02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

178. mál, veiting prestakalla

Flm. (Ingiberg J. Hannesson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. miklu meira, en vil víkja að örfáum atriðum sem hafa komið fram hjá hinum ýmsu ræðumönnum.

Ég vil þá fyrst koma að atriði í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. þar sem hann var að tala um að prestar kynnu sér ekki hóf í kosningabaráttunni. Hann þekkir sjálfsagt kosningabaráttu nokkuð vel úr alþingiskosningum, og auðvitað veit hann að þar þurfa frambjóðendur að beita sér eins og þeir geta sínum málstað til stuðnings. Það þurfa prestarnir raunar að gera líka í prestkosningum. En yfirleitt eru það stuðningsmenn prestanna sem kunna sér oft ekki hóf í þessum kosningum, en ekki prestarnir sjálfir. Og ég get sagt það hér, af því að ég hef sjálfur tekið þátt í prestkosningu hér á þéttbýlissvæðinu, þ.e.a.s. í Kópavogi, fyrir nokkrum árum og fór í sjálfu sér vel út úr þeirri kosningu hvað snertir mannorðið, því að það hafa margir farið verr út úr því oft og tíðum, og ég á margar ánægjulegar minningar um þá baráttu, ég skal játa það. En stuðningsmennirnir þar og alls staðar benda prestinum á að kynna sig meðal væntanlegra sóknarbarna, og hann verður auðvitað að reyna það eftir fremsta megni, þótt þessi barátta standi yfirleitt ekki nema kannske hálfan mánuð eða þrjár vikur. Fresturinn er yfirleitt ekki lengri. Og mér er sama þótt ég segi frá því hér, að ég hef líklega farið inn á yfir 300 heimili á þremur vikum í þessari kosningabaráttu. Hvernig haldið þið nú, hv. alþm., að ykkur mundi líða ef þið ættuð að standa í þessu? Þið standið náttúrlega í þessu sem þm., en það er allt öðruvísi að gera það í nafni heils flokks heldur en í eigin persónu. Og ég held að ef þetta er hugsað í alvöru, þá hljóti að vera ljóst að þarna er ólíku saman að jafna.

Ég skal játa það, að ef fyrirkomulaginu yrði breytt á þann veg að sóknarnefndirnar fengju að kjósa sóknarprest, eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér hefur legið fyrir þinginu á undanförnum árum, þá getur vel átt sér stað að þar muni ríkja klíkuskapur og jafnvel harðsnúinn áróður, eins og hv. þm. nefndi sem ég áðan vísaði til. Við því getum við aldrei spornað, það er ekki hægt. Hitt er allt annað mál, að presturinn losnar þá við að standa í þessu skaki og getur sótt um embætti án þess að þurfa að yfirgefa sitt eigið kannske allt að mánaðartíma og vanrækja þar með embættið þar sem hann situr til þess að standa í kosningabaráttu annars staðar, með öllu því sem því fylgir.

Ég er auðvitað sammála því, sem hefur komið fram við þessar umr., að samband prests og safnaðar þarf að vera gott eigi árangur að nást í starfi. Og ég gat um það í framsöguræðu minni að það væri kannske eini ljósi punkturinn við prestkosningarnar frá mínu sjónarmiði að presturinn kæmist í snertingu við margt fólk meðan hann stendur í þessari orrahríð. En ég held nú að ef presturinn er sæmilega vandanum vaxinn, þá hljóti hann að geta komist í snertingu við sitt sóknarfólk eftir að hann hefur verið skipaður eða kosinn af sóknarnefnd, ekkert síður en þótt hann þurfi að standa í harðvítugri baráttu áður en hann hlýtur embættið.

Um það, hvort presturinn kemst nær Drottni hér á Reykjavíkursvæðinu eða úti á landi, skal ég ekki dæma og er kannske sísti maðurinn til að dæma um það. Ég held að það skipti raunverulega engu máli í þessu sambandi, því það fer eftir manninum sjálfum, en ekki því hvernig hann er valinn til embættisins, hversu nærri Guði hann kemst. Og það er hans sérmál, trúi ég, hann leitar hans trúlega í bæn í einrúmi, en þarf ekki hjálp Alþingis til þess að nálgast hann.

Það voru ýmis fleiri atriði sem komu hér inn í, sum skemmtileg, eins og hjá hv. 5. þm. Vesturl., þar sem hann taldi það jafnvel kost að ýmis önnur störf prestsins en boðun fagnaðarerindisins væru meira virði og það gerði ekkert þó að þau væru unnin á kostnað boðunarinnar. Það kann vel að vera að þetta sé einlæg skoðun hans. En þetta má ekki vera skoðun þeirra sem taka að sér prestsembætti í þjóðkirkjunni. Og ég held ekki að gamla fyrirkomulagið, þ.e.a.s. það fyrirkomulag sem er í lögum nú, tryggi neitt betri presta í dreifbýlinu heldur en þótt þeir væru kosnir af viðkomandi sóknarnefndum eða skipaðir af biskupi og ráðh. Reynslan hefur orðið sú undanfarin ár og áratugi að úti á landsbyggðinni hefur yfirleitt ekki sótt nema einn prestur og þá hefur söfnuðurinn auðvitað ekkert val, svo að það skiptir þá ekki miklu máli. Það má líka geta þess í þessu sambandi að mjög margar prestkosningar undanfarið hafa verið ólögmætar vegna þess að enginn einn umsækjenda hlaut helming greiddra atkv. Og þótt venjan sé sú að ráðh. skipi þann sem flest atkv. fær, þá er hann ekki bundinn af slíku og getur skipað annan og dæmi eru til um slíkt.

Ég stend fast við það, sem ég sagði áðan, að prestkosningar séu skrípamynd af lýðræði oft og tíðum, og ég get ekki fundið samhengið á milli þeirra og alþingiskosninga, hverju svo sem hv. 5. þm. Vesturl. heldur fram um þau mál.

Ég vil árétta það, sem hv. 4. þm. Vestf. lagði áherslu á, að prestkosningarnar væru oft spurning um fjármagn hjá umsækjanda, spurning um það hversu mikið fjármagn hann gæti lagt undir til þess að geta unnið sem best að sínu kjöri. Þarna hefur hann nefnt veigamikið atriði, því að það væri heldur ömurlegt ef prestar gætu ekki átt jafnan rétt hvað það snertir að sækja um embætti.

Hv. 5. þm. Vestf. ræddi þetta mál og kvaðst ekki vilja færa þetta vald í hendur 5–7 sóknarnefndarmanna. Nú er það svo að í prestaköllum úti á landsbyggðinni, þar sem eru kannske 4, 5 eða 6 sóknir og 3–5 sóknarnefndarmenn í hverri sókn, þá getur þarna verið um að ræða 15–20 manns, bað fer eftir stærð prestakallanna á hinum ýmsu stöðum, og þar fyrir utan eru safnaðarfulltrúar, einn úr hverri sókn, þannig að þetta getur farið yfir 20 manns og auk þess viðkomandi prófastur. Þannig er þetta orðinn nokkuð stór hópur til að fjalla um þetta.

Hv. þm. sagði einnig að hann vildi hafa áhrif og eiga sjálfur val á sínum sálusorgara og honum stæði ekki á sama hvaða sálusorgara hann fengi. Ég hlýt auðvitað að vera þakklátur fyrir þau ummæli. En þetta breytir ekki þeirri staðreynd sem snýr að sjálfum prestinum sem sækir um embættið. Hann verður að ganga þessa sömu leið og ganga í gegnum ýmsar þrengingar oft og tíðum til þess að öðlast embættið. Og það er ákaflega hart og erfitt fyrir mann, sem hefur kannske þjónað dyggilega úti í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem fáir hafa viljað vera, a.m.k. var það svo þegar ég fór út í prestskap þótt það hafi sem betur fer lagast síðan, — ef það á að refsa slíkum starfsmanni fyrir kannske 15–20–25 ára dygga þjónustu úti á landsbyggðinni með því að láta hann sitja þar það sem hann á eftir að starfa. En það verður hann að gera nema hann komist til embættis í gegnum erfiða kosningu sem oft og tíðum ræðst af ýmsu því sem ég áðan nefndi.

Hv. 7. landsk. þm. nefndi mörg athyglisverð atriði og ýmsum þeim atriðum er ég sammála. Hann gat þess að vilji þingsins hefði þegar komið fram í þessum efnum. Það er sjálfsagt rétt að vilji Ed. hefur komið fram hvað þessu máli viðvíkur. En þingið sem heild hefur ekki fjallað um það, og þetta hefur alltaf strandað í annaðhvort nefndum eða þá, eins og síðast var, að því var vísað til ríkisstj., og það hefur mér verið sagt að væri kurteisleg aðferð til þess að svæfa eða drepa mál. Þess vegna hlýtur það að vera krafa þjóðkirkjunnar að Alþ. fjalli um þetta mál á eðlilegan hátt og fá að vita hver sé í raun og veru vilji þingsins í þessum efnum. Meira getur hún ekki farið fram á. Hún verður svo að lúta þeim vilja hvernig svo sem hann er.

Sami hv. þm. talaði um að það væri ekki alltaf verið að velja um persónu prestsins í prestkosningum, heldur væri oft val um stefnur í trúmálum. Þetta er oft og tíðum rétt. Þetta kemur oft til greina og ekki síst hér í þéttbýlinu. — Ég er því sammála, svo langt sem það nær. Ég get líka verið sammála því að þeir straumar í trúmálum, sem hefur borið nokkuð á að undanförnu og risu nokkuð hátt í deilum kirkjunnar manna á s.l. ári, stefna að ýmsu leyti í þröngsýnisátt og ekki skal ég verða til þess að mæla því bót.

Ég vil svo að lokum víkja að orðum hæstv. utanrrh. í þessu sambandi. Hann sagði að réttur fólksins væri tvímælalaus í þessu sambandi og hann vildi ekki að fólkið missti þennan rétt. Þetta er auðvitað eðlilegt sjónarmið. En mig langar bara til að spyrja í þessu sambandi: Hver er réttur prestsins? Er hann enginn? Á hann að sækja þessa erfiðu leið til síns embættis eða er hægt að afgreiða þetta mál bara með skemmtilegri gamansögu? Þær eru góðar, svo langt sem þær ná. En við megum ekki gera gaman að öllu því sem frá kirkjunni kemur. Við verðum að taka svolítið alvarlega á því líka. — Ég held að ég láti þetta svo nægja í bili.