05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

42. mál, söluskattur

Helgi F. Seljan:

:Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég er annar flm. þessa frv., og ég bygg að hér sé komið að máli sem brennur allheitt á þeim sem lengst eru frá höfuðborgarsvæðinu, og undir það hefur verið tekið. Ég vil aðeins benda á það að þegar söluskattslögin munu upphaflega hafa verið sett, þá var hér aðeins um smávægilega prósentu að ræða. Síðan hefur þetta margfaldast og óréttlætið eða ranglætið gagnvart landsbyggðarbúum hefur auðvitað margfaldast með þeim hætti.

Hér er auðvitað komið að spurningunni um það hversu réttlátir séu hinir beinu skattar og hversu réttlátir hinir óbeinu. Ég dreg enga dul á það, að mín skoðun er sú að við eigum að halda okkur í enn ríkara mæli en nú er við beina skatta. Ef þar er vel að verki staðið, þá eiga þeir að vera auðveldari í framkvæmd og betra að fylgjast með þeim, ef menn hafa vilja til þess að leggja byrðar á þá sem í dag hafa möguleika á að skjóta sér undan þeim. En söluskatturinn og aðrir slíkir óbeinir skattar leggjast auðvitað þyngst á þá aðila nú sem um leið eiga erfiðast með að skjóta sér undan hinum beinu sköttum. Hér er því um tvöfalt ranglæti að ræða, svo að ekki sé meira sagt, gagnvart því fólki.

Hv. 5. þm. Austurl. minntist á það að nú væri mikið talað um virðisaukaskatt í stað söluskattsins. Ég er ekki nógu kunnugur því máli til að geta farið út í það, en ég held að það skipti litlu máli fyrir okkur hvaða nafni þessi óbeini skattur nefnist sem á verður lagður. Hann kemur alltaf þyngst niður á því fólki sem býr lengst frá höfuðborgarsvæðinu nema við gerbreytum öllum vöruflutningum hingað til lands og förum að taka upp í ríkara mæli þá skynsamlegu stefnu að flytja vöruna ekki endilega beint hingað til Reykjavíkur, hvert sem hún á svo að fara út um landið, heldur förum við að flytja hana á einstakar innflutningshafnir í hinum einstöku fjórðungum og dreifa henni þaðan eða á eins margar hafnir þar og mögulegt er.

En mig langaði til þess, og það var nú aðaltilefni þess að ég stóð hér upp, að inna hv. þm., sem talaði hér áðan, eftir því, vegna þess að um það hefur verið mikið spurt, hvað líði starfi þeirrar n. sem ég veit að hann hefur tekið röggsamlega forustu fyrir og á einmitt að fjalla um þessi mál, flutningsgjöldin. Hvenær megum við vænta þess að sjá till. þeirrar n. um við skulum segja breytingar og án efa, ef góður vilji ræður ferðinni sem ég ekki er að draga í neinn efa, — breytingar til úrbóta kannske einmitt á því sviði sem við erum hér að fara fram á? Mig langar aðeins til þess að spyrjast Fyrir um þetta í leiðinni, af því að við erum komnir að eiginlega einn atriði þessa máls sem ég veit að þessi n. hefur verið að fjalla um. Því væri býsna fróðlegt fyrir okkur í dag, ef hv. þm. gæti gefið okkur einhverjar upplýsingar um það. Það gæfi okkur flm. líka nokkra vísbendingu um það hvers við mættum vænta e. t. v. um framgang þessa frv. okkar í reynd.