17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

157. mál, aðild Íslands að samningi um aðstoðarsjóð Efnahags- og framfarastofnunarinnar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um aðild Íslands að samningi um stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, hefur verið samið í viðskrn. Það þótti rétt að hafa þetta frv. til l., en ekki þáltill., þar sem í samningnum eru hugsanlegar nokkrar ábyrgðarskyldur og lántökuheimildir.

Á s.l. vetri var unnið að samningi þeim sem hér er lagt til að fullgiltur verði af Íslands hálfu á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Þær viðræður svo og athuganir sérfræðinga aðildarríkjanna leiddu til samningsgerðarinnar, en samningurinn var undirritaður af flestum aðildarríkjum og þ. á m. Íslandi í París 9. apríl s.l. að áskilinni fullgildingu eftir reglum hinna einstöku landa. Öll aðildarríkin hafa nú undirritað samninginn og nokkur gengið frá fullgildingu.

Í grg. með þessu frv. eru teknar fram þær aðalröksemdir, sem liggja til þess að þessi sjóður var settur á fót, svo og rökin fyrir því að talið er rétt að Ísland gerist aðili að þessum sjóði, og sé ég ekki ástæðu til þess að vera að endurtaka það hér. En kjarni málsins er sá að vegna mikilla verðhækkana, sem hafa orðið á ollu og ýmsum öðrum vörum, hefur gengið á gjaldeyrisforða Íslands eins og kunnugt er. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur veitt fyrirgreiðslu í þessu sambandi síðustu tvö árin, en ríkisstj. telur rétt að taka þátt í stofnun þessa aðstoðarsjóðs og eiga þannig kost á þeim lánum hjá honum sem völ er á.

Ég held, herra forseti, að samningurinn sjálfur, sem fylgir að sjálfsögðu hér með sem fskj., svo og grg. skýri þetta mál nægilega, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta. Þetta frv. hefur gengið í gegnum Ed. og verið afgr. þar óbreytt. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.