04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði vonast til þess að hv. 2. þm. Vestf. kæmi ekki með það hér inn í umr. að af tveimur tilboðum, sem lögð voru fram í flugmálastjórn, var annað frá Bretlandi og það kom till. frá honum að því boði yrði ekki tekið, þrátt fyrir það að breska boðið hafi verið lægra. Ég gerði aths. við þá málsmeðferð, en fór ekki lengra í aths. mínum á þeim vettvangi vegna þess að það liggur á að koma flugskýli upp, hvaðan sem það kemur, því fyrr því betra. En sú málsmeðferð að fyrir skyldu liggja aðeins tvö tilboð, er svo annað mál. Hvers vegna lágu ekki fyrir fleiri tilboð. Hver veit hvort breska tilboðið hefði verið það lægsta ef leitað hefði verið á fleiri markaði? Ég held að það sé ekki rétt að taka það mál hér til umr. En ég er honum sammála, að mér finnst óþægilegt að þurfa að sitja undir þeirri samþykkt að vegna landhelgisdeilunnar verði settur sérstakur tollur á breskar vörur. Það er, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði, farið að gera landhelgisdeiluna að féþúfu. Ég tek undir það með honum.

Ég er búinn að lesa grg. með frv. núna, en ég sé ekki að það breyti miklu. Það er alveg rétt að það getur komið sér mjög illa á mörgum sviðum og þá sérstaklega í varahlutainnkaupum ef stöðva þarf mestallan þann flota eða vélvæðingu sem átt hefur sér stað úti um landsbyggðina, hjá bændum og víðar. Ég veit að hjá Reykjavíkurborg er afskaplega mikið af vélum sem keyptar eru frá Bretlandi. Ef við þurfum að fara að kaupa varahluti inn annars staðar frá en Bretlandi, þá verður að kaupa í gegnum milliliði í þriðja landi sem hafa lagt sitt gjald á fyrir þá þjónustu, svo að þetta stefnir að því að gera vöruna enn þá dýrari en flm. upphaflega ætluðust til, nema þeir ætlist til þess að kaupa bara hreinlega ný tæki og vörur almennt annars staðar frá og hætta að skipta við breta.

En við skulum vera sammála um að það beri að líta á þetta mál og eins landhelgismálið af þroska og reyna að sýna þá reisn sem flm. talaði um. En ég er þeirrar skoðunar að þar sem deila er í gangi, þar er líka lausn að finna. Ég er líka sammála um að við verðum að sýna festu í þeirri baráttu sem við eigum í við breta. Og ég er líka sammála um að ef við gerum það og notum þau meðul sem við höfum yfir að ráða, þá berjumst við til sigurs. Bendir allt á það að við séum langt komnir í þeirri píslargöngu okkar sem landhelgisdeilan er. Ég held að sigur blasi þar við án þess að fara að grípa til slíkra ráðstafana sem þessi till. gerir ráð fyrir.

En það er eitt sem gleymist flm. alveg og það er að við getum ekki gert þær ráðstafanir sem við teljum heppilegastar. Ég tel að sú hugsun, sem þarna liggur á bak við, sé vanhugsuð, till. sé vanhugsuð, vegna þess að að sjálfsögðu gera bretar þá einhverjar gagnráðstafanir. Við getum ekki valið um, eins og segir hér í grg., að setja bann á allt annað en varahluti. Af hverju skyldu bretar þá ekki setja bann á útflutning til Íslands? (Gripið fram í.) Ég skal lesa hana fyrir þig. Hefði raunar verið sæmst að dómi flm. að leggja algjört bann við verslunarviðskiptum við Stóra-Bretland, ef ekki hefði leit af slíkri ráðstöfun vandræði fyrir ýmsa sem lítið hafa til slíks unnið, og þá fyrst og fremst í sambandi við kaup á varahlutum í ýmsar vélar.“ Ég tek hér upp nákvæmlega það sem stendur í grg. hv. flm. Og þá er ég ansi hræddur um að ef við settum viðskiptabann á einhverjar sérstakar vörutegundir, en ekki það sem okkur kemur verst að geta ekki keypt, mundu bretar hreinlega koma með gagnráðstöfun og segja: Ef þið viljið viðskiptabann, þá skulum við hafa viðskiptabann á öllu. — Þá er það komið út í það sem flm. segir. Það er rétt að hann segði þá: Það á að setja algjört verslunarbann á Bretland. - En ég er á móti því og tel það vanhugsað.