02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

178. mál, veiting prestakalla

Flm. (Ingiberg J. Hannesson):

Herra forseti. Till. sú til þál. á þskj. 367, er ég hef leyft mér að leggja hér fram ásamt fleirum, um n. til að endurskoða lög um veitingu prestakalla, er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að kjósa n. 7 þm. er hafi það verkefni að endurskoða lög um veitingu prestakalla, nr. 32 frá 3. nóv. 1915.

N. skal ljúka störfum fyrir 1. okt. 1976.

Kostnaður vegna n. greiðist úr ríkissjóði.“ Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur áður verið fjallað um þetta mál hér á Alþ., en þó aldrei nægilega mikið til þess að það yrði afgreitt endanlega og fengi þannig þinglega meðferð. Af þeim sökum er þessi þáltill. flutt hér nú og vænta flm. þess að með samþykkt hennar, ef af verður, sé komið til móts við þær almennu óskir að breyta núgildandi lögum um veitingu prestakalla.

Til þess að rifja lítillega upp forsögu þessa máls hér á Alþ. leyfi ég mér að vitna í grg., sem fylgdi frv. því til laga um veitingu prestakalla sem lagt var hér fram árið 1973, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. um þetta efni voru lögð fyrir Alþ. 1962–1963 og 1961 og voru flutt af menntmn. Nd. að beiðni kirkjumrh. Frv. komu aðeins til 1. umr., en ekki aftur úr n. Frv. höfðu áður verið samþykkt á Kirkjuþingi 1962 með 10:5, 1964 með 10:4 atkv. Kirkjuþing 1972 hefur nú enn samþykkt slíkt frv. með 14:1 atkv. Frv. þessi eru öll mjög lík í aðalatriðum og höfuðeinkenni þeirra er að leggja niður hina almennu prestskosningu. Í hennar stað kemur 1) Heimild sóknarnefnda prestakalls til að „kalla“ prest til embættis, þ.e. ef 3/4 sóknarnefndarmanna og safnaðarfulltrúa eru sammála um val löghæfs prests eða guðfræðings eiga þeir rétt á að fá hann skipaðan í embætti án auglýsingar. 2) Ef til kjörs kemur fer það fram með þeim hætti að þessir sömu kjörmenn kjósa og ef umsækjandi fær 2/3 er kosning hans lögmæt, en annars gerir biskup till. um tvo umsækjendur ef umsækjendur eru tveir eða fleiri, í þeirri röð sem hann metur, en ráðh. skipar annan hvorn. Ef meiri hluti kjörmanna óskar ekki eftir að kjör fari fram, sem mundi langoftast vera, ef aðeins er einn umsækjandi, ráðstafar kirkjumrh. embættinu að fengnum till. biskups, sbr. 3. gr. frv.“

Ljóst er af þessu að þetta mál hefur verið vandlega undirbúið af hálfu kirkjunnar og benda má til frekari upplýsinga á það, sem raunar kemur fram í grg. með þessari þáltill., að Kirkjuþing hefur a.m.k. fjórum sinnum mælt með slíkri breytingu á lögunum og síðast einróma árið 1974. Á sama hátt hefur prestastefna oftar en einu sinni mælt með slíkri breytingu, enda um eða yfir 90% starfandi presta í dag meðmæltir afnámi prestskosninga. Enn fremur er skylt að geta þess, að nokkuð einróma álit barst á sínum tíma frá héraðsfundum prófastsdæmanna í landinu, en þar eiga sæti auk sóknarpresta fulltrúar safnaðanna í viðkomandi sóknum, svonefndir safnaðarfulltrúar, og oft einnig ýmsir sóknarnefndarmenn. Liggur því í augum uppi að það er ekki að ástæðulausu sem farið er af stað með þær óskir að téðum lögum verði breytt, og má raunar furðulegt heita að ekki skuli vera búið að gera hér breytingu á fyrir löngu, svo stór blettur sem margar prestskosningar hafa verið á skipulagi kirkjunnar í landinu.

Nú er það alveg ljóst að um þetta mál eru skiptar skoðanir á meðal manna, og er auðvitað aldrei hægt að fullyrða um það hvorum megin meiri hl. liggur í þessu máli ef út í það væri farið. En grun hef ég um að stór hluti þjóðarinnar vilji breytingu í þessum efnum og styðst ég þar við kynni mín af svo ótal mörgum sem ég hef átt tal við um þessi mál. Enn fremur verðum við að líta á þá staðreynd að nokkur hluti þjóðarinnar lætur sig þessi mál litlu eða engu skipta og stendur á sama hvernig þessum málum er háttað. Kirkjunnar menn hljóta að viðurkenna þetta þótt ekki sé hér um ánægjulega staðreynd fyrir þá að ræða. En héraðsfundirnir í landinu gefa okkur allgóða mynd af skoðun almennings og við hljótum að taka verulegt mark á þeim niðurstöðum sem þar koma fram.

Ég ætla mér ekki á þessu stigi málsins að halda hér langa ræðu um galla prestskosningafyrirkomulagsins, en vil þó fara um þau atriði nokkrum orðum.

Þeir menn, sem starfa sem sóknarprestar á Íslandi, hafa flestir gengið í gegnum þann hreinsunareldi, sem prestskosningarnar eru, a.m.k. þeir sem eru starfandi á hinum þéttbýlli stöðum. Og þeir vita að þeir geta ekki vænst þess, ef þá fýsir að breyta til, að fá stöður öðruvísi en að taka þátt í þessum leik. En þetta er auðvitað vandamál, fyrst og fremst fyrir þá presta sem hefja þjónustu í hinum fámennari stöðum úti á landi, en fýsir svo að fenginni reynslu að takast á við viðameiri verkefni og fá starf í þéttbýlinu. Þeir verða þá að taka þátt í undirbúningi og rekstri kosningabaráttu, sem í fyrsta lagi kostar oft stórfé, sem þeir verða oftast að greiða úr eigin vasa, og í öðru lagi tekur drjúgan tíma frá starfi þeirra í þeim prestaköllum sem þeir þjóna. Ef þeir eru svo óheppnir að falla, þá sitja þeir eftir á sama stað og verða að búa sig undir næstu lotu þegar þar að kemur og freista gæfunnar öðru sinni með því að leggja undir bæði mannorð sitt og sinna og verulegt fjármagn. Mér er kunnugt um það að þeir eru margir prestarnir, sem hætt hafa prestskap einungis vegna þessa fyrirkomulags, og enn fremur hafa margir guðfræðingar farið í önnur störf að loknu námi til þess að losna við þessi ósköp. Þannig missir kirkjan oft og tíðum af góðum starfskröftum, og þess vegna hlýtur það að vera sjónarmið kirkjunnar að breyta hér um til þess að hún geti vænst þess að njóta þeirra krafta sem vilja starfa á hennar vegum án þeirra afarkosta sem prestkosningarnar eru. Auk þess á yfirstjórn kirkjunnar svo til enga tilfærslumöguleika á sínum starfsmönnum með þessu fyrirkomulagi, en það liggur þó í augum uppi að slíkt er oft nauðsynlegt til þess að sem bestur árangur náist. Þeir menn, sem mest eru á móti afnámi prestkosninga, hafa einkum bent á að það sé ekki í anda lýðræðis að taka þennan helga rétt, eins og þeir kalla það, af söfnuðunum að velja sér sálusorgara. Út af fyrir sig væri hægt að fallast á slík sjónarmið ef fylgt væri þeim reglum lýðræðisins þar sem allir hefðu jafnan rétt og jafna möguleika. En svo er ekki, það vitum við, og skal ég nú víkja að nokkrum atriðum því til stuðnings.

Það gefur ekki sanna mynd af lýðræði þótt söfnuður geti valið sér prest sem hann að öllu jöfnu þekkir lítið sem ekkert þegar hann er kosinn og verður svo að sitja uppi með hann hvernig svo sem hann reynist, ef til vill ævilangt. Það eru ekki heldur lýðræðisleg vinnubrögð sem viða tíðkast, að prestar eða guðfræðingar geta undirbúið kosningu sina og fengið loforð um stuðning hjá fólki sem hefur ekki hugmynd um hverjir muni sækja á móti þeim, og því er ekki um neitt val að ræða. Þeir sem seinna koma hafa ekki möguleika á við þann eða þá sem höfðu vaðið fyrir neðan sig og aðstöðuna til þess að undirbúa jarðveginn. Þá vitum við mætavel að auk þess koma hér ýmis tengsl. svo sem vinátta, sifja- og jafnvel stjórnmálatengsl, sem oft hafa jafnvel úrslitaáhrif í þessum efnum. Prestkosningarnar eru því æðioft hálfgerð skrípamynd af lýðræði vegna þess að þar er oft ekki um það að ræða að leikreglum lýðræðisins sé fylgt.

Það er sjálfsagt flestum ljóst að þetta fyrirkomulag var á sínum tíma réttarbót, þegar lögin voru sett, og miðaði að því að fá landsmönnum þetta vald og draga það úr höndum danska valdsins. En í dag horfir málið öðruvísi við. Auðvitað er okkur ljóst að ekkert veitingarvald er óskeikult, hvort sem um yrði að ræða kjörmenn af hálfu safnaðanna sjálfra eða beina skipan frá biskupi eða ráðherra. Það verður trúlega seint fundið það fyrirkomulag sem ekki er hægt að deila um.

Ég hef ávallt litið svo á að það væri ekki góð byrjun hjá sóknarpresti að byrja á því að róta til í þeim söfnuði, sem hann síðar á að starfa með, fá ef til vill hálfan söfnuðinn á móti sér eftir kosningabaráttuna og eiga svo að vera sálusorgari þessa fólks á eftir. Ég held að það sé ekki góður grundvöllur til að hefja starf, enda þótt þessi mál jafni sig venjulega, sem betur fer, fljótlega eftir orrahríðina. Og þó eru margar undantekningar frá því. Nú skal ég taka það fram í leiðinni að einn kost hef ég þó séð við þetta fyrirkomulag, svo að ég komi með einhvern ljósan punkt líka, og það er sú staðreynd að með stuðningsmönnum sínum hefur presturinn eignast góðan hóp fólks sem hann á að geta átt von á að fá með sér til starfa ef hann nær kosningu, þótt reynslan sýni nú raunar hins vegar oft að margt af þessu fólki hefur gaman af því að standa í kosningum og njóta þess spennings sem þeim er samfara, en lætur svo prestinum eftir kirkjulega starfið þegar spenna kosninganna er afstaðin.

Ef við lítum nú ögn nánar á þessi mál frá sjónarmiði prestsins persónulega, þá hljótum við að geta verið sammála um að óæskilegt sé að prestar einir opinberra starfsmanna skuli eiga undir högg að sækja með lífsstarf sitt á þennan hátt. Nú kunna kannske hv. alþm. að hugsa sem svo: Þurfa þeir ekki líka að gera þetta? Jú, auðvitað er það rétt. Og ég þarf ekki að efast um að það sé þeim svo mjög á móti skapi, svo mjög sem þeir margir sækjast eftir því að taka þátt í þeirri baráttu. Við skulum einnig líta á það að barátta og skoðanir á þjóðmálum annars vegar og vangaveltur og hugmyndir um persónulegt gildi eins sóknarprests hins vegar er tvennt ólíkt. Í stjórnmálum snýst þetta um stefnumál flokkanna og mismunandi skoðanir og víðhorf í þjóðmálum, en í prestkosningum er um það að ræða að vega og meta einn prest og velta vöngum yfir kostum hans og ávirðingum, og þar dregst oftast fjölskylda hans með. Ég hef raunar sjálfur reynslu af hvoru tveggja. En það er allt annað mál og utan við það sem um er að ræða.

Mér er vel ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta mál hér á hinu háa Alþ. og er það í sjálfu sér ekki undrunarefni þegar um er að ræða að breyta fyrirkomulagi sem staðið hefur í rúm 60 ár. En hitt dylst engum, sem um þetta vill fjalla af einlægni, að málið verður að fá afgreiðslu hér á Alþ. hvernig svo sem niðurstaðan verður. Það er í raun og veru ekki hægt að skjóta sér undan samþykktum Kirkjuþings sem á að móta stefnuna í málefnum kirkjunnar, auk skoðana fjölmargra leikmanna um land allt fyrir utan presta og prófasta. Það er í raun og veru lítil virðing við þjóðkirkju Íslands ef löggjafarþing þjóðarinnar fjallar ekki á eðlilegan hátt um málefni hennar, þannig að úr því fáist raunverulega skorið hver sé vilji þingsins í þessum efnum.

Að lokum vil ég segja þetta: Frá mínu sjónarmiði er prestkosningafyrirkomulagið oft til þess fallið að lítilsvirða kirkjuna sem stofnun og gera að dægurþrasi þau málefni sem eru ekki þess eðlis að um þau sé fjallað á þennan hátt. Um það má deila með hvaða hætti velja skuli prest til embættis. Mér finnst sjálfum að um presta ætti að gilda hliðstæð aðferð og um veitingu annarra opinberra embætta, við skulum nefna t.d. kennara og lækna, og það mælir engin sanngirni með því að nauðsynlegra sé að velja — við skulum segja prest fremur en t.d. lækni. Báðir eru trúnaðarmenn fólksins sem þeir starfa með og mikilvægi beggja í störfum verður vonandi ekki vefengt.

Í því frv., sem oftar en einn sinni hefur verið lagt fyrir Alþ. án þess að fá viðunandi afgreiðslu, er gert ráð fyrir að sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar ásamt viðkomandi prófasti séu kjörmenn og geti þeir ákveðið, ef 2/3 þeirra eru um það sammála, að kalla eða kjósa ákveðinn prest sem þeir mæla síðan með til biskups og ráðherra. Það má auðvitað spyrja hvort ekki sé alveg eins rétt, ef á að breyta þessu, að taka þá skrefið að fullu og fá þetta vald alfarið í hendur biskupi og ráðherra. En með þessu kjörmannafyrirkomulagi er vissulega farin millileið milli þeirra, sem ánægðir eru með ríkjandi fyrirkomulag, og þeirra, sem vilja breyta.

Á þessu stigi er ekki ástæða til að fara nánar út í þetta mál hér, því að sú n. þm., sem Alþ. kýs, ef þess þáltill. verður samþykkt, mun væntanlega skoða þessi mál gaumgæfilega og gera um þau tillögur sem leggja mætti fyrir næsta reglulegt Alþ. ef ástæða þætti til.

Ég vænti þess, að mál þetta fái sanngjarna og eðlilega meðferð, og leyfi mér að óska eftir því að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.