16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

312. mál, nýjungar í húshitunarmálum

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 397 svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. iðnrh.:

„1. Hverjar eru niðurstöður athugana sem gerðar hafa verið á vegum iðnrn. á hagkvæmni nýrrar gerðar af miðstöðvarkatli — svonefndum „Nýtli“ —- sem fundinn hefur verið upp hér á landi og notað getur jöfnum höndum olíu og rafmagn til upphitunar?

2. Hefur einhver ákvörðun verið tekin um hvort og þá hvernig greitt yrði fyrir því að miðstöðvarkatlar af þessari gerð verði almennt teknir til notkunar á olíuhitasvæðum til þess að draga úr upphitunarkostnaði?“

Forsaga þessa máls er sú, að fyrir nokkrum árum fann íslenskur uppfinningamaður í Keflavík upp nýja tegund af miðstöðvarkatli sem getur notað jöfnum höndum raforku og olíu til upphitunar. Þessi ketill er með sjálfvirkum búnaði, þannig að hann getur nýtt raforku á nóttum til upphitunar þegar álag er lítið, en olíu á dögum og hægt að tímastilla þessi skipti eins og hver og einn óskar. Þær athuganir og mælingar, sem gerðar hafa verið á þessum nýja hitunarkatli, leiða í ljós að hann notar um það bil 10% minni olíu notkunartíma olíu en aðrir katlar sem í notkun eru og á að geta sparað, miðað við athuganir, sem gerðar voru fyrir tæpu ári. milli 4 og, þús. kr. á mánuði í kyndingu í meðalíbúð. Þeir, sem að þessari uppfinningu hafa staðið, hafa mikinn áhuga á því að hefja framleiðslu á þessum katli og hafa m.a. leitað til iðnrn. um hagkvæmnisathuganir á þessari nýju uppfinningu og eftir því sem ég best veit einnig leitað til rn. um það hvort rn. sjálft, einhver opinber stofnun eða sjóður kynni að vilja veita þeim einhverja aðstoð til þess að hefja framleiðslu af þessu tagi. Nú hefur iðnrn. skipað sérstaka n. sem hefur starfað nokkuð langa hríð að athugunum á nýtni þessa nýja tækis. Ég veit ekki hvort n. hefur lokið störfum, en vænti þess þó, en það mun skýrast hér á eftir er hæstv. ráðh. flytur sín svör.