04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

36. mál, húsaleigumál bandarískra hermanna og flugvallarstarfsmanna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Þær fsp., sem ég hef borið fram til hæstv. utanrrh., eru á þskj. 39 og snerta með ýmsum hætti samskipti íslendinga og bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli.

Eins og hv. þm. muna var fyrir rúmu ári gerður sérstakur samningur, viðbótarsamningur, milli Íslands og Bandaríkjanna um ýmsar framkvæmdir og tilhögun ýmissa mála á Keflavíkurflugveili, og þær fsp., sem ég flyt, eru á vissan hátt í tengslum við þann samning og tilætlunin er að fá fram hvað sé að gerast þarna syðra eða hvað sé fram undan í þeim efnum sem um er spurt.

Fyrri fsp., sú sem er efst á þskj. 39, fjallar um hversu margar íbúðir bandarískir hermenn og flugvallarstarfsmenn höfðu á leigu utan flugvallar haustið 1974 og hverjar eru sambærilegar tölur nú. Vænti ég þess að hæstv. ráðh. gefi svör við þessari fsp.