26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að blanda mér í þessar umr. En þær hafa dregist allmjög á langinn og ég hef undrast nokkuð sumt sem þar hefur komið fram.

Eins og frv. greinir, þá fjallar það einvörðungu um að framlengja um eitt ár eitt söluskattsstig til þess að jafna að nokkru kyndingarkostnað þeirra sem þurfa að sæta því að kynda hús sín með olíu, og hinna, sem nota jarðvarma — eða rafmagnskyndingu. Frv. hefur tekið þeim breytingum að greiðsla til einstaklinga á olíuhitunarsvæðum verði hækkuð úr 8200 kr. í 9500 kr. Ég verð satt að segja að lýsa því yfir, að ég harma það að hér í þessari hv. d. skuli hafa komið fram raddir sem mæla gegn þessu frv. og þm. hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkv. gegn 1. gr. frv., en þar á ég við hv. 11. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Það er búið að segja rannar flest sem máli skiptir í þessu máli. En mér er kunnugt um það, bæði af minni eigin raun og annarra, að kyndingarkostnaður fyrir meðalhús á olíuhitunarsvæðum úti á landi er, eins og hér hefur verið sagt, 20–25 þús. kr. á mánuði eða 250–300 þús. kr. á ári. Ef þetta frv. verður samþ. með áorðnum breytingum, þá verður olíustyrkur til 5 manna fjölskyldu 47 500 kr. Það liggur sem sagt fyrir, að þrátt fyrir að hér sé um nokkra hækkun að ræða á olíustyrknum verður kyndingarkostnaður þeirra, sem búa á olíusvæðunum, 200–250 þús. kr. á ári. Miðað við þær tölur, sem hér hafa verið gefnar upp um kostnað t.d. á svæði Hitaveitu Reykjavíkur, er gert ráð fyrir því, miðað við núgildandi gjaldskrá, að húshitunarkostnaður á meðalíbúð sé 36–48 þús. kr. á ári. Þrátt fyrir það að t.d. þessi gjaldskrá væri hækkuð um 25% eða þar um bil, þá yrði hitunarkostnaður á slíka íbúð ekki nema 50–60 þús. kr. á ári. Ég verð að segja það, að hér er svo mikill munur að mig undrar að tveir af hv. þm. Reykv. skuli sjá sér fært að rísa hér upp í deildinni og lýsa andstöðu við þetta frv.

Ég vil einnig segja það við hv. 5. þm. Reykv., sem sagði áðan að mesta kjarabótin væri í því í fólgin að fella niður þetta eina söluskattsstig, að ef horfið væri að þeirri leið, þá væri hún að kalla yfir sig skatt á hitaveitur. Þá væri hún að kalla eftir orkuskatti. Því verður ekki unað að ekki verði með einhverjum hætti að því unnið að jafna nokkuð þennan gífurlega mismun sem er á milli íbúa, sem eru á olíuhitunarsvæðum, og hinna, sem njóta hitaveitna.

Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég tel að hér sé það skemmsta gengið sem ég get sætt mig við. Ég mun fylgja þessu frv. óbreyttu. Ef um það er að tefla að huga að öðrum leiðum nýjum gjaldstofnum og nýju fyrirkomulagi á framkvæmd þessa máls, þá er rétt að taka það til athugunar síðar eins og rannar hæstv. viðskrh. hefur getið um. Til þess vinnst ekki tóm að þessu sinni, vegna þess hve skammur tími er eftir þangað til þetta frv. þarf að afgr. ef á að halda áfram við þessa jöfnunarstefnu.

Ég þarf í rauninni ekki að segja hér meira, en ég undraðist það nokkuð í seinni ræðu hv. 11. þm. Reykv., að hann taldi að hann væri fylgjandi jöfnunarstefnu í þessum efnum, en það þurfti hvergi að taka fjármagn til þess að ná jöfnuði fram. (Gripið fram í: Sagði ég það?) Ja, það lá í orðunum. Það mátti ekki taka fjármagn af þeim sem byggju við betri aðstæður. Það átti að ná þessum jöfnuði fram með því að lækka kostnaðinn hjá þeim sem væru verr settir og alls ekki með því að ná neins staðar fjármagni, heldur bara lækka kostnaðinn. Eins og allir vita, þá stenst ekki svona málfærsla, vegna þess að ef á að lækka kostnaðinn hjá einhverjum, þá verður það einhvers staðar að koma niður. Þetta undraðist ég nokkuð og ég get bæst í hóp þeirra hv. þm. sem telja að afstaða þessa hv. þm. og hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur byggist á skammsýni.