24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það gleður mig að þetta frv. er fram komið. Ég á von á því að ætlunin sé að auka verulega fjármagnið til G-lána. Á árinu 1971 var þessum G-lánum breytt á þann veg að þar er einnig heimilað að lána nokkuð til endurbóta og viðhalds á eigin húsnæði öryrkja. Þetta hefur komið að haldi, en þó kannske ekki í svo ríkum mæli sem ég átti von á, og kann að vera að reglugerð, sem sett var um það sé heldur þröng. En ég vil tilkynna að ég mun flytja brtt. við 1. gr. þessa frv. sem hljóðar svo: Í stað „eigin húsnæðis öryrkja“ komi: eigin húsnæðis öryrkja og ellilífeyrisþega. — Okkur er það örugglega öllum ljóst að með hækkandi fasteignagjöldum og með sérstaklega ört hækkandi framfærslukostnaði verður öldruðu fólki sí og æ erfiðara að viðhalda eigin húsnæði, og þetta veldur því að húsnæði verður jafnvel heilsuspillandi enda þótt tiltölulega lágar upphæðir þurfi til þess að endurbæta það svo að það komi að fullum notum og sé vel við unandi. Þess vegna finnst mér vera sjálfsagt og eðlilegt að aldraða fólkið eigi kost á því að fá lán til að endurbæta húsnæði sitt þannig að það geti sem lengst búið heima og þá í viðunandi húsnæði.