál og stjórnin, sem hefur nýlega fjallað um þetta, vildi ekki leggja samþykki sitt við málið eins og það liggur nú fyrir og gerði verulega miklar aths. varðandi málið í heild.

Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun að það sé t. d. röng stefna varðandi þetta mál að gera ráð fyrir því að leggja alveg niður hlutdeild ríkisins í byggingu elliheimila. Ég álít að það sé mjög röng stefna, og mér þætti ekki ólíklegt að horfið yrði frá þessu aftur og leitað eftir framlagi ríkisins til að byggja slík heimili. Ég tel að vísu að með því að halda ákvæði um að ríkið leggi fram ákveðinn hluta af stofnkostnaði dagvistunarheimila sé mikið fengið þó að rekstrarkostnaður sé færður yfir á sveitarfélögin. Ég dreg þó mjög í efa að það hafi verið rétt að gera þá breytingu varðandi þann þýðingarmikla lið.

Ég skal ekki fara að ræða þetta mál frekar, vil aðeins segja það í tilefni af því, sem síðasti ræðumaður sagði varðandi landshlutasamtök, að ég held að það sé mikill misskilningur þegar vissir menn kalla landshlutasamtökin, eins og þau starfa nú, áhugamannasamtök, séu þar með ónauðsynleg samtök. Áhugamannasamtök hafa ekki verið ónauðsynleg eða unnið lítil verk í mörgum tilfellum. Þau geta verið þýðingarmikil hagsmunasamtök. En hitt er svo aftur annað mál og um það hefur deilan snúist í sambandi við landshlutasamtök sveitarstjórnarmanna, hvort rétt sé að setja lög um starfsemi þeirra og gera þau á þann hátt að einum hluta af ríkiskerfinu. Það er mikill ágreiningur meðal sveitarstjórnarmanna um hvort slíkt sé rétt, og við gerum auðvitað ekki út um það mál á þessu stigi málsins. Hv. 4. þm. Vestf. er mikill fylgjandi þess að sett verði lög um landshlutasamtökin. En hitt mun ábyggilega rétt, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði, að sú skoðun er að verða sífellt sterkari og sterkari innan samtaka sveitarstjórnarmanna að það sé ekki rétt að setja lög um þessi samtök, heldur sé rétt að þau starfi áfram, a. m. k. um alllangan tíma, sem áhugamannasamtök, hagsmunasamtök án lögbindingar.