03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gerði nú satt að segja ekki ráð fyrir því að þurfa að standa hér upp aftur til að verja mína lífsskoðun því að með þessum fáu orðum, sem ég lét falla um hana, hélt ég að ég hefði snúið báðum hv. síðustu ræðumönnum yfir á mína lífsskoðun. En þeir eru víst ekki enn þá orðnir sjálfstæðismenn, svo að ég vil endurtaka það að ég tel ekki óeðlilegt, þegar um kostnaðarsamar framkvæmdir eða tilraunir er að ræða, að ríkið standi að þeim, að ríkið finni út hvað hægt er að gera hér á landi, hvaða nýjungar er hægt að skapa í atvinnuháttum. Og ég tel ekkert því til fyrirstöðu að þegar ríkið hefur, með sameiginlegu átaki okkar allra að sjálfsögðu, fundið út einhverja nýjung í atvinnuháttum, þá gefi einstaklingum eða hlutafélögum úr hópi einstaklinga kost á að reka það. Ég tel jafnsjálfsagt að þeir hagsmunahópar, þau hlutafélög sem gert er ráð fyrir samkv. frv. að stofnuð verði, greiði útlagðan kostnað ríkisins, en hafi þá e.t.v. einkarétt til ákveðins árafjölda. Ég sé ekkert að því. Það getur vel verið að þar stangist á lífsskoðanir. Ef hv. tveir síðustu ræðumenn eru andstæðingar þessarar hugsunar, þá stangast lífsskoðanir okkar verulega á. En aftur á móti ef ríkið treystir sér til að reisa og reka verksmiðju eftir að hafa fullkannað hagkvæmnina, þá er náttúrlega mat ríkisstj. og Alþ. hvort ríkið á að fara út í það.

En ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, 1. landsk. þm., að það er orðið ansi lítið svigrúm sem einstaklingurinn hefur. Ríkið hefur séð fyrir því að það er enginn einstaklingur það öflugur að hann geti tekið að sér hlutverk í líkingu við það sem við erum að tala hér um. Það getur vel verið að hægt sé að hópa saman mörgum einstaklingum í hlutafélög, og þá á ríkið að láta reksturinn af hendi í hendur þessara hlutafélaga sem um er rætt og gert er ráð fyrir í frv.

Til þess að það fari ekki neitt á milli mála, þá er mín skoðun sú að taki einstaklingar þátt í að finna út að hér sé um arðbæra framleiðslu að ræða, eigi þeir að njóta góðs af í hlutfalli við framlag sitt. Ég bara efast um að það finnist einstaklingar til þess að koma í samstarf við ríkið um slíka verksmiðju. Og það er alls ekki að ástæðulausu sem ég ber þær efasemdir í huga, sérstaklega ef við tökum t.d. hvernig farið var með hluthafana í Áburðarverksmiðjunni sem voru með dómum neyddir til þess að láta af hendi hlutafé sitt. Ég vona, að það eigi ekki eftir að ske aftur í sambandi við þessa verksmiðju.

Ég vil endurtaka það að þetta er tímabært frv. Það hefur verið lengi í rannsókn, eins og komið hefur fram, og um leið og ég fagna því að iðnrh. nú leggur það fram, þá vona ég að það fái skjóta og góða afgreiðslu hér á Alþingi.