05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

23. mál, umferðarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að karpa lengi um þetta mál. En vegna þess að ég er einn af þeim stjórnarliðum sem hlupu undan merkjum, eins og sumir hv. ræðumenn hafa komist að orði, þá get ég ekki látið hjá líða að gera í örstuttu máli grein fyrir því hvað það var sem réð því að ég gerði þetta. Hins vegar er nú líklega búið að bæta ríflega í skarðið þar sem meira að segja Karvel er nú kominn á bátinn hjá ríkisstj. En ég lít nú ekki svo á að við höfum hafnað þessu frv. alfarið.

Ég lít svo á að þetta sé einn af þremur meginþáttum frv. Þetta frv. byggist upp á þremur þáttum. Það er nýmælið að skrá svona. Það er mikið atriði í frv. um hækkun á vátryggingu. Og einn þátturinn er skráningarskylda á ökutækjum sem ekki hafa verið skráningarskyld fram að þessu.

Ég lít svo á að röksemdin um áhættusvæðin eigi fullkomlega rétt á sér hjá þessari n. Þrátt fyrir það sem fram hefur komið hér um það að réttmæti áhættusvæðanna hafi verið dregið í efa, þá er að mínum dómi vafalaust réttmætt að hafa mismunandi gjald fyrir mismunandi áhættu. Ég get ekki annað en undirstrikað sterklega að það er mismunandi áhætta að aka annars vegar hér í Reykjavik eða úti á landi, enda ber tíðni óhappa því ljósastan vottinn. Það er mælikvarði sem við verðum að fara eftir, og það er ástæðulaust að vera að láta menn, sem aka úti í dreifbýlinu einir og sér á veginum og mæta fáum og lenda aldrei í óhöppum, borga fyrir þá sem sífellt eru að hnjaska bíla sína hér í Reykjavík.

Hvað hagræðingunni viðkemur, þá viðurkenni ég að hjá Bifreiðaeftirlitinu hér í Reykjavík er það vafalaust hagræðing. Það verður minna vinnuálag hjá þessum mönnum. En þegar kemur að sparnaðinum, þá skil ég ekki þetta með 20 millj. Mér er ómögulegt að skilja það að sú upphæð geti verið raunhæf. Það skilningsleysi mitt byggist á því að einn af þeim mönnum, sem við í allshn. Nd. höfðum tal af í sambandi við þetta mál, Ólafur Walter Stefánsson minnir mig að það hafi verið, hann skýrði okkur svo frá að það væri engin fækkun á starfsliði Bifreiðaeftirlits ríkisins fyrirhuguð jafnvel þó að þetta kæmist í gegn. Og hvernig á að spara þessar 20 millj. með öðru en að segja upp einhverju fólki, það get ég ekki fundið. Hins vegar kann vel að vera að Bifreiðaeftirlitið þurfi að þenjast eitthvað fremur út á næstu árum ef ekki verður af þessari breytingu.

Þá er komið að þessum tilfinningalega þætti sem menn hafa verið að fara hér í kringum í ræðustólnum undanfarna klukkustund. Ég vil gera hann ofurlítið að umræðuefni því að tilfinningalegi þátturinn er vanmetinn í mörgum ákvörðunum stjórnvalda. Rökfræði og rökhyggja er mikilsverð, nauðsynleg og gjörsamlega sjálfsögð. En hún er bara alls ekki einhlít. Tilfinningalegi þátturinn ræður nefnilega úrslitum um það að rökfræðin verði geðfelld, að fallist sé á skynsamlegar og rökréttar ráðstafanir með ljúfu geði. Og þessi blanda af rökhyggju og tilfinningasemi gerir stjórnmálastarfið aðlaðandi.

Bifreiðastjórar eru margir fastheldnir á númer sín og e.t.v. fremur fastheldnir á þau sem eru lág. Það vill svo til að ég á tvö bílnúmer eða hef tvö bílnúmer undir höndum, en það er hvorugt þeirra lágt. Ég kann þó ljómandi vel við þau, en sæi ekkert verulega eftir þeim. En ég kynni verulega illa við að hafa ekki H á bílnum mínum. Ég get ekki annað en viðurkennt það hér í þessum ræðustól og það jafnvel þó að menn virði mér það til fordildar. Ég er á móti ópersónulegu númerakerfi, ekki einungis á bílum, heldur miklu fremur á mannfólkinu, og geri þó raunar glögga grein á bíl og manni eins og Benedikt Gröndal. Ég er það mikill einstaklingshyggjumaður að ég held að við íslendingar séum ekki fleiri en það, að við getum eða ættum að geta lagt það á okkur að muna hver eftir öðrum. Benedikt Gröndal kann að hafa gagn af sínu nafnnúmeri, en ég hef ekki mikið gagn af mínu nafnnúmeri. Mér kemur það ekki oft í hug.

Að endingu tel ég að ríkisstj. og þingmeirihl. þurfi ótalmörgum sinnum að taka ákvarðanir sem þegnum kann að líka illa, — ákvarðanir sem ergja þegnana, en ég tel að nú geti hún í þessu máli vel komist af án þess að gera það.