28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1976

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú nærri því að þm. utan Reykjaneskjördæmis fari hjá sér við að koma hér upp eftir þann þróttmikla kór sem hér hefur látið gamminn geysa úr því kjördæmi í dag. Það er engu líkara en á vissu tímabili eða árabili hafi vaxið þar úr grasi svo til eingöngu fjármálaséní, og mega þá sannarlega aðrir landshlutar fara að gá að sér ef gerð verður alvara úr því, sem raddir eru uppi um nú, að fjölga mjög þm. úr því annars ágæta kjördæmi.

Það fer ekki hjá því að við 1. umr. þess fjárlagafrv. sem nú er verið að ræða komi upp í hugann hversu mikið mark sé á því takandi sem hér er lagt fyrir hv. þm. í formi fjárlagafrv., og þá kannske frekar hversu mikið mark sé takandi á fjárlögum sem slíkum að lokinni afgreiðslu hér á hv. Alþ. Ég hygg að allir hv. þm. minnist þess að við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1975 hér á Alþ. á s. l. hausti gagnrýndi stjórnarandstaðan harðlega þau vinnubrögð, sem þá var beitt í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, og lýsti því yfir þá að það plagg væri í raun og veru marklaust plagg, pappírsgagn. Ég hygg líka að það hafi komið á daginn að þessar fullyrðingar og þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafi haft við æðimikil rök að styðjast. Það var ekki liðið langt á árið 1975 þegar búið var að spretta þeim fjárlögum, sem afgr. voru í des, upp tvívegis á fyrstu 4 mánuðum ársins 1915. Menn minnast þess líklega að nokkru eftir fjárlagaafgreiðsluna var flutt hér á Alþ. stjfrv. um ráðstafanir í efnahagsmálum sem inni hafði að halda m. a. heimild til niðurskurðar á útgjaldahlið fjárlaga um allt að 3.5 milljörðum kr. Að vísu var hinn formlegi niðurskurður, ef svo má segja, ekki slíkur. Hæstv. ríkisstj. með fjmrh. í broddi fylkingar heyktist greinilega á því að framkvæma slíkan niðurskurð að upphæð 3.5 milljarðar kr., en lét nægja formlegan niðurskurð um 2 milljarða kr.

Þetta er athyglisvert, að slíkt skuli gerast undir forsæti hæstv. núv. fjmrh., með hliðsjón af því að um ári áður, í tíð þáv. ríkisstj., þ. e. a. s. vinstri stjórnarinnar, var hann aðaltalsmaður Sjálfstfl. í fjármálum og stóð að flutningi till. hér á hv. Alþ. um niðurskurð á fjárlögum þáv. upp á 4.3 milljarða og taldi létt verk og löðurmannlegt að framkvæma slíkt. En það er til annars konar niðurskurður en formlegur niðurskurður og þeim niðurskurði hefur hæstv. ríkisstj. í gegnum embættismannakerfið í landinu og ríkiskerfið beitt dyggilega umfram þá 2 milljarða sem meiri hl. fjvn. skar niður á sumrinu 1975. Sá niðurskurður er framkvæmdur í því formi að þó að fjárveitingar séu til ýmissa framkvæmda á fjárlögum og standi þar óbreyttar, þá er niðurskurðurinn framkvæmdur með þeim hætti að kerfið er látið halda svo á málum að ekki sé farið í neinar framkvæmdir fyrr en svo síðla árs að útilokað sé að framkvæma þær víðs vegar á landinu, að undanskildum hluta landsins, og líklega vita allir hver sá hluti er.

Sá niðurskurður, sem meiri hl. fjvn. í umboði hæstv. ríkisstj. framkvæmdi á fjárlögum ársins 1975, hann bitnaði fyrst og fremst á framkvæmdaframlögum til lífsnauðsynlegra framkvæmda víðs vegar á landinu og félagslegri þjónustu. Í frv. um efnahagsráðstafanir sem hér var getið áðan og samþ. var á s. l. vetri var gert ráð fyrir því að allar till. um niðurskurð færu í gegnum fjvn. Ekki nema lítinn hluta af því, sem skorið hefur verið niður, hefur fjvn. fengið til umfjöllunar. Mér er ekki kunnugt um að framkvæmdir, sem skornar hafa verið niður t. d. hjá Pósti og síma, en markaðar eru í fjárlögum, hafi verið bornar undir fjvn. til umfjöllunar. Mér er ekki heldur kunnugt um að framkvæmdir hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sem sömuleiðis eru markaðar í fjárlögum, hafi verið bornar undir fjvn. Hér hefur kerfið, hið margumtalaða embættismannakerfi, verið látið eitt um að segja til um hvaða framkvæmdir eigi að fara í, þó að búið sé að ákveða af fjárveitingavaldinu til hverra framkvæmda fjárveitingar eru ætlaðar. Þetta eru vinnubrögð sem ég a. m. k. vil ekki sætta mig við. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að benda á þetta einmitt við umr. um fjárlög og fjárlagafrv., því að það á að vera í höndum Alþ. að ákvarða fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda.

Það má því segja að með þessum ráðstöfunum eða vinnubrögðum sé gengið fram hjá eða a. m. k. á svig við fjárveitingavaldið og hinar ýmsu stofnanir, sem hlut eiga að máli, látnar um að ráðsmennskast með fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda. En hvað er þá með það fjárlagafrv., sem hér er til umr.? Skyldi nú ekki mega undir forustu hæstv. fjmrh. núv. taka æðimikið mark á því plaggi sem þm. eru nú búnir að hafa undir höndum nokkurn tíma til lestrar?

Hæstv. menntmrh. sagði hér fyrir nokkrum dögum að sér vitanlega hefðu fjárlagafrv. alltaf byggst á gildandi lagaákvæðum. Er ekki hægt að segja hið sama um fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj. Ó nei, ekki aldeilis. Þetta fjárlagafrv. er að verulegu leyti byggt á óséðum lögum, lagafrv. sem ekki er enn farið að leggja fyrir Alþ. Menn segja, bæði hæstv. fjmrh. svo og sumir aðrir, í fjölmiðlum að hér sé um að ræða stjfrv. sem hafi að baki sér 42 þm. af 60 og það sé því öruggt um að þetta mál fái góðan og skjótan byr í gegnum þingið, þó að menn hafi ekki séð það enn. Og vel má vera að það sé búið að aga svo þá hv. stjórnarliða úr dreifbýliskjördæmum að þeir fáist til þess að kyngja hverju sem er í þessum efnum. En það á eftir að koma í ljós. Það er því mjög erfitt að fara mörgum orðum um þetta fjárlagafrv., þar sem menn vita í raun og veru ósköp litið á hverju það byggist eða hvað er um að ræða. Og þó að sumir hverjir hafi þessa skoðun og trú, að þingstyrkur hæstv. ríkisstj. sé svo mikill að öllum málum sé borgið sem hæstv. ríkisstj. vill koma í gegn, þá virðast sumir hæstv. ráðh. núv., eins og hæstv. samgrh. var a. m. k. fyrir ári, vantrúaðir á slíkt. Hann sagði við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1975 á s. l. hausti orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér er það alveg ljóst að fjárlög íslenska ríkisins eru flóknari en svo að það verði hægt að breyta þeim á einhverjum vikum eða mánuðum. Þess vegna lagði ég saman hlustirnar í fyrravetur og hlustaði ekki á það þegar menn voru að tala um að hægt væri að lækka fjárlög með einu handtaki um 1, 2 eða 3 milljarða. Slíkt er tal út í loftið,“ segir hæstv. samgrh., „og verður hvorki á færi mínu né núv. hæstv. fjmrh. Hvort sem menn treysta sér til þess eða ekki, þá mun lífsreynsla sanna þeim að þetta er ekki hægt, að þeir verða að byrja á því að fá hv. alþm. til þess að breyta mörgum lögum áður en slíkt er framkvæmanlegt.“ Og hann endar á því að segja, hæstv. samgrh.: „Og mér er sem ég sjái það gert hér á hv. Alþ. að breyta þessum lögum.“

Þetta er nú trú þeirra hæstv. sumra hverja a. m. k. á að breytingar á þeim lagabálkum, sem í gildi eru, en fjárlagafrv. byggist ekki á, nái í gegn hér á hv. Alþ. En ég segi aftur: Vel má vera að búið sé að aga svo hv. stjórnarliða að þeir kyngi þessu öllu saman, og það á þá eftir að koma í ljós.

Þá hefur verið sagt hér, og þarf raunar ekki að ítreka, að mikið af því, sem fram kemur í þessu fjárlagafrv., mikið af grundvelli þess er óraunhæft. Eða láta menn sér detta í hug, meira að segja stjórnarliðar, — láta þeir sér detta í hug að það sé raunhæft að byggja á óbreyttum launum allt næsta ár, eins og fjárlagafrv. gerir? Dettur nokkrum manni í hug að slíkt eigi sér stað eftir allt það sem á undan er gengið í launaskerðingu á þessu ári? Og dettur mönnum í hug að það sé raunhæft að gera ráð fyrir óbreyttum daggjöldum á sjúkrahúsum? Frv. gerir ráð fyrir því. Auðvitað er þetta ekki raunhæft. Hér er enn á ferðinni marklaust plagg, pappírsgagn sem ekki verður séð að mark verði á takandi eins og það nú lítur út. Hæstv. fjmrh. sagði sjálfur í sjónvarpsviðtali, ég held sama daginn og fjárlagafrv. var lagt fram hér á Alþ., að talan, sem sett væri inn fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna, væri bara bráðabirgðatala, ekkert að marka hana. Ég spyr. Hvað er þá að marka í þessu frv. sem hér er verið að ræða, þegar grundvöllur þess, sem það byggist á, er að mestu leyti óraunhæfur. Það mætti auðvitað halda lengi áfram að telja svona upp í sambandi við þetta fjárlagafrv.

Þetta fjárlagafrv., sem hér er verið að ræða, er mjög óraunhæft og hlýtur að taka miklum breytingum í meðförum þingsins. Þetta fjárlagafrv. er því sannkallað niðurskurðar- og samdráttarfrv. sem boðar einhverja mestu aðför að dreifbýlinu sem um getur, og hefur það þó æðioft verið slæmt. (Gripið fram í: Þú sagðir sjálfur að það væri ekkert að marka það.) Jú, en ég verð að tala um það eigi að síður. Ég kemst ekki hjá því. Það er verið að ræða það mál, og ég get ómögulega farið að brjóta þingsköp með því að ræða ekki það mál sem á dagskrá er. Það er til þess ætlast. Þetta ok er lagt manni á herðar, hv. stjórnarþm.

Það er ástæða eigi að síður til þess að vekja athygli á nokkrum atriðum í þessu frv., þó að ég verði enn að ítreka það, hafi menn ekki skilið það, að það er að verulegu leyti marklaust. En eigi að síður er ástæða til þess að vekja athygli á nokkrum atriðum þess. Það er t. d. ástæða til þess að vekja athygli á því að þetta fjárlagafrv. boðar stórkostlega skerðingu á almannatryggingunum. Það er ástæða til þess að vekja stjórnarliða hér á Alþ. til umhugsunar um það, hvað hér er á ferðinni. Hér er boðaður stórkostlegur niðurskurður á almannatryggingakerfinu eða um 2 000 millj. kr., og það sem verra er, að einnig í þessu vaða menn í blindni um það hvernig á að framkvæma þetta. Um það hafa menn ekki séð einn stafkrók enn frá hæstv. ríkisstj. Það er því full ástæða til þess að spyrja — ekki bara hæstv. fjmrh., hann hefur sjálfsagt svörin á reiðum höndum eins og fyrri daginn, en það er einnig ástæða til þess að spyrja fleiri hæstv. ráðh. hvað hér sé verið að gera. Því miður er hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki viðstaddur og spurningar verða því að beinast að öðrum, enda margundirstrikað að þetta er stjfrv., allir bera jafna ábyrgð. En hvað á að gera í sambandi við niðurskurð á almannatryggingakerfinu? Á að lækka elli- eða örorkulífeyri, og ef svo er, hvar á þá að skerða hann og hversu mikið? Á að afnema tekjutrygginguna eða á að minnka hana eitthvað — hversu mikið? Eiga sjúklingar sjálfir að fara að borga fyrir sína sjúkrahúsvist að einhverju eða öllu leyti, eða hvað á að gera? Við þessu fást engin svör. Er furða þó að menn segi að þetta sé marklaust plagg.

Þá er að því látið liggja í þessu fjárlagafrv. að lagt verði niður hið svokallaða vörugjald, — ég vil segja hið illræmda vörugjald, því að margt slæmt hefur verið lagt á herðar dreifbýlisfólks um dagana, en ég efast um að nokkurt jafnranglátt gjald hafi hvílt á herðum þess eins og þetta vörugjald. Það er talað um 12% vörugjald, en það er í mörgum tilvikum orðið 21% sem dreifbýlisfólk þarf að borga fyrir það. Það hefði hæstv. fjmrh. átt að hugsa út í áður en það var sett á. (Gripið fram í Þá er sjálfsagt að leggja það niður.) Já, það var sjálfsagt að leggja það niður. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það gjald var grundvallað á því að það ætti að leggjast á ónauðsynlegar vörur, — vörur sem fólk hefði ekkert að gera með, var sagt þá, gæti mjög vel verið án. En í skiptum fyrir þetta á að stórlækka niðurgreiðslur á brýnustu lífsnauðsynjum heimilanna. Það á að leggja stórkostlega byrði á barnmargar fjölskyldur og elli- og örorkulífeyrisþega með því að stórlækka niðurgreiðslur á lífsnauðsynjavörum, sem hefur auðvitað þær afleiðingar að þær stórhækka í verði fyrir þann sem er að kaupa þær. Þarna birtist enn réttlætiskennd hæstv. ríkisstj. til láglaunafólks, til gamalmenna og öryrkja. Þetta er sú kveðja, ásamt — ég segi: ásamt þeirri lækkun sem á að framkvæma á almannatryggingakerfinu, sem hæstv. ríkisstj. sendir þessum aðilum þjóðfélagsins sem verst eru á vegi staddir.

Þá gerir fjárlagafrv. ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs, miðað við árið í ár, hækki um 21.5%, á sama tíma og það er staðreynd að verðbólga hefur verið um eða yfir 50% á árinu. Telja menn samræmi í þessu, eða á hverjum skyldi bitna þessi niðurskurður? Á sama tíma og gert er ráð fyrir þessari útgjaldaaukningu á þessum liðum, þá gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir að vaxtagreiðslur ríkissjóðs hækki — ekki um 21.5%, heldur 64.1%.

Hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild hefur verið iðin við kolann á þeim miðum sem lántökur nefnast. Þetta var eitt af þeim atriðum, sem bæði hæstv. núv. fjmrh. og aðrir talsmenn Sjálfstfl. gagnrýndu hvað mest í tíð fyrrv. ríkisstj., stórauknar lántökur erlendis. En „verkin sýna meistarann“ á við í þessu sem og mörgu öðru.

Það gengur eins og rauður þráður í gegnum allt fjárlagafrv. niðurskurður á framlögum til lífsnauðsynlegra framkvæmda úti á landi og félags- og menningarmál. Og verði sú stefna, sem frv. boðar, staðfest hér á hv. Alþ., þá er vissulega vá fyrir dyrum víða. Í frv. er gert ráð fyrir t. d. að framlög til framkvæmda, sem ríkið stendur eitt að, hækki aðeins um 11%, á sama tíma og framkvæmdakostnaður hefur hækkað yfir 50%. Það er niðurskurður um 40% að framkvæmdamagni. Til framkvæmda, sem kostaðar eru af fleiri aðilum en ríkinu, á að hækka um 16%, þ. e. skerða að raungildi um 34%. Og til sveitarfélaga og einstaklinga eiga framlög að hækka um 9.6% eða skerðast um 40%. Fjárfestingarstyrkir til einstaklinga og félagasamtaka eiga skv. frv. að lækka um 4.8% eða skerðast um 55%. Svona má finna svo að segja í öllum þeim liðum sem að þessum málum lúta í því fjárlagafrv. sem hér er til umr.

Það er athyglisvert að sjá það, á sama tíma og allir virðast sammála um að auka beri verkmenntun í landinu, að þá skuli framlög til iðnskóla eiga að skerðast um 33% miðað við raungildi framkvæmda. Það er líka athyglisvert að sjá það að framlög til grunnskóla eigi að skerðast um 29% og framlög til sjúkrahúsa og elliheimila um 8%. Íþróttahreyfingin á líka að verða fyrir þessu. Framlög til hennar eiga að skerðast um 12%. Og í lokin má nefna að framkvæmdir við hafnarmannvirki eiga að skerðast, þau eiga að hækka í fjárlagafrv. um 17% frá því sem er í gildandi fjárl. og skerðast þá um eða yfir 40%.

Þetta er sá boðskapur sem finna má í því fjárlagafrv. sem er annað í röðinni hjá núv. hæstv. ríkisstj. Það mátti sjá álíka í fjárlagafrv. fyrir árið 1975, en þá, sem betur fer, segi ég, brast flótti á stjórnarliðið undan þeim þrýstingi sem kom frá hinum ýmsu aðilum sem eiga þarna hagsmuna að gæta.

Þá er og ljóst að hæstv. fjmrh. ætlar að hækka tekjur til ríkissjóðs af söluskatti um sem svarar 2 stigum eða líklega um 2.6 milljarða kr. Fjárlagafrv. boðar það, og fjárlagafrv. boðar einnig stórkostlega aukna skattbyrði þar sem launafólki er ætlað að bera helming af verðbólgunni bótalaust.

Samdráttarstefna ríkisstj. úti á landsbyggðinni á að koma fram í fjárlagafrv. Það er það fyrst og fremst sem þetta fjárlagafrv. boðar. Það á að lækka stórkostlega fjárveitingar til framkvæmda í dreifbýlinu á sama tíma og búið er að setja af stað framkvæmdir upp á milljarðatugi hér á suðvesturhorni landsins og að verulegu leyti utan fjárlaga. Það er þetta sem er að gerast. Þetta er sú stefna, sem þetta fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. boðar. Það er ekki ófróðlegt að sjá t. d., þó að lítið dæmi sé, hvernig hæstv. menntmrh. ætlar að framfylgja því óskabarni sumra þm. Framsfl., — að vísu frá fyrri tíð, það skal fram tekið, — sem heitir „Styrkir til jöfnunar á námsaðstöðu“. Það er í gildandi fjárl. 110 millj. kr. Það er skv. fjárlagafrv. 104.5 millj. kr. Það lækkar sem sagt í krónutölu, þetta óskabarn sumra þm. Framsfl.

Það er líka fróðlegt að sjá það, þótt í litlu sé, hvern hug hæstv. ríkisstj. ber til verkalýðshreyfingarinnar í landinu og launafólks. Það má sjá það í fjárlagafrv. að — á sama tíma og hækkuð eru framlög til Verslunarskólans t. d. um 5 millj. og Samvinnuskólans um 2.4 millj., þá er Bréfaskóli SÍS og ASÍ látinn standa með sömu krónutölu og er í gildandi fjárl., 1200 þús. Þetta er sá hugur sem hæstv. ríkisstj. ber til þessara fjölmennu launþegasamtaka í landinu.

Þetta fjárlagafrv. og sú stefna, sem það boðar, er því hnefahögg í andlit þess fólks sem byggir hinar dreifðu byggðir, svo sem hér hefur verið gert að umræðuefni. Það er hnefahögg í andlit þess fólks til sjávar og sveita sem hefur háð hvað harðasta lífsbaráttu undir erfiðustu kringumstæðum.

Ég skal ljúka þessum orðum mínum með því að vona innilega að hv. stjórnarliðar, a. m. k. úr dreifbýliskjördæmunum, sjái að sér og afstýri þeirri vá sem þetta fjárlagafrv. boðar landsbyggðinni.