17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

136. mál, símaþjónusta

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér efnisatriði þess máls sem til umr. er. Það, sem varð þess valdandi að ég kvaddi mér hljóðs, var inngangur að ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. þar sem hann lét að því liggja að sú harða afstaða þingmanna dreifbýlisins, sem hann vildi telja til þess að jöfnuð yrðu metin á þessu sviði svo sem öðrum i sambandi við þann ójöfnuð sem ríkt hefur, þessi harka spillti fyrir því að árangur yrði af þessu starfi.

Ég vil fyrir mitt leyti a.m.k. mótmæla þessu harðlega. Hitt má segja, að það má kannske frekar búast við því, að ef dreifbýlisfólk léti eftir sem áður traðka á sér í þessum efnum, hefðist ekkert að, sæti þegjandi, þá kæmi ekki þessi mótleikur frá þéttbýlissvæðunum. En þeir virðast koma upp æðivíða nú með beinum eða óbeinum hætti, málsvarar þessa ójafnaðar í sambandi við þetta mál og mörg önnur að því er varðar mismun milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Mér finnst þó að þessi liðsmaður, óbeini, komi úr hörðustu átt. En skiljanlegt er það kannske, vegna þess að hann er þm. dreifbýlis, en búsettur á þéttbýli, þannig að hann er e.t.v. einn af þeim sem í hvorugan fótinn geta stigið, væflast sitt á hvað, vill vera góður við alla. Þetta er kannske skiljanlegt. En ég held nú samt að fulltrúar dreifbýlisins hér á hv. Alþ. verði að taka af skarið í þessum efnum, verði að vita hvað þeir vilja og hvað þeir vilja áorka fyrir sina umbjóðendur. Í þessu tilviki vænti ég þess fastlega að hv. 4. þm. Norðurl. v. skipi sér í hóp okkar hinna, þessara sem kallaðir eru harðir dreifbýlisþm., og láti af þeim úrtölum sem hann flutti áðan í þeim efnum, að geta verið góður við alla. Það verður að taka afstöðu, og ég vænti þess að hann verði okkar megin þegar sú afstaða kemur.