04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

25. mál, húsnæðismál

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram út af ummælum hv. fyrirspyrjanda, sem virðist hafa í þetta sinn trúað mjög ákveðið því sem birtist í fregn á forsiðu Tímans fyrir nokkru, að sú fregn var á algerum misskilningi byggð. Það er því engin ástæða til að byggja einhvern ótta á þeirri fregn.

Fsp. hv. þm. er í fyrsta lagi um hverjar séu horfur á afgreiðslu nýrra lána (fyrsta hluta) fram til áramóta og við hvaða dagsetningu fokheldnivottorða lánveiting fyrir áramót verði miðuð.

Húsnæðismálastjórn hefur tekið ákvörðun um afgreiðslu lána til þeirra sem höfðu lagt inn umsóknir um lán fyrir 1. febr. s. l., þannig að þeir, sem lögðu fram fokheldnivottorð á tímabilinu 1. jan. til 31. mars, fengu frumlán eftir 1. sept. s. l. Þeir, sem skiluðu fokheldnivottorðum á tímabilinu 1. apríl til 31. maí, fá frumlán afgreidd eftir 10. nóv. Nú á næstunni verður tekin ákvörðun af húsnæðismálastjórn um lánveitingar til þeirra, sem lögðu inn umsóknir eftir 1. febr. s. l., og þá endanlega ákveðið við hvaða dagsetningar fokheldnivottorða verði miðað í sambandi við lánveitingar fyrir áramót.

Annar liður fsp. snertir afgreiðslu lána til eldri íbúða.

Á þessu ári hefur þegar farið fram ein úthlutun lána til þeirra er sóttu um lán til kaupa á eldri íbúðum fyrir 1. apríl s. l. Sú lánveiting nam 110 millj. kr. Um þessar mundir er að hefjast undirbúningur að lánveitingu þeim til handa sem sóttu um lán til kaupa á eldri íbúðum fram til 1. júlí. Er þar um að ræða talsverðan fjölda umsókna. Á síðasta Alþ. var samþ. stjfrv. um að húsnæðismálastjórn væri heimilt að verja allt að 160 millj. kr. í lánveitingar á ári hverju vegna kaupa á eldri íbúðum. Þangað til hafði hámarksupphæðin, sem mátti veita lán til, verið 80 millj. Þessi upphæð var því tvöfölduð á síðasta þingi. Húsnæðismálastjórn mun vilja láta þá umsækjendur sitja fyrir um greiðslur á þessu hausti sem lögðu fram lánsumsóknir fram til 1. júlí. Það er að álíti húsnæðismálastjórnar ekki líklegt að þessi upphæð nægi til þess að veita öllum úrlausn, vegna þess hve umsóknir eru margar, þrátt fyrir það að upphæðin hafi verið tvöfölduð á þessu ári. Það er því viðbúið, að því er húsnæðismálastjórn telur, að ýmsir umsækjenda, sem lögðu inn lánsumsóknir á tímabilinu frá 1. júlí til 1. okt., þurfi að bíða fram á næsta ár.

Þriðja fsp. er varðandi leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga.

57 sveitarfélögum hefur verið veitt heimild til að hefja tæknilegan undirbúning vegna byggingar samtals 355 íbúða. Þegar húsnæðismálastjórn hefur heimilað sveitarstjórn að hefja tæknilegan undirbúning vegna leiguíbúða, þá siglir að öllum jafnaði síðar í kjölfarið, sé allt með felldu um hann, að húsnæðismálastjórn samþ. veitingu framkvæmdalána til bygginga. Kemur það síðar til greiðslu í samræmi við samning þar um. Hafa verið gerðir framkvæmdalánssamningar og framkvæmdir hafnar á vegum 25 sveitarfélaga vegna byggingar 179 íbúða. Þessi lán eru samtals 695 millj. kr. Lánin koma til greiðslu sem hér segir:

Á árinu 1974 46 millj. 200 þús. Á árinu 1975 442 millj. 850 þús. Á árinu 1976 205 millj. 950 þús. Samtals 695 millj. kr. Hér er um að ræða framkvæmdir, sem hófust á árunum 1974 og 1975, og upphæðin, sem kemur til útborgunar 1976, er aðeins eftirstöðvar af þessum framkvæmdum, en á að sjálfsögðu eftir að hækka til muna þegar framkvæmdir, sem hefjast á árinu 1976, bætast við. Þetta er til skýringar á því að upphæðin fyrir árið 1976 er meira en helmingi lægri en 1975.

Af þeim 179 íbúðum, sem framkvæmdalánsheimild hefur verið veitt til, hafa 4 sveitarfélög lokið smíði 7 íbúða. Nema lán til þeirra 33 millj. 460 þús. kr. Önnur sveitarfélög hafa öll hafið framkvæmdir, en eru misjafnlega langt á veg komin með þær. Auk þessara 179 íbúða hefur 22 sveitarfélögum verið heimilað að hefja framkvæmdir fyrir eigið fé vegna samtals 81 íbúðar, en framkvæmdalánssamningur hefur ekki verið gerður enn við þau, en verður væntanlega gerður síðar.

Þegar talað er um framkvæmdalánssamninga við sveitarstjórnir er um það að ræða að húsnæðismálastjórn gerir samþykkt um lánveitingu til fjármögnunar leiguíbúða er nemur 80% af heildarbyggingarkostnaði. Lánveitingin er borguð út í mánaðarlegum fjárhæðum, venjulega jafnháum á byggingartímanum yfirleitt allt frá fyrsta mánuði til hins síðasta. Á fundi húsnæðismálastjórnar nú í dag, 4. nóv., verður lögð fram leiguíbúðaáætlun fyrir árið 1976, en í henni er m. a. greint frá óskum sveitarstjórna um slíkar framkvæmdir á því ári.