04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

14. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er rétt að á undanförnum árum hefur oltið á ýmsu í rafmagnsmálum Snæfellinga. Orkuþörfin hefur farið ört vaxandi. Línukerfið hefur ekki verið nægjanlega traust. Oft hafa menn orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni vegna spennufalls og rafmagnstruflana. En að undanförnu hefur mikið verið unnið til að ráða bót á þessu. Línukerfið hefur víða verið styrkt til muna og fleiri umbætur gerðar, eins og fram hefur komið og heimamenn hafa fylgst með. Það er verið að vinna að þessum málum m. a. við aðveitustöðvar á Vegamótum og Vogaskeiði við Stykkishólm. Unnið er jafnframt að því að öll býli á Snæfellsnesi fái rafmagn. Síðasti megináfanginn í þeim efnum er Skógarstrandarlína og tenging milli Snæfellsness og Dala. Unnið var við Skógarstrandarlínu í sumar. Einhverjar tafir hafa þó orðið og nú spyrja skógstrendingar hvenær þeir megi vænta þess að fá rafmagnið, hvort það verði ekki örugglega á þessu hausti. Þetta skiptir þá að sjálfsögðu mjög miklu máli af mörgum ástæðum. Ég leyfi mér að beina þessari fsp. til hæstv. iðnrh. ef hann gæti svarað henni nú.