26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls nú við þessa umr.

Ég tel að varðandi það frv., sem liggur fyrir, miðað við 9500 kr. á íbúa á ári, sé gengið nokkuð til móts við verðbreytingar, en þó ekki jafnlangt og að mínu mati er æskilegt. Ég vil þó taka það fram, að ég mun styðja frv. eins og það hefur komið frá Ed. að því er þetta snertir, og það, að ég fellst á það fyrir mitt leyti, mótast af því, að sá hluti sölugjaldsins, sem varið er til orkuframkvæmda, hefur haft svo mikla þýðingu fyrir rannsóknir að ég tel réttlætanlegt að nota aukinn hluta, aukið vægi til þessara rannsókna og til þess að flýta hitaveituframkvæmdum.

Hér liggja fyrir brtt. og hér liggur fyrir m.a. brtt. frá Karvel Pálmasyni um sérstakt aukagjald á hitaveitur sem varið verði til hitaveituframkvæmda eða rannsókna orkumála. Ég vil leyfa mér að minna á það, að á síðasta þingi voru þessi mál mjög hér til umr. og hart um þau deilt. Ég hafði þá afstöðu þá, að ég taldi rétt að þau svæði á landinu, ekki bara Reykjavík, heldur og önnur þau svæði á landinu, sem þegar hafa af hálfu hins opinbera hlotið þá fyrirgreiðslu að búa við margfalt betri kjör um hitun húsa, — þau svæði legðu líka sitt fram á móti til þess að flýta þessum framkvæmdum. Mér þykir heldur hvimleitt þegar verið er að ræða um slíkan jöfnuð og við komumst ekki hjá því að hafa þá stefnu, sem hv. 4. þm. Austurl. talaði um áðan, að jafna á milli olíu, raforku og heits vatns, þeirra orkuforma sem við eigum völ á, — þegar verið er að tala um að jafna þarna á milli skuli bæði nú og í umr. í fyrra vera gripið til þess að það sé verið að níðast hér sérstaklega á láglaunafólki, ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegum í Reykjavík, rétt eins og þetta fólk búi ekki annars staðar en í Reykjavík. Hvað megum við þá segja um það lágtekjufólk sem býr úti á landi kannske í sínum íbúðum, af því að allir aðrir úr fjölskyldunni eru farnir, hver og einn sér í sinni íbúð og þarf að greiða á mánuði 25 þús. kr. í hitunarkostnað? Ég get þess vegna ekki tekið þetta sem gild rök.

Ég get þess vegna ekki varðandi þetta mál haft aðra afstöðu nú en þá sem ég hafði í fyrra. M.ö.o.: ég tel eðlilegt að þeir, sem nú þegar hafa hlotið sérstaka fyrirgreiðslu og búa við orkuverð til húshitunar sem er 1/4, að sagt er, ég segi 1/5 af kostnaði þar sem dýrast er, þ.e. þar sem hitað er með olíu, að þessi svæði leggi sitt af mörkum til þess að flýta framkvæmdum. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess nú að kanna hvort 20% eru endilega sú prósenta sem er eðlileg til mótvægis við það sem tekið er af söluskattsstiginu. Ég gæti hugsað mér að þetta gjald yrði ekki stighækkandi fyrir þau hitaveitusvæði þar sem heitt vatn kostar mun meira en hér á Reykjavíkursvæðinu, sem mun vera ódýrasta svæðið að því er ég best veit.

Ég held þess vegna að það sé mikilvægt í stefnumörkun, sem við verðum að láta koma fram gagnvart því fólki sem við versta aðstöðu býr, að þarna komi báðir aðilar nokkuð hvor á móts við annan. Og með tilliti til þess hef ég getað fallist á fyrir mitt leyti að hluti sölugjaldsins, sem fer beint til niðurgreiðslu á olíu, lækki nokkuð tiltölulega frá því sem var, og a.m.k. að sá hluti, sem sparast vegna aukinna hitaveituframkvæmda, renni til þessara þarfa.