16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég ætlaði með nokkrum orðum að minnast á niðurgreiðslur landbúnaðarvara og það fyrirkomulag sem hefur verið haft á þeim.

Till. sú, sem hér er til umr., fjallar fyrst og fremst um að það verði athugað hvort ekki sé rétt að breyta því fyrirkomulagi, sem verið hefur á niðurgreiðslum landbúnaðarvara, og haga niðurgreiðslum á vöruverði þannig að neytendur geti sjálfir valið fullkomlega hvernig þeir verja því fjármagni.

Það er ekkert óeðlilegt að menn velti fyrir sér málum eins og þessu. Niðurgreiðslurnar eru orðnar stór þáttur í útgjöldum ríkisins og verulegur þáttur í almennum ráðstöfunartekjum þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál, að það eru ýmsar ástæður, sem ég tel eðlilegar, sem valda því að þessu fé hefur verið fyrst og fremst varið til niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum. Það þarf ekki að rekja það hér að niðurgreiðslurnar hafa jafnan verið af hendi ríkisvaldsins notaðar sem hagstjórnartæki og breytingar á niðurgreiðslum, hvort sem þær hafa verið til hækkunar eða lækkunar, hafa verið gerðar af ríkisvaldinu án þess að bændasamtökin eða samtök þeirra, sem selja landbúnaðarvörurnar, eða neytendasamtök hafi getað ráðið því hvernig þessum fjármunum hefur verið varið. Aðaltilgangurinn með niðurgreiðslunum hefur verið sá að koma í veg fyrir eða draga úr hækkun á framfærsluvísitölu, og oft hafa verið tekin stór skref í niðurgreiðslum og niðurgreiðslur hækkaðar svo mikið að veruleg áhrif hafa orðið af niðurgreiðslunum í þessu skyni. Smám saman hefur það svo líka gerst, að niðurgreiðslurnar, eftir því sem þær hafa orðið stærri hluti af heildarverði vörunnar, — það hefur að vísu verið misjafnt og stundum verið meira en nú, — að þessar niðurgreiðslur hafa í rann og veru ruglað verðskyn manna, og þar á ég fyrst og fremst við neytendur, ruglað skyn manna á því hvað raunverulega kostar að framleiða þessar vörur. Og þegar dregið hefur verið úr niðurgreiðslum eða verðbólga hefur verið ör og verðlagning landbúnaðarvara farið fram án þess að niðurgreiðslur hafi verið auknar, þá hefur mjög oft verið slegið á þá strengi að verðhækkanir á landbúnaðarvörum væru óeðlilegar.

Ég minnist þess að á undanförnum árum hefur mjög oft og ég held nær undantekningarlaust verið greint mjög vandlega frá því í fjölmiðlum, þegar hækkað hefur verið verð á landbúnaðarvörum, og þá yfirleitt gerð grein fyrir hve mörg prósent varan hefur hækkað um, hve marga af hundraði. Þetta hefur oft lítið þannig út að verðhækkanir á landbúnaðarvörum væru óeðlilegar og ekki í samræmi við aðra verðlagsþróun í landinu. Ég get nefnt sem dæmi að eins og nú er, þá er nýmjólk, að ég hygg, greidd mest niður af öllum landbúnaðarvörum. Hún er greidd svo mikið niður að niðurgreiðslan nemur röskum helmingi af því verði sem varan ætti raunverulega að kosta. Þetta þýðir það, að ef verð landbúnaðarvara almennt hækkar t.d. um 5% þá mundi mjólkin hækka um full 10% ef ekki yrðu gerðar breytingar á niðurgreiðslum. Ef hin almenna verðlagsþróun gæfi aðeins tilefni til 5% hækkunar til bóndans, þá er ekki undarlegt þó að neytendur skilji það ekki vel ef verð á jafnalgengri neysluvöru og nýmjólk hækkar helmingi meira. Svipað hefur gerst með aðrar landbúnaðarvörur, að það hefur verið talsverðum erfiðleikum bundið að gera mönnum skiljanlegt samhengið á milli hækkunar landbúnaðarvöruverðsins og annarrar almennrar verðlagsþróunar í landinu. En sannleikurinn er sá að þetta helst ákaflega mikið í hendur.

Landbúnaðarvörur eru verðlagðar eftir sérstökum lögum sem nú hafa gilt í 27 ár án verulegra breytinga. Það voru gerðar breytingar á þessum lögum a.m.k. tvisvar sinnum, en undirstöðu laganna hefur ekki verið breytt. Verðlagningin fer þannig fram að það er reiknaður út svokallaður verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins. Þar er tekið inn á reikning, sem við getum sagt að sé tilbúningur að því leyti, bú af ákveðinni stærð og reiknað út eftir þeim heimildum, sem bestar finnast, hvað kostar að framleiða landbúnaðarvörur á slíku búi. Bústærðin er valin þannig og tölurnar eru valdar þannig að þær eiga að gefa heildarmynd af því hvað kostar að framleiða landbúnaðarvörur á Íslandi nú. Þarna eru margir þættir sem áhrif hafa. Langstærstur þáttur er vinnulaun. Síðan koma ýmsar rekstrarvörur, bæði fóðurvörur, áburður, vélar, fjármagn og ýmislegt fleira, og reynslan er sú að hækkun á þessum liðum, þ.e.a.s. vinnuafli og hinum ýmsu rekstrarvörum landbúnaðarins, er ákaflega nálægt því að vera samstiga við almenna verðlagsþróun í landinu, þannig að þegar verðlagsgrundvöllurinn er reiknaður hverju sinni, þá hafa breytingar á honum verið mjög svipaðar og almennar breytingar á verðlagi. Hins vegar hafa niðurgreiðslurnar ruglað þessu gagnvart neytendum. Ef þær hafa ekki fylgt eftir breytingum á verði landbúnaðarvaranna, þá hafa orðið allt aðrar breytingar á landbúnaðarvörunum heldur en á öðru verðlagi. Stundum hefur öll hækkun verið greidd niður og ekki orðið neinar breytingar á verðlagi landbúnaðarvara þrátt fyrir verulegar kauphækkanir hjá almenningi. Á öðrum tímum hefur ekki verið breytt niðurgreiðslum að krónutölu þó að rekstrarkostnaður búanna hafi hækkað mikið.

Þess vegna er það svo, að þó að bændur meti það vissulega að landbúnaðarvörur hafa verið gerðar auðseljanlegri með niðurgreiðslunum, þá hefur líka orðíð svo, eins og ég gat um áðan, að mat almennings á raunverulegum kostnaði við framleiðslu þessara vara hefur að einhverju leyti ruglast vegna niðurgreiðslnanna og verðbreytingarnar oft orðið allt aðrar en breytingar á almennum vinnumarkaði.

Vegna þeirra hugmynda, sem koma fram í till. þeirri sem hér er rætt um, finnst mér rétt að geta þess að nú um alllangt skeið hefur það verið stefna bændasamtakanna að það væri mjög nauðsynlegt að niðurgreiðslur væru ákveðið hlutfall af verði íandbúnaðarvaranna, þannig að verðbreytingar á þeim vörum yrðu svipaðar og á öðrum vörum og öðru verðlagi í landinu. Þess vegna má segja sem svo, að á vissan hátt hafa bændur sannarlega ekkert við það að athuga að þetta kerfi verði endurskoðað, það verði kannað og endurskoðað. Hitt er svo annað mál, að það ber margs að gæta í þessu efni, og eitt er það, að í nágrannalöndum okkar, þeim sem við höfum mest viðskipti við, eru landbúnaðarvörur niðurgreiddar í mjög ríkum mæli, og ef við hættum t.d. alveg að greiða niður landbúnaðarvörur yrði verðlag þeirra hér miðað við verðlag í nágrannalöndum alls ósambærilegt og eins og er er reyndar verulegur munur á verði sumra þeirra landbúnaðarvara hér og í nágrannalöndum. Yfirleitt er munur á þessu. Sumar landbúnaðarvörur eru á hærra verði í nágrannalöndum okkar heldur en hér er, aðrar á lægra verði. Ég get nú ekki farið hér með tölur um það hvað miklu niðurgreiðslurnar nema, en mér er kunnugt um að t.d. í Svíþjóð hefur verðhækkunum á landbúnaðarvörum verið algjörlega haldið niðri um alllangt skeið með niðurgreiðslum og niðurgreiðslur eru þar orðnar mjög verulegur hluti af verði varanna.

Annað, sem ég vildi nefna og kom mjög fram í ræðu frummælanda, hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, að niðurgreiðslurnar yllu miklu ósamræmi á milli búgreina hér innanlands vegna þess að það væru ekki greiddar niður sumar landbúnaðarvörur, svo sem hænsnakjöt, svínakjöt o. fl: Það er rétt að þessar vörur eru ekki greiddar niður. En ég held að það sé ástæða til þess að gera nokkra grein fyrir því að það er ekki víst að það sé þjóðhagslega jafnhagkvæmt að greiða niður allar tegundir landbúnaðarvara. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem niðurgreiðslurnar valda ákveðinni söluaukningu þar sem þær koma mest niður, þá væri óskynsamlegt að greiða mjög niður vörur sem eru framleiddar hér t.d. algjörlega af erlendu fóðri, eins og heita má um kjúklinga og jafnvel svín. Það er alveg rétt að þessar vörur hafa ekki sömu aðstöðu á markaðnum eins og kindakjöt og nautakjöt nú eftir að niðurgreiðslur hófust, en mér finnst mjög vafasamt að gera hér ekki upp á milli af þessari ástæðu. Við erum sjálfsagt öll sammála um að það sé eðlilegt að halda hér uppi landbúnaði, og þá hlýtur það líka að vera eðlilegt markmið landbúnaðar að nota sem mest innlent fóður til framleiðslunnar og byggja landbúnaðinn þannig upp að við getum framleitt hollar og góðar vörur af innlendu fóðri sem allra mest.

Eitt af því, sem ég vil nefna í sambandi við niðurgreiðslur, er að það er út af fyrir sig rétt að menn hafa ekki frjálsræði um ráðstöfun þeirra. Hins vegar vil ég leggja áherslu á það, að niðurgreiðslurnar hafa verkað að vissu marki til launajöfnunar, og á ég þar fyrst og fremst við það að stóru fjölskyldurnar nota að öllum jafnaði mest af þeim landbúnaðarvörum, sem niðurgreiddar eru, svo sem mjólk, smjöri og kjöti. Þess vegna hafa niðurgreiðslurnar að verulegu marki notast til tekjujöfnunar eða til þess að gera minni mun á framfærslukostnaði lítilla og stórra fjölskyldna.

Ég ætla nú ekki að orðlengja miklu meira um þetta, herra forseti. En ég vil aðeins endurtaka það, að niðurgreiðslurnar hafa áhrif á sölu þeirra vara sem niðurgreiddar eru Það er nauðsynlegt að niðurgreiðslunum sé þannig háttað, að þær hvorki rugli verðskyn manna, né komi mjög óþægilega við markaðinn með ótímabærum sveiflum á verði. Og það væri landbúnaðinum og sjálfsagt neytendum líka mikill hagur ef gæti komist fastara form á þetta. Það yrði að vísu til þess að niðurgreiðslurnar yrðu ekki eins virkar sem hagstjórnartæki, en þær gætu komið bæði landbúnaðinum og neytendunum að meiri notum ef þarna væru minni sveiflur í upphæðum en verið hefur á undanförnum árum.