09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

146. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svo hljóðandi fyrirspurn til iðnrh. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal:

„Hverjar eru meginniðurstöður athugana á orkuvinnslugetu Bessastaðaárvirkjunar í Fljótsdal? Hvenær verður hægt að taka ákvörðun um virkjun Bessastaðaár og hvaða stærð virkjunar mundi verða hagstæðust?“

Á síðasta þingi voru samþ. lög um virkjun Bessastaðaár. Samkvæmt þeim lögum var ríkisstj. heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa og reka vatnsaflstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu með allt að 32 mw. afli og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði árinnar til að tryggja rekstur virkjunarinnar, enn fremur að leggja þaðan aðalorkuveitu að Egilsstaðakauptúni til tengingar þar við veitukerfi Grímsárvirkjunar og Lagarfossvirkjunar.

Á árinu 1975 átti að verja allt að 150 millj. kr. til rannsókna á Bessastaðaárvirkjun. Samkvæmt upplýsingum hæstv. iðnrh. var varið samtals 136.3 millj. til þessara rannsókna á árinu 1975.

Í desembermánuði s.l. áttu allir alþm. Austurl. fund með verkfræðingunum Leifi Benediktssyni, Finni Jónssyni og Sverri Ólafssyni svo og Erlingi Garðari Jónssyni framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi um orkumál Austurlands. Verkfræðingarnir hafa unnið úr þeim gögnum, sem fyrir liggja eftir rannsóknirnar frá fyrra ári, og sögðu okkur að væntanlega mundu upplýsingar liggja fyrir fyrri part þessa árs sem væru nægjanlegar til þess að hægt væri að taka ákvörðun um framhaldið. Þess vegna hef ég talið tímabært að flytja þá fyrirspurn sem hér liggur fyrir á þskj. 307.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu alvarlegt ástand er í raforkumálum Austurlands. Það er algjörlega teflt á tæpasta vað í þeim efnum að raforka sé nægileg mesta álagstímann. Frá janúarmánuði og fram til vors er einmitt víðkvæmasti og hættulegasti tíminn í þessu efni. Þá fer saman mikil orkunotkun til heimila og einnig til atvinnurekstrarins á Austurlandi.

Það mætti margt fleira segja um raforkumál í Austfirðingafjórðungi, en þau voru rædd allítarlega hér á hv. Alþ. í fyrravetur, svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær umr. nú, en vonast eftir því að hæstv. iðnrh. svari greiðlega fyrirspurninni.