19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa sýnt málinu áhuga og hafa tekið til máls, og þá sérstaklega vil ég þakka hv. 6. þm. Suðurl. sem mér fannst sýna réttastan skilning á till. sem hér liggur fyrir. Hann benti á það, sem auðvitað er rétt og augljóst, að ]:essi þáltill. gengur ekki út á það að við ætlum að skikka Lífeyrissjóð bænda eða bændasamtökin til að samþykkja að Lífeyrissjóðurinn greiði þetta fæðingarorlof. Hún gengur einfaldlega út á það að athuga og kanna málið. Mér fannst það í rauninni sjálfsögð háttvísi af okkur flm., af því að við vitum að þetta er nokkuð stórt mál og krefst fjármuna og kemur sérstaklega við þennan sjóð, að við færum ekki að leggja til ákveðið að þessa greiðslu skyldi hann taka á sig, heldur einfaldlega að kanna viðhorf aðstandenda sjóðsins til þess að þetta mál næði fram að ganga.

Mér kom í rauninni einkennilega fyrir fullyrðing hv. 4. þm. Suðurl., Jóns Helgasonar, að þessi sjóður væri með veikari lífeyrissjóðum. Ég hef það frá einum helsta forsvarsmanni sjóðsins, sem leiðrétti mig er ég sagði eftir gögnum, sem ég hafði aflað mér, að hann mundi vera áttundi sjóðurinn, — hann sagði nei. ætli hann mundi ekki vera sá sjötti? Ég get upplýst þetta hér og án þess að nafngreina manninn sem ég bar fullt traust til. Alla vega hef ég tekið trúanlega þá tölu sem formaður Lífeyrissjóðs bænda gaf mér upp, að höfuðstóll sjóðsins hefði numið 401 millj. um áramótin 1974–1975, og það er engin smáupphæð þó að krónan okkar sé orðin lítil. Sami hv. þm. gat um að á s.l. ári hefði 1049 einstaklingar hlotið lífeyrisgreiðslu úr sjóðnum. Það er nokkuð há tala, finnst mér, og kemur heim við það sem ég sagði áðan og mun vera staðreynd, að meðalaldur bænda er hærri en annarra stétta og þess vegna koma fleiri inn þarna á lífeyrisaldri.

Ég vil minna á þá tölu sem ég benti á og ég hef reiknað, að vísu ekki óyggjandi, ég hef áætlað hana, á vissum forsendum þó, sem ég hef fyrir mér að árlega mundu það vera um 240 konur sem kæmu til með að njóta þessa fæðingarstyrks og upphæðin mundi vera rétt rúmlega 11 millj. Þetta er því ekki mjög stórt fjárhagslegt verkefni. En ég vil taka undir með hv. 5. þm. Reykv., að auðvitað er þetta fyrst og fremst spurning um fjármagn, og það er eins og það sé töfraorð að vísa þessu til almannatrygginga og segja að almannatryggingar skuli borga þetta, — almannatryggingar sligaðar af útgjöldum sem á þær leggjast með sívaxandi þunga. Almannatryggingar þarf að fjármagna, við höfum fundið það tilfinnanlega, og einhvers staðar frá þurfa þessir peningar að koma. Ég hef talið að bændum mætti vera það að vissu leyti metnaðarmál að þeirra lífeyrissjóður greiddi eiginkonum bænda þessa litlu greiðslu við fæðingu nýrra þjóðfélagsþegna sem hugsanlega fremur öðrum kæmu til með að verða framtíðarbændur í sveit, og við eigum sannarlega ekki of mikla möguleika í þeim efnum. Ég vil leggja áherslu á það, sem kom fram hjá mér og raunar öðrum þm. sem hér hafa talað, að vitaskuld eru þetta allt mjög brýn og aðkallandi verkefni, þessi verkefni Lífeyrissjóðs bænda utan við sjálfar lífeyrisgreiðslurnar. Ég lagði á það sérstaka áherslu. Hér er einfaldlega um mat að ræða, og ég verð að segja að ég hef orðið að vissu leyti vonsvikin yfir því að heyra á bændum hér að það að greiða bændakonum fæðingarorlof sé í rauninni heldur lítilmótlegra verkefni en að byggja hlöður og rækta jörðina og þar fram eftir götunum, gróðurhús og fleira sem búskap tilheyrir. Að sjálfsögðu eru þetta allt þörf og mikilvæg verkefni. En það er spurningin um hvort metið er meira að bændakonum beri þessi réttur eða það sé hægt að veita nokkur hundruð þúsunda út á íbúðarhús, sem byggt er, eða út á aðrar framkvæmdir, sem búskap tilheyra.

Það kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. að það væri verið að sjúga merginn úr fjárfestingarsjóðum með alls konar aukaverkefnum. Ég tók það alls ekki svo að hann ætli fyrst og fremst við þessar fæðingarorlofsgreiðslur til bændakvenna. En nærri liggur að ætla að öðrum fjárfestingarsjóðum atvinnuveganna bæri í rauninni miklu meiri skylda til þess að standa undir þessum verkefnum, sem á er minnst, heldur en lífeyrissjóðum. Og þá kem ég að því, sem ég minntist á í minni framsöguræðu, að lífeyrissjóðirnir allir, ekki bara Lífeyrissjóður bænda, hafa tekið að sér verkefni, þörf og nauðsynleg í sjálfu sér, sem eru í eðli sínu miklu óskyldari þeirra frumhlutverki heldur en þessar orlofsgreiðslur í sambandi við fæðingu, og ég stend enn við þá skoðun mína sem ég veit að ég er rannar ekki ein um.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri. En ég tel einsýnt að það væri fyrir neðan virðingu Alþingis að samþykkja ekki þessa till. Hún gengur ekki út á annað en að fara fram á skoðun og athugun á möguleikum til þess að bændakonur sitji þarna við sama borð og fjöldi annarra íslenskra kvenna nú og vonandi allar að nokkrum tíma liðnum.