10.02.1976
Neðri deild: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðh. er hér um býsna stórt mál að ræða, yfirgripsmikið mál, og þær breytingar á gildandi lagaákvæðum, sem gert er ráð fyrir að gerðar verði, eru byggðar á till. sem sérstök n. hefur unnið að og hún hefur gert grein fyrir í alllöngu nál. Það má segja að þessar breytingar feli í sér að lækka eigi framlög til sjóðakerfisins, sem nú er í gildi, um 4 millj. kr., eins og kemur fram í grg. frv., en nú er talið að heildarframlag til þessa sjóðakerfis, miðað við áætlanir fyrir yfirstandandi ár, geti orðið eftir gildandi lögum tæpir 9 milljarðar eða 8.9 milljarðar kr. Hér er sem sagt um það að ræða að minnka mjög verulega framlög til þessa sjóðakerfis sem byggt hefur verið upp nú á síðustu árum.

Ég tel að það sé stefnt í rétta átt með þessu frv. og einnig frv. varðandi Stofnfjársjóð fiskiskipa. Hér er verið að draga úr hinum gífurlegu framlögum til sjóðanna. En þó verður að segja það, að hér er aðeins um áfanga að ræða að því marki sem væntanlega er stefnt að, að leggja þetta sjóðakerfi niður að langmestu leyti, þannig að eftir standi aðeins lítið af þessu sjóðakerfi, enda hygg ég að það hafi verið það sjónarmið sem fram kom hjá a. m. k. flestum þeim aðilum sem unnu í sjóðanefndinni að athugun á þessum málum, að það bæri í rauninni að stefna að því að draga miklu meira úr þessu sjóðakerfi en gert er með þessum till., þó að menn væru ekki á það sáttir að taka stærri áfanga en hér er um að ræða í þetta skiptið.

Mér er t. d. kunnugt að fulltrúar sjómanna í þessari sjóðanefnd lögðu á það mikla áherslu að Stofnfjársjóður fiskiskipa, en til hans renna um það bil 15% af aflaverðmæti fiskiskipanna, — þeir lögðu mjög mikla áherslu á að framlög til þessa stofnfjársjóðs yrðu lækkuð allmiklu meira en hér er gert ráð fyrir og að það lægi í rauninni fyrir að stefnt væri að því, að það yrði gert þótt síðar yrði. Það er enginn vafi á því, að framlög til þessara sjóða eru orðin svo mikil og þau hafa raskað svo mörgu í rekstri útgerðarfyrirtækja, að undan því verður ekki vikist lengur að draga nokkuð úr þessum framlögum, en eins og kunnugt er hafa þessi framlög verið hækkuð stórkostlega á síðasta ári, — alveg stórkostlega hækkuð á síðasta ári og segja má að þá hafi keyrt úr hófi fram í þessum efnum. En nokkuð hafa þessir sjóðir verið að vefja upp á sig um langan tíma.

En það er líka rétt að gera sér grein fyrir því, að þegar þessar ákvarðanir voru teknar á sínum tíma, að ákveða svona mikil framlög til þessara ýmsu sjóða, þá var raunverulega verið af hálfu ríkisvaldsins að setja lög um þessi atriði, þá var verið að hlutast til um að breyta þeim hefðbundnu skiptakjörum sem í gildi voru í kjarasamningum á milli sjómanna og útvegsmanna. Það var verið að ákveða að allmiklu af aflaverðmætinu yrði ráðstafað í ákveðnu skyni, þannig að það kæmi ekki til hlutaskipta og hlutur sjómanna yrði af þeim ástæðum minni en hefði annars orðið. Þótti nauðsynlegt að setja ákvæði um þetta, sérstaklega í sambandi við miklar gengisbreytingar á sínum tíma, og flest þessi stærstu atriði eru komin inn í löggjöfina í sambandi við slíkar breytingar. Þegar síðan er horfið að því að draga úr þessum miklu framlögum til sjóðanna, þá rís að sjálfsögðu aftur upp sá gamli ágreiningur á milli sjómanna og útgerðarmanna hvernig fara skuli með það aflaverðmæti, sem þá kemur út í aflaverðið sjálft, þegar að skiptum kemur. Nú er t. d. gert ráð fyrir því, að verði þessi frumvörp samþykkt til breytinga á gildandi fyrirkomulagi, þá geti fiskverð almennt séð hækkað frá því, sem verið hefur, um um það bil 24%. Sjónarmið útgerðarmanna er að sjálfsögðu það, að þeir vilja þá að ráðstafanir séu gerðar um leið til þess að þetta hækkaða aflaverð lendi til þeirra áfram, eins og verið hefur í gegnum sjóðafyrirkomulagið, en komi ekki til skipta og sjómenn fái ekki aflahlut úr þessari fiskverðshækkun. Hins vegar koma af skiljanlegum ástæðum fram kröfur sjómanna um það, að um leið og þessi formbreyting er gerð, þá fái þeir aflahlut úr þessu hækkandi fiskverði.

Það er ljóst af því samkomulagi, sem þó er með margs konar fyrirvörum af hálfu þeirra sem að þessu standa í sjóðanefndinni, að enn hafa þeir ekki komið sér saman til hlítar um það, hvernig skuli fara með þessi mál. Er gert ráð fyrir því að þeir reyni að semja um það í sambandi við almenna kjarasamninga hvernig með skuli fara. Ég tel að það komi fram í sjónarmiði sjómanna að þeir geti fallist á það sem milliveg í þessum efnum að þeir fái ekki úr allri þessari fiskverðshækkun fullan aflahlut eins og um hefur verið samið áður, en gera kröfu um að fá nokkurn hluta. Hvort samningar takast um það eða ekki, skal ég láta ósagt eins og mál standa nú.

Ég tók eftir því að ræða hæstv. ráðh. sagði, að það væri beinlínis af hans hálfu forsenda fyrir þessum frv. að samkomulag næðist á milli sjómanna og útgerðarmanna um þessi atriði, því að ef það tækist ekki þá væri ekki hægt að standa að þeim breytingum sem felast í þessum frv. sem hér eru nú á dagskránni.

Ég tek undir það með honum, að það er eðlilegt að það séu einmitt fulltrúar sjómanna og útvegsmanna sem geri upp sín á milli við samningsborðið á frjálsan hátt, hvernig með þessi mál skuli fara, þetta hækkaða fiskverð, hvernig því verði skipt á milli aðila. Það er eðlilegt að það sé þeirra mál. Og ég tel að það sé í rauninni framför frá því, sem verið hefur, að ríkisvaldið sé ekki að grípa þarna inn í.

Ég er á þeirri skoðun að í meginatriðum sé stefnt í rétta átt með því frv., sem hér er til umr. um útflutningsgjald af sjávarafurðum — í meginatriðum sé stefnt í rétta átt — og einnig með hinu frv. sem er 1. mál á dagskrá. En í frv. eru þó nokkur atriði, sem ég vil minnast á strax við 1. umr. og ég tel að í rauninni komi þessu máli að litlu leyti við og sé heldur hæpið að blanda inn í málið.

Það er t. d. gert ráð fyrir því, að lítið framlag, sem verið hefur um langan tíma til Fiskimálasjóðs, verði lagt niður eða öllu heldur að það gangi framvegis til Fiskveiðasjóðs og í sambandi við þetta mál verði í rauninni tekin afstaða til þess að leggja Fiskimálasjóð niður, en fela Fiskveiðasjóði þau störf, sem hann hefur haft með höndum, í krafti þessara tekna sem Fiskimálasjóður hefur haft. Ég er fyrir mitt leyti á móti þessari breytingu og tel að hún eigi ekkert skylt við það mál sem hér er um að ræða. Það hefur verið haldið við þá stefnu, að Fiskveiðasjóður væri hreinn stofnlánasjóður, og hafa valist til stjórnunar á þeim sjóði þeir aðilar sem fyrst og fremst hafa komist þar inn í krafti þess að þeir væru að taka ákvörðun um lánveitingar. En Fiskimálasjóður hefur, þó að hann hafi ekki verið mjög öflugur nú um langa hríð, miklu víðtækari verkefni. Hann hefur aðstöðu til þess að veita styrki til viðbótar við lítil lán sem hann veitir, og hann á að vinna að ýmiss konar tilraunastarfsemi í þágu sjávarútvegsins. Ég tel mjög óheppilegt að blanda þessu hvoru tveggja saman, styrkveitingum og lánveitingum, og hefði því viljað að þetta atriði, sem kemur í rauninni ekkert þeirri meginbreytingu við sem felst í þessu frv., það yrði gerð breyting á því.

Þá vil ég einnig segja það, að ljóst er á heildargrg. frá sjóðanefnd að þar er ekki um fullnaðarsamkomulag aðila að ræða eða fastar till. Það eru sterkir fyrirvarar frá hálfu ýmissa þeirra aðila sem í sjóðanefndinni voru. Það er því ekki hægt að líta á allar þær ábendingar og till., eins og það er kallað í nál., sem þannig mótaðar till. að aðilar séu þar alveg bundnir af, enda er mér kunnugt um verulegan ágreining um viss atriði og það er líka viðurkennt í sjálfri aðalgrg. En ég vil vinna að því fyrir mitt leyti að reynt verði að hraða frekar afgreiðslu þessara mála, af því að ég veit að þau snerta mjög þá kjarasamninga sem nú eru í gangi á milli aðila, og ég tel sjálfsagt að það sé reynt að mæta óskum um það efni. Hins vegar er ekki hægt annað en benda á það, að hér er um mjög viðamikið mál að ræða og margþætt mál sem ágreiningur hefur staðið um lengi og stóð ekki síst um þegar þessi lög voru sett, svo að það er full ástæða til þess að sjútvn. gefi sér nokkurn tíma til að athuga einstakar till. í málinu og að málið verði síðan lagt þannig fyrir, eftir að það kemur úr nefndarathugun, að þm. geti áttað sig fyllilega á málinu. En af því að ég hef rætt hér nokkuð saman efni beggja þessara frv. sem hér eiga saman, þá geri ég ekki ráð fyrir að þurfa að eyða neinum tíma í að ræða um fyrsta dagskrármálið þegar það kemur fyrir, en vísa í þeim efnum aðeins til þess sem ég hef sagt um hitt frv., um útflutningsgjald. Ég tel, að frv. bæði stefni í rétta átt, en hef þó fyrirvara um stuðning við ýmis atriði varðandi bæði frv.