10.03.1976
Neðri deild: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Gunnlaugur Finnsson:

Virðulegi forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg við þessa umr. enda þótt ég eigi sæti í þeirri n. sem kemur til með að fjalla um frv.

Ég get tekið undir margt af því sem sagt hefur verið í síðustu ræðum. Það þarf enginn að ætla að margra alda hefð verði kollvarpað í einni svipan. Það er enginn efi á því að íslendingar hafa verið í forustusveit hvað snertir kvenréttindi, en eigi að siður hefur verið hér viss tregða af hálfu margra aðila. Og hér er ekki við neinn einn að sakast. Það er, að ég hygg að megi segja, eðlislæg, en því e.t.v. jafnframt hefðbundin hneigð konunnar að vera hlédræg, og það hygg ég að hafi valdið því sð konur hafa oft á tíðum verið mjög tregar til að taka að sér störf, sérstaklega á hinu opinbera sviði. Þetta hefur að vísu tekið miklum breytingum hin síðari ár. En ég veit að víða hefur ekki staðið á karlmönnum, sem leitað hafa eftir góðu starfsliði, t.d. til þess að starfa að sveitarstjórnarmálum, að leita til kvenna, en oft á tíðum reynst erfitt að fá þær til þess, vegna þess að það, sem ég vil kalla hefðbundna hlédrægni, hefur valdið því að þær hafa ekki gengið þar fram fyrir skjöldu.

Það hefur líka gengið illa að opna mörgum atvinnurekendum nýja sýn, þ.e.a.s. þá sýn að konur eru oft á tíðum jafnhæfar og karlar til líkamlegra starfa, ef undan eru skilin erfiðustu störfin sem unnin eru í þjóðfélaginu. Þar hygg ég, að konur geti aldrei náð til jafns við karlmenn, þ.e.a.s. í þessum vissu störfum, og þar hlýtur áfram sem hingað til að verða mat þeirra, sem stjórna viðkomandi fyrirtækjum, hvernig fer um ráðningar. Það hefur líka verið hefðbundin blinda, vil ég segja, hjá mörgum atvinnurekendum fyrir því að konur eru fullkomlega eins færar um að stjórna vélum og tækjum og karlmenn. Á síðustu árum hefur þetta þó þokast þannig smátt og smátt að fleiri og fleiri atvinnurekendur eða forstöðumenn opinberra stofnana eða sveitarfélaga hafa ráðið til sin konur, til að byrja með til reynslu, og gefist vel. Mér er raunar í minni að verkstjóri hjá sveitarfélagi sagði mér á s.l. sumri að hann réð til sín stúlku í holræsagerð út af neyð vegna þess að annan starfskraft var ekki að hafa, og þegar upp var staðið og ræsum lokað gat hann þess að hann hefði ekki annan betri starfskraft fengið heldur en þessa stúlku. Þetta tek ég hér sem dæmi. Mér finnst ástæða til þess líka að vekja athygli á því að þessi aðstöðumunur kvenna og karla í atvinnulífinu er e.t.v. mestur og verstur hjá því unga fólki sem að sumri til er að vinna fyrir sínum skólakostnaði. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Sumt af því er hefðbundið. Það er ekki tekið tillit til þess í úthlutunarreglum lánasjóða eða annarri fyrirgreiðslu, en það mun ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru. Þess vegna vil ég sérstaklega fagna framkomu þessa frv. og fagna öllum þeim umr. sem leiða til aukins jafnréttis, hvort heldur það er á sviði atvinnu eða á öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Ég vil taka það fram, eins og hv. þm. frú Geirþrúður H. Bernhöft, að ég vil ekki á þessu stigi lýsa mig samþykkan öllum greinum frv. Ég vil áskilja mér rétt til þess að standa að ýmsum breytingum sem kunna að koma upp í umr. um frv. Ég lít fyrst og fremst á þetta frv. sem stefnumarkandi frv., en ekki frv. þar sem hægt verður nákvæmlega að túlka ákvæði hverrar greinar út af fyrir sig til hlítar. Þar má t.d. minnast á 8. gr. um auglýsingar. Mig rekur minni til þess að útvarpið í eina tíð setti bann við því að auglýsa dansleiki. Hvernig verkaði það? Það hafði engin áhrif önnur en þau að orðið dansleikur var ekki nefnt í útvarpsauglýsingunum, en það komu allir sínum auglýsingum á framfæri. Og hvernig mundi verka ákvæðin í 8. gr.? Mundu þau þýða að það yrði aldrei auglýsing með karlmanni í fötum eða konu með mismunandi mikið af fötum á líkamanum? Ég held að þetta sé óframkvæmanlegt, að hugsa sér að það verði ekki haldið áfram að auglýsa með myndum. En þá kemur þetta túlkunaratriði, hvað er ósæmilegt og hvað er sæmilegt.

En það er annað atriði sem mig langaði aðeins til að drepa hér á, en ekki hefur verið hreyft í þessum umr. Það snertir ekki nema að litlu leyti atvinnumálin — en þó. Það er um hin almennu réttindi í sambandi við félagsstarfsemi í landinu. Segjum sem svo að því marki verði náð að hér komist á algjört jafnrétti. Er þá heimilt karlmönnum eða konum að eiga með sér félagsskap sem er því skilyrði háður að hitt kynið fái ekki inngöngu? Ég tel vera alveg tvímælalaust í mörgum tilvikum rétt að það sé heimilt. Ég tel alveg fráleitt að setja um það lög að t.d. kvenfélögin verði opnuð karlmönnum. Ég tel alveg fráleitt líka að þeim sem hafa ánægju af því að vera í leynilegum reglum samkv. erlendri fyrirmynd, þar sem alþjóðareglan bannar að konur stigi fæti sínum inn fyrir nema á systrakvöldum eða einhverju slíku, — þeim sé meinað að koma saman sér til ánægju eitthvert kvöld. (Gripið fram í.) Ég ætlaði að koma að því um bændasamtökin. Spurning er um hagsmunafélög sem eru bundin ákveðnu kynferði. Hvað um þau? Og spurning er um það hvort verði talið eðlilegt að hagsmunasamtök starfsgreina starfi áfram, þar sem ákveðið kynferði er skilyrði fyrir inngöngu. Einmitt í því sambandi ætla ég að vekja athygli á því að bændasamtökin riðu á vaðið á myndarlegan hátt í tilefni kvennaárs. Hagsmunasamtök þeirra voru þannig byggð upp að þar áttu ekki aðrar konur aðild að en þær sem voru skráðar bændur á lögbýlum. En ef kona var á annað borð skráður bóndi á lögbýli, og þær eru þó nokkuð margar á Íslandi, þá áttu þær þar full réttindi, en gert ráð fyrir því að annars færi sá bóndi, sem skráður er, með atkv. fyrir viðkomandi hjón. En á aðalfundi Stéttarsambandsins á liðnu hausti var sú samþykkt gerð að opna þetta algjörlega, þannig að bæði hjónin eiga algjörlega jafnan rétt. Hingað til veit ég ekki til þess að nokkur kona hafi setið á aðalfundi þessara hagsmunasamtaka, en ég vona að með þessari breytingu verði breyting á og að bændakonur komi til með að mæta þar sem fulltrúar, en ekki aðeins sem gestir.

Mér er raunar ekki kunnugt um að það séu til lokuð hagsmunasamtök karlmanna, enda þótt það séu eingöngu karlmenn í sumum þeirra. Það stafar eflaust af því að konur eru þar ekki starfandi - eflaust að sumu leyti fyrir hefð — eða þá að það eru hreinar undantekningar, ein eða tvær. En mér er ekki kunnugt um að þeim sé lokaður aðgangur að þessum hagsmunafélögum. Spurning er um það hvort kunni að koma upp sú staða að það verði stofnuð hagsmunasamtök karla þar sem konum verði meinaður aðgangur, og þá kemur líka upp spurningin: Stenst það skv. þessu og skv. anda laganna og framkvæmd að það séu starfandi hagsmunasamtök kvenna þar sem karlmönnum er meinaður aðgangur? Ég vil vekja athygli á þessu.

Konur hafa verið í sjómannastétt allt frá landnámsöld. Þær Þuríður sundafyllir og Þuríður formaður hafa getið sér ódauðlegt orð í sjómannasögu Íslands, og við vitum að það eru nokkrar konur í sjómannastétt í dag. En spurning er um það hvort þær komi til með að stofna sér félag sem heiti Sjókvennafélagið, þar sem karlmenn hafi ekki aðgang. Og þá er spurning um það líka hvort önnur félög, eins og t.d. félög starfsstúlkna eða félög verkakvenna, halda áfram að starfa á þeim grundvelli sem þau starfa í dag. Ég vil taka það fram, svo að ekki verði misskilið, að ég tel það hafa verið fullkomlega eðlilegt á sínum tíma að þessi félög voru stofnuð, á meðan réttur kvenna var mun minni en hann er í dag. En þessu vil ég varpa fram til hugleiðingar, hvernig á þessu verði tekið þegar til framkvæmdar laganna kemur og þegar innan tíðar — skulum við reikna með — anda þeirra verður fullnægt.