08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

238. mál, ferðamál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna þess, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. gat um í sinni ræðu, vil ég upplýsa það að Ferðamálaráð hefur gert margar tilraunir — og þær hafa borið vissan árangur — að hafa samvinnu við menntmrn. um að fá að fylgjast með skólabyggingum um land allt. Það hefur borið árangur ,og það hefur verið samstarf milli húsameistara ríkisins í sumum tilfellum og Ferðamálaráðs um hönnun skólahúsa, þar sem hægt er og rétt er að koma þannig fyrir að skólahús geti í skólahléum — sumarleyfum tekið á móti ferðamönnum. Mig minnir að það hafi verið gert á Flúðum. Og slíkt samstarf stóð til — ég veit ekki hvernig því lauk — á Ísafirði. Alla vega var það gert með þessa tvo staði í huga. En það hefur verið gert á öðrum stöðum líka. Þegar umr. hafa verið í Ferðamálaráði um slíkt samstarf, þá hefur það alltaf verið byggt á því að bar sem þyrfti að vera aukakostnaður við skólahús til þess að gera skólabyggingar hæfar til að taka á móti ferðamönnum þann tíma sem skólahúsið er ekki notað sem slíkt eða heimavistirnar, þá lánaði Ferðamálasjóður út á þann mismun. Ég nefni þetta til að það komi hér fram til upplýsingar. En ég tel rétt að þessi till. hv. 5. þm. Norðurl. v. verði tekin til athugunar um leið og frv. er afgr.