01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

180. mál, meðferð opinberra mála

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf hér við spurningum mínum. En hann fór talsvert út fyrir svörin sjálf og að mínu mati út í önnur og almennari vandamál lögreglunnar. Að sjálfsögðu tvinnast þá inn í umr. um hana og hennar störf áfengisvandamálið, og er það ekki nema eðlilegt. Ég átti hér einungis við að þessar sektir lögreglumanna næðu yfir umferðarbrot. Ég geri ekki ráð fyrir að lögreglumönnum almennt verði heimilað að taka upp kvittanahefti og sekta fólk í heimahúsum þó að þeir séu þangað kvaddir vegna áfengislagabrota, þannig að nú fléttast hér inn í þessar umr. miklu stærra og meira vandamál.

Ég vil aðeins vara við því að lögreglumenn hafi of rúma heimild til þess að taka upp kvittanahefti og sekta fyrir brot sem ég álít að sé orðið erfitt að komast hjá, skulum við segja, vegna hins sífjölgandi banna sem eiga sér stað og þá sérstaklega kannske hér á Reykjavíkursvæðinu, þar sem umferðin er orðin mikið vandamál fyrir löngu með alls konar umferðarskiltum eða skiltum, sem gera það að verkum að fólki er tæplega ætlandi að brjóta ekki þau lög. Ég hef sjálfur orðið fyrir því að vera sektaður á sama korterinu bæði af stöðumælaverði og lögreglumanni. Þarna er gat, að ég held, á almennum notum á þessum sektarheimildum.

Ég vil taka undir með ráðh. að það er sorglegt að það er miklu meiri óhagur en hagur að því að reka Áfengisverslun ríkisins, og ég vil taka undir það, að það er blettur á okkar þjóðfélagi að við skulum þurfa á þeirri tekjulind að halda í ríkum mæli. Og ég vil á sama hátt fagna því hugrekki sem ráðh. hefur í þeim málum. Hann hefur sýnt það oftar en einu sinni. Ég held, þó að hann hafi orðið fyrir aðkasti nú undanfarna daga vegna lokunar Áfengisverslunarinnar, að það sé miklu stærri hluti þjóðarinnar sem hann átti sér að baki í þeim málum. Og ég mundi fagna því ef ráðh. sæi einhverjar aðrar leiðir til þess að skapa ríkissjóði tekjur heldur en af áfengissölu.

Ég vil líka koma í veg fyrir þann misskilning, ef hætta er á honum, að ég hafi í mínum málflutningi áðan höggvið að einu eða neinu leyti að lögreglunni eða lögregluþjónum. Ég held að þeir séu ágætir menn og hafi komið hér fram í mörgum erfiðum, vandasömum málum, þegar þeir voru kvaddir í heimahús til að eiga við ölóða menn, og þá hafi þeir sýnt mikla þjónustulund og aðgætni. Ég hef séð þá að störfum og þekki svolítið til þeirra.

Sama má segja um þá lækna sem hafa starfað að þessum vandamálum. Við heyrðum í sjónvarpinu í gær viðtal við einn þeirra, sem lýsti þessu vandamáli og gerði okkur kannske betri grein fyrir því, hvað þetta er stórt og óhuggulegt vandamál.

En ég vil ljúka máli mínu með því að ítreka að ég átti hér eingöngu við umferðarlagabrot, því að ég reikna ekki með því að lögreglumenn fái nokkurn tíma heimild til þess að sekta á staðnum fyrir önnur brot en umferðarlagabrot, og vil þá um leið vara við þeirri staðreynd að það er orðið erfitt að ferðast í gegnum borgir eins og t.d. Reykjavík, ég tala nú ekki um ef menn ætla sér að stöðva sín farartæki einhvern tíma til þess að gegna þeirri skyldu, sem opinberir aðilar leggja á hvern og einn, að koma á ákveðnar þjónustustofnanir og gjalda sín gjöld, þá eru allar þessar stofnanir í miðborg Reykjavíkur nú og án þess að vera sektaður er bókstaflega ekki hægt að komast að þessum stofnunum. Það er alveg sama hvaða innheimtustofnun á vegum ríkisins er. Þá er orðið ansi þröngt um svigrúm fyrir fólkið.