04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil minna hv. síðasta ræðumann á að það var hann sem kom með Ármannsfellsmálið inn í þessar umr. strax í upphafi máls síns eftir framsögu. En ég sný mér að 8. landsk. þm. (Gripið fram í). Það er alltaf gleðiefni þegar þú ert ekki í burtu. Ég vil taka undir og staðfesta það að þrátt fyrir stuðning minn við Alþfl., — ég vil bæta því við að það er ekki við Alþýðublaðið — (StJ: Var það í síðustu kosningum?) nei það var það nú ekki, — þá hef ég hvorki fengið lóð né haft áhrif á skrif Alþýðublaðsins. Ég undirstrika að þau orð hans eru rétt, enda eins og ég hef áður látið koma fram, les ég svo sjaldan Alþýðublaðið, ég veit svo sjaldan hvað í því stendur, þannig að ég hef aldrei séð neina ástæðu til þess að reyna að hafa áhrif á hvað þar er skrifað og hvað ekki. En það kom fram hjá honum þó að hann keypti stundum happdrættismiða og styrkti þar með að mér skildist helst Alþb. (Gripið fram í.) gegn því að flokksmenn þess keyptu þá happdrættismiða af honum seinna meir. Hvað er þetta? Hvað kallar hv. þm. þetta? Ég skal ekki fara að túlka þetta, en ég held að hann hafi talað þarna af sér.

Ég vil leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að ég gaf ekki neinar upplýsingar um það hvort Ármannsfell sem fyrirtæki eða eigendur, synir Ármanns sáluga, persónulega afhentu peninga í byggingu Sjálfstfl. Ég sagði að ég myndi ekki hvort var, vegna þess að það er gengið út frá því sem vísu hér í umr. (Gripið fram í.) Ég sagði að ég myndi ekki hvort var, ég er með það skrifað hér, vegna þess að það er gengið út frá því í umr. að fyrirtækið sem slíkt hafi ekki haft efni á að gefa þessa peninga í byggingu Sjálfstæðishússins. Ég skal ekkert um það segja hvort það hefur efni á því eða ekki, miðað við það skattaframtal sem hér var lesið upp, sem ég veit ekki heldur hvort var rétt eða ekki rétt. Ég hef ekki gert mér far um að kynna mér það. En ég vil bara að það komi fram sem er rétt, að ég persónulega man ekki hvort það var gert í nafni fyrirtækisins eða afhent persónulega, en það var gert í minningu um Ármann heitinn.

Ég skal ekki segja hvort það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að stjórnmálamenn í öðrum löndum hagi sér öðruvísi en hér. Það getur vel verið. En hvort það þýðir að þeir séu okkur til einhverrar fyrirmyndar, það held ég ekki. Ég held að þm. almennt hérna hagi sér bara ágætlega, með mjög fáum undantekningum. T. d. að við brot í fyrirtæki, sem stjórnmálamaður á i, eins og hv. þm. gat um, jafnvel þótt saklaus sé af broti í viðkomandi fyrirtæki, skuli hann þurfa að láta af þeim opinberu störfum sem hann gegnir, án þess, eins og kom fram, að hann hefði tekið þátt í glæp, algerlega saklaus, ég held að það sé til engrar fyrirmyndar. Ég mundi ekki samþykkja að hér yrði sett í lög að ef einhver af félögum mínum á Alþ. ætti fyrirtæki eða góður bóndi, — við höfum nú ekki annað en góða bændur hér á þingi, — það kæmi eitthvað fyrir heima fyrir meðan hann er að gegna skyldustörfum hér, eitthvað sem talið væri brotlegt við lög, hann yrði þá bara tekinn og settur út úr Alþ., — ég mundi ekki vilja standa að því að samþykkja slík lög.

Það var ekki við öðru að búast úr þessari áttinni en grundvallarreglur kapítalismans yrðu fyrir einhverju hnjaski og það að fólk fái sjálft að ráðstafa eigin fé. Þarna stangast bara á stjórnmálaskoðanir. Varðandi stjórnmálaskoðanir þeirra sem vilja að ríkið hafi forsjá fyrir öllu og engir eigi kannske að fá að ráðstafa neinu fé, ríkið eigi að sjá fyrir þeim, það getur verið að þeir séu sinni trú trúir. En það er bara ekki mín trú, það er bara ekki mín lífsskoðun. Þarna stangast á lífsskoðanir. Ég er þeirrar trúar að fólk eigi að vera sem sjálfstæðast. Ég vil hafa sjálfstætt fólk. Ég vil hafa fólk sem ræður sér sjálft að svo miklu leyti sem það treður ekki á því sem sameiginlegt er í þjóðfélaginu. Og þar er ég alveg sammála, það þarf að setja reglur og til þess erum við að setja lög, en að fólk almennt sé þó frjálst og sér í lagi þegar það hefur staðið skil á sínum opinberu gjöldum og á eitthvert fé eftir, þá á það að fá að ráðstafa því sjálft, hvort það er til líknarstarfsemi, stjórnmálafélaga eða til þess að kaupa sér brennivin á margföldu verði ríkinu til hagsbóta, sjálfum sér til skammar og heilsuspillandi.

Ég get ekki séð neitt samhengi í og það er hreint til að rugla að tala um Nixon og framlög gegn fyrirgreiðslu sem varð Nixon að falli. Ég er alveg sammála um að ef stjórnmálamaður brýtur á þann hátt, — þá kalla ég það mútur, og það er það sem verið er að reyna að sanna á mig með berum orðum eftir umr. í borgarstjórn, — þá á að reka slíkan mann í burtu, þá á að setja hann í fangelsi, hann á að vera ábyrgur gerða sinna. En þeir, sem bera slíkt á borð, ef ekkert sannast, eiga líka að vera ábyrgir orða sinna. Það er líka í lögum hvað á að gera við þá engu siður en mútuþega. En það er bara engin hliðstæða við það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði um. „Framlag gegn fyrirgreiðslu,“ ég skrifaði það orðrétt eftir honum, sem varð Nixon að falli, það er engin hliðstæða hér sem ég þekki til. Og ég tek undir það með honum að lokum að ég vona að það verði sú gæfa sem fylgir Alþ. ávallt, að sett verði hér lög í þessum efnum sem öðrum sem verði lögum annarra landa til fyrirmyndar, ef við erum þá með sömu lífsskoðun í huga.