29.03.1976
Neðri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

180. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ákaflega einfalt í sniðum. Það fjallar um breyt, á 112. gr. laga um meðferð opinberra mála, og það Felur í sér breytingu á tveimur fjárhæðum, eins og frv. ber með sér. Það varðar sektarvald annars vegar lögreglumanna og hins vegar lögreglustjóra og er um að sektarheimild lögreglumanna verði hækkuð úr 3 þús. kr. í 7 þús. kr. og að sektarheimild lögreglustjóra verði hækkuð úr 10 þús. kr. í 60 þús. kr. Þetta er ákaflega meinlaust mál þó það komi við lögreglu. Þessar fjárhæðir hafa staðið óbreyttar í lögum frá 1973 og er þess vegna eðlilegt að þeim sé breytt til samræmis við verðlagsþróun á þessum tíma. En auk þess má segja að það sé farið kannske dálitið ríflega í að því er varðar sektarheimild lögreglustjóra, og það er gert í því skyni að sektarheimild hans geti náð til fleiri brota en nú er og þá ekki hvað síst höfð í huga ýmis brot á umferðarlögum sem hagstætt þykir ýmissa hluta vegna að geta lokið á staðnum, ef svo má segja. Reynslan af ákvæðum um sektarheimild lögreglumanna og lögreglustjóra í einföldum og óbrotnum málum er góð og miðar að því að létta af dómstólum meðferð augljósra mála sem ekki geta orkað tvímælis og er til hagræðis að mínu mati fyrir þá sem hafa gerst sekir um þær yfirsjónir sem um er að ræða. Þetta kemur auðvitað því aðeins til greina. eins og menn geta séð ef þeir athuga sjálfa lagagr., en frv. sem slíkt er kannske ekki gott að skilja nema athuga 112. gr. í heild, — það kemur því aðeins til greina að hlutaðeigandi aðili óski ekki eftir því að málinu sé vísað til dómstóla, hann vilji sem sagt sætta sig við ákvörðun lögreglu eða lögreglustjóra í þessu tilfelli.

Þetta frv. hefur líka gengið í gegnum hv. Ed. og verið samþ. óbreytt. Ég leyfi mér að æskja þess, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.