09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er ekki ýkjamargt sem hefur komið hér fram efnislega til upplýsinga í þessu máli frá hæstv, forsrh. eða hæstv. utanrrh. Meginniðurstaðan er sú, að ríkisstj. ætlar enn að biða um óákveðinn tíma, enginn veit hve langan tíma, með allar sínar aðgerðir í málinu, þó að bretar hafi sent á nýjan leik herskip sín inn í okkar fiskveiðilandhelgi og þó að þeir virði að engu lýst friðunarsvæði sem þeir hafa þó margsinnis tekið fram að þeir ætluðu sér eð virða. Og skýringin af hálfu hæstv. ríkisstj. er sú, að hún ætli sér að bíða vegna þess að vinveittir aðilar, eins og hún orðar það, í Atlantshafsbandalaginu séu að ræða málið og það sé rétt að sjá til hvað þeir komist áleiðis. Það er sem sagt alveg augljóst, að ríkisstj, er aðeins að staðfesta það sem menn sáu og heyrðu. Hún bíður, hún hikar, hún stendur ekki við fyrri yfirlýsingar, hún grípur ekki til neinna nýrra ráðstafana. Þannig lítur málið út, og í rauninni veit enginn um hvað þetta ástand kann að standa lengi.

Ég hef sagt það hér áður, að það er mín skoðun að hér sé ranglega á málinu haldið af okkar hálfu og að ýmsu leyti hættulega að því staðið þegar svona er að farið. Þetta hlýtur að vera skoðað af breta hálfu sem veikleikamerki hjá okkur, enda segja ráðh. þeirra nú, þegar þeir eru spurðir að hvað muni nú gerast, þá orða þeir það þannig í fréttum, sem eru lesnir yfir okkur, að tekist hafi enn þá að koma í veg fyrir að íslenska ríkisstj. slíti stjórnmálasambandi.

Þeim hefur tekist, bretum, að koma í veg fyrir að við gerðum nokkurn hlut af því tagi. (Forsrh.: Það var formaður stjórnarandstöðunnar, en ekki ráðh. sem sagði þetta.) Nú, var það? Ég geri ekki ýkjamikinn mun á þeim þarna, mér sýnist vera sami rassinn undir báðum þarna úti, stjórn og stjórnarandstöðu í Bretlandi. En þetta var erlend frétt, sem ég var að vitna í. Og þannig er það sem bretar líta á þetta, að þeim hafi nú tekist enn að koma í veg fyrir að íslendingar slitu stjórnmálasambandi eða gripu yfirleitt til neinna aðgerða af sinni hálfu. Það var einmitt það sem ég var að segja, ég teldi að það væri hættulegt þegar þessi staða hefði komið upp, að okkar andstæðingar gætu lesið út úr okkar viðbrögðum eða viðbragðaleysi það, að við værum hikandi, við vissum ekki hvað við ætluðum að gera eða ættum að gera og gerðum í rauninni ekkert sem gæti flokkast undir sókn af okkar hálfu, Þetta tel ég vera mjög háskalegt.

Það voru önnur atriði sem komu fram í þessum umr., sem ég tel ástæðu til að víkja að, en það eru túlkanir, sem komu fram bæði frá hæstv. utanrrh. og sérstaklega ef hálfu forsrh., varðandi afstöðu okkar alþb.-manna í sambandi við hugsanlegar hótanir í sambandi við aðild okkar að NATO og aðgerðir í landhelgismálinu. Ég tel að þeir hafi rangtúlkað mjög það sem fram hefur komið af okkar hálfu í þessu máli, og því sé ég ástæðu til að taka þar fram aðalatriðin.

Vissulega erum við sammála öðrum um það og höfum margsinnis lýst því yfir, að landhelgismálið og aðild Íslands að NATO eða varnarsamningurinn svonefndi við Bandaríkin, þetta eru aðskilin mál. Það er rétt. Það er enginn vafi á því, að þeir menn eru til í landinu sem eru stuðningsmenn þess að Ísland sé aðili að NATO og einnig stuðningsmenn þess að hér sé í gildi þessi varnarsamningur við Bandaríkin, sem geta hins vegar verið traustir menn í baráttunni fyrir stækkun landhelginnar. Það er enginn vafi á því. En þó að þessi tvö mál séu aðskilin á þennan hátt eins og við höfum margsinnis tekið fram, þá þýðir það ekki varðandi aðild okkar að NATO, sem er staðreynd, að það verði ekki að taka tillit til hennar í hverju einu tilfelli fyrir sig þegar mál koma upp í sambandi við þá aðild. Það er staðreynd, að ein af NATO-þjóðunum sendir herskip inn á íslenskt lögsögusvæði til þess að brjóta þar niður íslensk lög. Og þegar þetta gerist sem íslendingar einmitt sem aðilar að NATO hljóta að gera þá kröfu til NATO að þessi hernaðarinnrás sé stöðvuð. Allt annað væri vitanlega í mótsögn við eðli málsins. En við, sem höfum verið og erum á móti aðild Íslands að NATO almennt séð og ekki í neinum tengslum við okkar fiskveiðilandhelgismál, við gætum auðvitað bætt því við, að það væri svo sem eftir öðru frá þessum samtökum að þeim þætti það bara sjálfsagt að við værum aðilar að þessu bandalagi, þó að eitt eða fleiri af bandalagsríkjunum sendi herskip á hendur okkur, og það væri líka sjálfsagt, að við leigðum þessu bandalagi eftir sem áður aðstöðu í okkar landi. Það er vitanlega staðreynd, að herskipainnrásin er í eðli sínu brot á aðildarsamningnum að NATO. Vegna þess hljótum við að taka til okkar ráða og mótmæla þessari innrás og tilkynna þessum aðilum að við munum svipta þá allri aðstöðu sem þeir hafa haft hér samkv. þessum samningi. En ég spyr þá á móti: Eru þeir aðilar, sem barist hafa fyrir aðild Íslands að NATO, svo geðlausir og líta þeir þannig á þann samning að þeir gætu hugsað sér að mæla bót þessum aðildarsamningi þó að eitt eða fleiri NATO-lönd réðust hreinlega á Ísland? Hefði það engin áhrif á þá? Við alþb.- menn erum á móti aðild Íslands að NATO af allt öðrum ástæðum sem ná út fyrir þetta. En það er einmitt þessi staðreynd sem gerir það að verkum að við hljótum, þegar málin þróast á þennan hátt, að vitna í það að þetta er í rauninni svik á þessum samningi sem hljóta að kalla á aðgerðir af okkar hálfu til að svipta þetta bandalag þeirri aðstöðu í landinu, sem það hefur.

Hæstv. utanrrh. sagði að í fyrri landhelgisdeilum, eins og t. d. árið 1973, hefði þetta ekki komið til greina. Það er ekki rétt með farið. Sannleikur málsins er sá, að þegar harðnaði í átökunum þá komu að sjálfsögðu upp þær kröfur hér í landinu að menn sögðu: Hér er augljóslega um brot að ræða af hálfu NATO, þar sem eitt af NATO-ríkjunum beitir okkur herskipaofbeldi. — Það voru einmitt framsóknarmenn sem tóku þetta inn í samþykkt sína og hafa oft verið að grobba af því í sambandi við svonefnda Hallormsstaðasamþykkt, að þeir mundu taka til endurskoðunar afstöðu sína til NATO-aðildar. Þegar þetta gerðist hrukku þeir við, eins og fyrri daginn, sem vissu upp á sig skömmina úti í Brüssel og beittu sér fyrir því að herskipin færu út fyrir mörkin og til samninga drægi. Það er vitanlega eins og hver önnur rangtúlkun að telja það, þó að við alþb.-menn tökum undir þessa almennu kröfu þjóðarinnar og þessa eðlilegu kröfu, að þess sé krafist af NATO að það sjái um að NATO-ríkið Bretland sendi ekki herskip inn á okkar lögsögusvæði, þá þýði það af okkar hálfu viðurkenningu á því, að ef þeir gerðu þetta, þá værum við orðnir samþykkir því að vera í NATO. Við erum á móti NATO-aðild af allt öðrum ástæðum, sem hæstv. ráðh. vita mætavel um og ég þarf ekki að rifja upp nú. En það breytir ekki því, að þegar samningur hefur verið gerður, þá sé hægt að margbrjóta hann og troða yfir okkur eigi að síður.

Ég vil einnig segja það, að auðvitað er alveg augljóst mál, hvað sem líður afstöðu manna til herverndarsamningsins svonefnda, það leikur enginn vafi á því, að það er brot á þeim samningi þegar þetta margumtalaða varnarlið gerir ekkert í því þegar íslensk lög eru brotin og ráðist er á okkur innan óumdeilanlegrar fjögurra mílna landhelgi, eins og átt hefur sér stað. Mér er vel ljóst að ástæðan fyrir því, að NATO-ríkin hafa nú áhyggjur af átökum okkar við breta, eins og þau lýsa, er sú að NATO vill halda hér þeirri aðstöðu sem það hefur á Íslandi. Það óttast að missa þessa aðstöðu. Það óttast ekki að missa hana okkar vegna, það óttast að missa hana sín vegna, og af því stafa þessar áhyggjur af málinu. En það er ekki hægt að skilja málflutning hæstv. forsrh. á annan veg en þann, að honum sé svo mikið í mun aðild Íslands að NATO að hann vilji svo að segja fyrirgefa því hvað sem er og halda áfram aðildinni eins og ekkert hafi í skorist, hvernig svo sem einstök NATO-ríki komi fram við okkur.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar en orðið er. Ég get aðeins endurtekið það, sem ég sagði áður, af því að það tel ég aðalatriði málsins, að ég skora á ríkisstj. að láta af þessu hiki og ráðleysi í málinu og taka nú á sig rögg í samstarfi við alla þingflokka á Alþ. og grípa til þeirra ráðstafana sem okkar andstæðingur í þessu máli kemur til með að líta alvarlegum augum. Það er enginn vafi á því, að ef við t. d. bregðumst við á réttan hátt til þess að efla okkar landhelgisgæslu, — það hefur ekki komið fram enn í þessum umr. að það standi til að efla hana á þann hátt sem bretar telja eiginlega nokkra alvöru vera í, — ef það væri brugðið rétt við og landhelgisgæslan verulega efld, jafnhliða því sem við slitum stjórnmálasambandi við breta og tilkynntum NATO að við mundum loka fyrir aðstöðu þess hér í landinu á meðan bresk herskip væru innan okkar lögsögu, þá er þetta auðvitað algert lágmark og þá þætti mér a. m. k. að við hefðum svarað á viðeigandi hátt og hefðum þá kannske einhvern tíma til þess að hugsa okkur um næsta leik þar á eftir. En þessi biðtími, sem nú virðist eiga að verða, veikir okkar málstað að mínum dómi hættulega, og því þarf ríkisstj. að taka þetta á ný til endurskoðunar.