30.03.1976
Sameinað þing: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

117. mál, könnun á vissum þáttum heilbrigðisþjónustunnar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þeirrar till., sem hér um ræðir, hv. þm. Sverrir Bergmann, 4. þm. Reykv., hefur nú í sinni greinargóðu ræðu gert fullnægjandi grein fyrir tilgangi okkar með flutningi till. Og það er eiginlega meira til gamans og fróðleiks sem mig langar til að bæta hér við örfáum staðreyndum varðandi þennan málaflokk.

Í stofnskrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem Ísland er aðili að og fyrstu aðilarnir undirrituðu þegar árið 1946, segir svo: „Heilbrigði allra þjóða er frumskilyrði þess, að höndlað verði hnoss friðar og öryggis, og er komið undir fyllstu samvinnu einstaklinga og ríkja.“ Þar segir enn fremur: „Útbreiðsla þekkingar meðal allra þjóða á gæðum læknisfræði, sálarfræði og skyldra vísinda er undirstaða fyllstu aukinnar heilbrigði.“

Fáum Evrópuþjóðum ætti að vera mikilvægi þessara orða stofnskrár Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ljósara en einmitt okkur. Við erum þjóð sem öldum saman bjó við hörmulegt heilsufar og tileinkuðum okkur áratugum seinna en nágrannaþjóðirnar ýmsar umbætur og nýjungar í læknisfræði og skyldum vísindagreinum. Þetta var af ýmsum ástæðum, fyrst og fremst af fátækt, einangrun og harðbýli landsins, en einnig eins og stofnskráin segir, vegna skorts á samvinnu einstaklinga og ríkja og vegna skorts á útbreiðslu þekkingar um læknisfræði og skyldar greinar.

Þegar þjóðin hafði búið í þessu landi í 1000 ár, þá má segja að heilbrigðisþjónusta hafi verið hér á algeru frumstigi. Árið 1874 voru hér tvö sjúkrahús, sjúkrarúmin samtals 30, þ.e.a.s. eitt sjúkrarúm á hverja 2360 íbúa. Þá var í landinu einn læknir á hverja 4500 íbúa. Þótt þá hafi verið liðin meira en 100 ár frá því að við eignuðumst fyrsta landlækninn, þá hafði heilbrigði landsmanna þó ekki enn tekið verulegum stakkaskiptum, en þó vorn heilbrigðishættir aðeins að færast í meira menningarhorf þá. Árið 1874 voru landsmenn rúmlega 70 þús. og þá var barnkoma okkar um 380/00. en er nú um 19.60/00. Manndauði var þá 240/00 en er nú 6.90/00. Ungbarnadauði var þá 240 af 1000 fæddum börnum, en nú deyja 10.6 af hverjum 1000 fæddum innan eins árs. Um sama leyti var ungbarnadauðinn og fleiri atriði, sem ég gat um áðan, nærri helmingi hagstæðari í nágrannalöndum okkar heldur en hjá okkur.

Um þetta leyti fór aftur á móti að hilla undir fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar, og á fyrsta fjárhagstímabili landsins, eftir að það hafði fengið fjármálastjórnina í sínar hendur, er varið til læknaskipunar og heilbrigðismála úr landssjóði um 43 aurum á hvert mannsbarn í landinu. Árið 1976 mun þessi tala verða milli 50 og 60 þús. á hvert mannsbarn, þ.e.a.s. það, sem fyrir 100 árum voru 43 aurar á mann, er núna milli 50 og 60 þús., og segja má að til heilbrigðisþjónustunnar muni varið alls 240 þús. á fjögurra manna heimili í landinu árið 1976. Það mætti ætla að mikla og góða þjónustu fengjum við fyrir allt þetta í fármagn, enda er það svo.

Ég sagði áður að við hefðum verið sein að taka við okkur í þessum efnum. En á þessari öld hafa orðið alger umskipti hvað læknisþjónustu snertir. Nú höfum við um áratugi notið jafngóðrar eða betri heilbrigðisþjónustu en nágrannar okkar, og alllengi höfum við verið jafnlanglífir og þeir. Það má því segja að það aukna fjármagn, sem runnið hefur til heilbrigðisþjónustunnar, hafi ásamt aukinni skipulagningu og þekkingu skilað frábærlega góðum árangri.

Um þær breytingar, sem orðið hafa á þessu tímabili, má enn fremur geta þess, að fyrir 100 árum höfðum við einn lækni á 4500 íbúa. En nú höfum við einn lækni á hverja 600 íbúa. Þar að auki verður að geta þess, að læknar hafa nú sér til aðstoðar öfluga og vel menntaða stétt heilbrigðisstarfsfólks sem nánast var ekki til fyrir 100 árum, að ljósmæðrum undanskildum. Fyrir 100 árum höfðum við eitt sjúkrarúm á hverja 2360 íbúa. Nú munum við hafa eitt sjúkrarúm á hverja 800 landsmanna þannig að á þessu hefur orðið gífurleg breyting. 1874 var meðalævi íslenskra karla 341/2 ár og kvenmanna 39 ár, en árið 1974 var meðalævi íslenskra karla um 71.2 ár og kvenna 76.7. Árið 1874 dóu 240 af 1000 fæddum börnum innan eins árs, en 1974 dóu 12 af 1000 fæddum. Þannig mætti halda áfram að rekja framfarir okkar í heilbrigðamálum, sigra sem eru svo stórfelldir að á hálfri öld höfum við færst úr einn neðsta sæti Evrópulanda á þessu sviði upp í það að vera nærri jafnir þeim bestu.

En þetta hefur að sjálfsögðu ekki náðst baráttu- og átakalaust. Þegar við fyrir einni öld höfðum aðeins 30 sjúkrarúm í landinu, þá var fjarri því að þau væru að jafnaði fullsetin. Fólkið í landinu hafði einfaldlega ekki efni á því að liggja í sjúkrarúmunum. En nú um áratuga skeið hefur okkar tryggingalöggjöf skapað öllum landsmönnum það öryggi að fátækt og auraleysi hamla varla möguleikum okkar til þess að njóta nauðsynlegrar læknishjálpar eða sjúkralegu. En eins og síðasti ræðumaður gat um, góð heilbrigðisþjónusta er dýr og nærri 35% af ríkisútgjöldum okkar fara til heilbrigðis- og tryggingamála. Enn fremur er það svo, þótt slíkar gífurlegar umbætur hafi orðið eins og ég hef þegar getið um, að enn eru vanræktir þættir til hjá okkur. Það er ýmislegt sem betur mætti fara og með aukinni hagræðingu og samvinnu innan okkar heilbrigðisþjónustu mætti um bæta. Það er þess vegna sem þessi till. er flutt og til að rannsaka gaumgæfilega kostnaðarhlutfallið milli ýmissa þátta lækninga og hvort mætti hagræða því á einhvern hátt til bættrar þjónustu án kostnaðarauka.

Að sjálfsögðu fer lækning flestra þeirra, er veikjast, fram utan sjúkrahúsa. Aftur á móti fá sjúkrahúsin þau tilfelli til meðferðar sem ekki tekst að lækna heima. Athuganir sýna hins vegar að langmest af kostnaðinum við heilsugæslu eru daggjöld sjúkrahúsa. Svo yfirgnæfandi er þessi kostnaðarliður að áætlun 1976 gerir ráð fyrir 8 milljörðum 120 millj. í daggjaldakostnað af 11 milljarða 600 millj. kr. heildarkostnaði.

Sú könnun, sem við flm. leggjum til að framkvæmd verði og fyrri flm. hefur nú rækilega gert grein fyrir, miðar m.a. að því að finna út á hvern hátt mætti bæta aðstöðuna til rannsókna og lækninga utan sjúkrahúsa og á þann hátt draga úr þörfinni fyrir hina dýru sjúkrahúsvist. Það má segja að verið sé að vinna mikið að bættri þjónustu utan sjúkrahúsa og þá fyrst og fremst með byggingu heilsugæslustöðvanna. En þar fylgir þó sá böggull skammrifi að svæðið, þar sem meira en helmingur landsmanna býr, mun nú um 1–2 áratugi a.m.k. verða verulega útundan á þessu sviði. Er trúlegt að það muni há okkar heilbrigðisþjónustu á þessu þéttbyggða svæði mjög verulega og ástæða er til að það verði einnig vel kannað hvernig draga má úr áhrifum þeirrar tafar, þannig að við getum einnig bætt heilbrigðisþjónustu hér með eðlilegum hætti.

Varðandi athugun á rekstri sjúkrahúsa er ekki nokkur vafi á því að þar er grundvöllur fyrir miklum umbótum ef allir leggjast á eitt um að nýta og skipuleggja sem best það starf sem þar er unnið. Ekki verður annað sagt en að athugun í þessu efni hafi oft og lengi farið fram, en það er nú einhvern veginn svo að takmarkaður hefur árangurinn verið, og því er ekki að neita að það er kannske einna frekast þarna sem ætla má að hilli undir verulegan sparnað, því að talið er af þeim, sem best þekkja til, að skortur á samstarfi og samvinnu hái okkar heilbrigðisþjónustu innan sjúkrahúsanna og til þess að bæta þarna um muni þurfa nokkra endurskipulagningu.

Sem dæmi um þætti, sem hafa orðið útundan hjá okkur, þá er öllum ljóst að árum saman hefur verið mjög erfitt að fá hér pláss fyrir hjúkrunarsjúklinga og einkum þá sem eru mjög illa farnir. Og þetta er ekki alltaf vegna plássleysis, heldur er eins og enginn vilji þessi erfiðu tilfelli hafa hjá sér, og það er að sjálfsögðu skipulagsatriði, sem verður að leysa, að tryggja það að þeir, sem kannske hafa einna helst not fyrir plássin, fái að njóta þeirra. Enn fremur eru alþekktir erfiðleikar áfengissjúklinga, en vonandi rætist nú eitthvað úr þeim málum hvað sjúkrahúspláss snertir þegar Vífilsstaðaspítalinn verður tekinn í notkun. Þannig mætti halda áfram að telja upp örðugleika sem við eigum við að stríða, — örðugleika sem í mörgum tilfellum mætti ráða bót á án þess að plássum yrði verulega fjölgað og án þess að kostnaðarauki yrði af.

Það hafa á undanförnum áratugum orðið miklar breytingar á sjúkdómum og meinum okkar í heild. Og einn er sá liður, sem við höfum ekki minnst á í okkar till., en sannarlega getur haft mikil áhrif á aðstöðu okkar heilbrigðisþjónustu í framtíðinni, og það er heilsugæslan. Það er í raun og veru hörmulegt, að þrátt fyrir það að við höfum ráðið niðurlögum margra þeirra sjúkdóma sem fyrir nokkrum áratugum ollu flestum dauðsföllum og legudögum hjá okkur, þá er samt ekkert lát á þörfinni fyrir lækna og sjúkrarými. Og það er sjálfsagt að kanna hvað það er sem þessu veldur, hvaða sjúkdómar það eru sem hafa skotið upp kollinum, hvaða þjóðfélagshópar verða helst fyrir barðinu á þeim.

Þegar við förum að hugsa um þessi mál, þá rekum við fljótt augun í atriði sem eru nátengd nútíma lífsvenjum og eiga stóran þátt í því, hve þörfin fyrir sjúkrarúm er mikil, og munu áður en langt um líður fara að hafa veruleg áhrif á ævilengd okkar ef ekkert verður aðhafst. Þeir hópar, sem ég hef m.a. í huga, eru þessir. Í fyrsta lagi reykingafólk. Þetta fólk mun í vaxandi mæli fylla sjúkrahúsin í framtíðinni vegna lungnasjúkdóma, vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Í öðru lagi áfengissjúklingar og aðrir vímugjafasjúklingar. Þetta er stærra heilbrigðisvandamál en menn gera sér yfirleitt grein fyrir. Áfengisneytendur eru tíðir gestir sjúkrahúsa, m.a. vegna magakvilla, vegna heilarýrnunar, vegna æðakölkunar, vegna lifrarsjúkdóma og siðast, en ekki síst vegna geðtruflana og svo seinast sem áfengissjúklingar á þar til gerðum stofnunum. Í þriðja lagi eru það svo slysin og þá ekki síst umferðarslysin. Þau eru, eins og vitað er, margháttuð og margs konar, taka í vaxandi mæli upp rúm sjúkrahúsanna og skilja oft eftir sig hörmulega örorku, sem hefur ósegjanleg áhrif á framtíð þess fólks sem fyrir henni verður. Í fjórða lagi er það offita og ofbeldi sem er vaxandi heilbrigðisvandamál vegna ýmissa samverkandi þátta. Má þar geta um að okkar störf krefjast nú minni orku en áður var, minni hreyfinga, og þetta veldur því að fólki hættir til að verða of feitt. Samfara bættri fjárhagsafkomu til matarkaupa hefur vinna okkar breyst þannig að við reynum minna á okkur, hreyfum okkur minna og á sama tíma étum við gjarnan meira. Í fimmta lagi eru svo atvinnusjúkdómar sem eru samfara nýjum atvinnugreinum og nýjum efnum sem meðhöndluð eru. Verða þeir í æ ríkari mæli orsök til örorku og sjúkdóma. Þetta eru þó aðeins fáar af þeim orsökum sem liggja til okkar miklu sjúkrarúmaþarfar nú, og margar af þessum orsökum voru ekki fyrir hendi áður fyrr í eins ríkum mæli og nú er a.m.k.

Afleiðingin af þessu öllu saman er svo sú, að okkur sárvantar sjúkrarúm, enda þótt við höfum allt að því jafnmörg sjúkrarúm og nágrannalönd okkar hafa. Þegar svo er, þá er líka ástæða til að kanna hvernig á að leysa þann vanda, því að það eru til fleiri en ein leið til úrbóta ef sjúkrarúm vantar, t.d. sú leið, að byggja yfir fleiri sjúkrarúm, í öðru lagi að nýta betur þau sjúkrarúm sem fyrir eru, í þriðja lagi að fækka þeim sjúklingum sem þurfa sjúkrahúsvistar, sbr. það sem ég hef áður sagt um umbætur í heimilislækningum, og í fjórða lagi að fækka þeim sem missa heilsuna með betri heilsugæslu og meiri heilsuvernd.

Þetta var nú það helsta sem ég vildi við bæta. Ég vil svo leggja áherslu á það að við höfum mikla reynslu af því að heilsugæslan hefur komið okkur að mjög miklum notum, t.d. í baráttunni við berklana. Það var fyrst þegar við fórum að leita eftir sjúkdómum á byrjunarstigi sem við fórum að sjá verulegan árangur af starfinu og fórum að verða þess varir að við þyrftum ekki lengur endilega að fjölga sjúkrarúmum, heldur að sjúkdómurinn hjá hverjum einstaklingi tók skemmri tíma en áður hafði verið.