06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3034 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

178. mál, veiting prestakalla

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hér er um að ræða till. til þál. um n. til að endurskoða lög um veitingu prestakalla. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að kjósa n. 7 þm. er hafi það verkefni að endurskoða lög um veitingu prestakalla, nr. 32 frá 3. nóv. 1915. N. skal ljúka störfum fyrir 1. okt. 1976. Kostnaður vegna n. skal greiðast úr ríkissjóði.“

Eins og alþm. er kunnugt, hafa lengi staðið deilur um þessi lög, um prestskosningar, og hugsanlegar breytingar á því fyrirkomulagi sem lögin gera ráð fyrir. Till. hafa verið fluttar um ýmiss konar breytingar sem hafa flestar falið það í sér að fella niður prestskosningar, en þær till. eða þau frv. hafa ekki náð fram að ganga. Kirkjuþing hefur ályktað á þá leið að prestskosningar skuli lagðar niður, og biskup hefur opinberlega tjáð sig um það efni og er sömu skoðunar og fram kemur á Kirkjuþingi.

Alþingi íslendinga hefur almennt ekki skipt sér af innri málefnum kirkjunnar, skiptir sér ekki af boðskap hennar, prédikunum eða kirkjuathöfnum, hefur ekki haft afskipti af skipan presta í embætti, enda þótt kosningar hafi ekki verið lögmætar, og yfirleitt ekki, eins og fyrr segir, haft nein afskipti af málefnum kirkjunnar sem snúa að henni sjálfri og sóknarbörnum hennar. Þess vegna er spurning um það hvort Alþ. eigi að láta að vilja Kirkjuþings og samþykkja ályktanir þess eða hvort það eigi áfram að viðhalda lögum um prestskosningar sem tvímælalaust eru í andstöðu við vilja kirkjunnar.

Um þetta eru skiptar skoðanir, og hv. allshn. Sþ, leggur í sjálfu sér ekki dóm á þetta. En hún, þ.e.a.s. nefndin, er sammála um að mæla með því að þessi till. verði samþ., með því að skipa n. verði gerð enn ein tilraun til þess að skoða núv. fyrirkomulag og gera till. um breytingar á því.

Alþ. hefur vissulega rétt til þess að viðhalda núgildandi lögum. Það er þess að setja lög og breyta þeim, ef svo býður við að horfa. Hér á landi eru ríki og kirkja ekki aðskilin, og með góðri samvinnu og sambúð þessara aðila hefur ríkt nokkuð góður friður á þessum vettvangi. Víða erlendis hafa um aldir verið mjög harðvítugar deilur milli kirkjunnar manna annars vegar og þjóðþinga og ríkisstjórna hins vegar, og víða hafa kirkjunnar menn talið sér nauðsynlegt að stofna sérstaka flokka vegna þess að þeim hafa ekki fundist almennir stjórnmálaflokkar og þjóðþing vilja sinna og skilja málefni þeirra. Það er, held ég, ríkjandi skoðun á Íslandi að ekki skuli kalla slíkar deilur yfir þjóðina og því skuli gera heiðarlega tilraun til þess að löggjöf, sem snýr að kirkjunni, sé að verulegu leyti í samræmi við vilja kirkjunnar manna og kirkjuþings. Þetta eru ekki endilega forsendur fyrir samþykkt n. á því að leggja til að till. verði samþykkt. Þetta eru mínar persónulegar hugleiðingar sem ég læt hér fylgja með um leið og ég flyt það álit allshn. að þessi till. til þál. skuli samþykkt með tveimur minni háttar breytingum.

Í fyrsta lagi er lagt til að gera þá breytingu að n. skuli ljúka störfum eigi síðar en fyrir n. k. áramót í staðinn fyrir 1. okt. 1976, og í öðru lagi að 3. mgr. till. falli niður, þ.e.a.s. setningin: „Kostnaður vegna n. greiðist úr ríkissjóði.“ N. vill gefa þeirri n., sem þarna á að skipa, aðeins meiri tíma og lengja þess vegna þann frest sem hún hefur til starfa. Í öðru lagi telur hún óeðlilegt að fram sé tekið að kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði. Það getur hugsanlega komið til þess, en það er óþarfi að taka það fram í till. sjálfri.