02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

170. mál, Landhelgisgæslan

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég stend hér upp aðeins til þess að lýsa yfir eindregnu fylgi mínu við þessa till. Hún felur í sér atriði sem raunar kemur ekki á óvart. Þetta er mál sem hefur verið mjög mikið rætt hér í sambandi við okkar fiskveiðideilu, hvernig við getum brugðist sem áhrifaríkast við í okkar hörðu baráttu við breta. Það stendur í till.ríkisstj. skuli athuga sérstaklega um leigu eða kaup á einu eða tveimur hraðskreiðum skipum erlendis frá til gæslustarfa. Ég veit að það er mikið atriði að skipin séu hraðskreið, en ég vil þó engu að siður benda á að e.t.v. ættum við að líta okkur nær með það fyrir augum að geta framkvæmt þessa aukningu landhelgisgæslunnar á skemmri tíma. Á ég þar sérstaklega við að handhægasta og fljótvirkasta leiðin kynni að vera að taka til gæslunnar togara til viðbótar við þann stóra togara, sem við nú höfum í landhelgisgæslunni, Baldur, grípa til þeirra nú. Það ætti að geta gerst með styttri fyrirvara heldur en ef við leituðum til útlanda um kaup eða leigu á hraðskreiðu skipi sem till. sérstaklega bendir á. Það hefur sýnt sig að Baldur hefur staðið sig mjög vel á miðunum. Hann hefur gert óvíga eina af freigátum breta og staðið jafnréttur eftir, að því er virðist. Hann varð fyrir svo til engum skemmdum, þar sem aftur hann olli mjög miklum skemmdum á bresku freigátunni. Ég álít að þótt við lítum sérstaklega til þessa möguleika, að taka nú fljótlega einn viðbótartogara til þessara þarfa, þá þyrfti þessi hugmynd um hraðskreið skip, alls ekki að vera úr sögunni og sjálfsagt er að slík athugun fari fram. Við sjáum ekki fyrir endann á þorskastríðinu svonefnda, þannig að allar ráðstafanir, sem horfa til framtíðarinnar, eiga fullan rétt á sér.

Ýmislegt bendir til þess nú að bretar séu að linast í stríði sínu gagnvart okkur. Síðustu fregnir af miðunum herma að þeir hafi breytt nokkuð hátterni sínu, herskipin hafi ekki verið eins árásargjörn og geri lítið annað en að dóla þarna í kringum togaraflota sinn, en hafist ekki að. Hvað sem um það má segja og hvaða ályktanir sem við drögum af þessu, þá hygg ég að ekki væri rétt að vera svo bjartsýnn að þeir séu í alvöru að draga sig til baka frá sínum árásaraðgerðum. Þess vegna megum við ekki láta deigan siga í okkar baráttu og búa okkar varðskipaflota eins vel út og okkur er framast unnt.

Það kom fram í ræðu hv. 1. flm., Guðlaugs Gíslasonar, að athugandi væri, hvort við þyrftum ekki að huga meir að auknum mannafla til okkar landhelgisgæslu, og ég vit taka sterklega undir þessi orð. Við vitum að okkar menn á varðskipunum kvarta ekki fyrr en í fulla hnefana. En með tilliti til þess að það er staðreynd að það hefur ekki verið bætt við líð okkar á varðskipunum þrátt fyrir óvenjuharða sókn, sem að þeim hefur verið gerð, þá virðist augljóst mál að að þessu þurfi að huga alveg sérstaklega.

Ég veit það frá heimildum, sem ég treysti, að menn á varðskipunum, sérstaklega þeim sem ekki eru mjög vel útbúin, eins og okkar eldri skip, gerast nú mjög þreyttir. Það er hættuspil og okkur ekki sæmandi að hafa í þessari hörðu hríð örþreytta menn sem kannske eru að því komnir að bresta undan því álagi sem þeir búa við. Þess vegna vil ég leggja mjög mikla áherslu á að þessi mál verði athuguð og verði athuguð strax. Ég veit ekki betur en t.d. Þór, sem er eitt af okkar elstu varðskipum, sé mjög mikið laskað eftir 12 árekstra og ásiglingar sem það hefur orðið fyrir. Ég hef skoðað skipið sjálf. Mér sýnist og mér fróðari menn segja að það sé álitamál hvort sé forsvaranlegt að senda það aftur á miðin. Þess vegna hefur mér dottið í hug að það væri einmitt athugandi að við gripum nú skjótlega til einhverra af togurunum okkar sem enn liggja aðgerðalausir í höfn, mönnuðum þá nýjum mönnum að einhverju leyti og reyndum mönnum ásamt þeim til þess að við gætum létt á hinum, sem í slagnum hafa staðið og hljóta að vera búnir að fá nóg í bili. Ég tek fram að ég gel þessa ekki hér af því að ég hafi ástæðu til þess að ætla að þeir séu að gefast upp, þessir menn, heldur einfaldlega vegna þess að við hljótum að taka tillit til hvað við megum leggja mikið á þá. Ég veit að öll aukning og styrking á okkar landhelgisgæslu kostar peninga, og ég veit líka að við eigum við þröngan hag að búa hvað fjárhag snertir nú. En álit mitt er að við megum hvergi spara síður heldur en einmitt að því er varðar þetta lífshagsmunamál okkar núna og við megum hreinlega ekki láta peningaleysi valda því að við sendum okkar stríðsmenn út á miðin verr búna að tækjum, aðbúnaði og skipakosti heldur en nauðsyn krefur.