08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

230. mál, atvinnuleysistryggingar

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég hef sama formála og varðandi hið fyrra mál, að ég mæli fyrir þessu frv. í fjarveru heilbr: og trmrh. og vitna til grg. hans við 1. umr. málsins í Ed.:

„Við lausn hinnar almennu kjaradeilu í febr. féllst ríkisstj. á þá beiðni Alþýðusambands Íslands að beita sér fyrir því að svo hljóðandi ákvæði yrðu sett í lög um atvinnuleysisbætur:

„Réttur til atvinnuleysisbóta haldist óskertur þótt bótaþegi sæki námskeið á vegum verkalýðssamtakanna eða almenn námskeið sem miða að aukinni starfshæfni hans, enda standi þau skemur en einn mánuð.“

Frv. það, sem hér er flutt, er því flutt til þess að efna þetta fyrirheit sem þarna var gefið. Nú er það svo að í 15. gr. 7. mgr. d-liðar l. nr. 57/1973, um atvinnuleysistryggingar, er ákvæði sem fjallar um starfsþjálfun og námskeið og er svo hljóðandi:

„Sá, sem gengur undir starfsþjálfun eða sækir námskeið til þess að öðlast hæfni til að stunda ný störf, nýtur á meðan atvinnuleysisbóta í allt að 30 daga virka, ef hann naut slíkra bóta þegar starfsþjálfunin eða veran á námskeiðinu hófst.“

Í 24. gr. sömu laga er síðan annað ákvæði sem fjallar um atarfsþjálfun og námskeið, en það hljóðar svo:

„Stjórn sjóðsins er heimilt að veita þátttakendum í viðurkenndum starfsþjálfunarnámskeiðum styrk sem nema má allt að því jafnhárri fjárhæð og atvinnuleysisbætur eru, skv. 18. gr. a. fyrir hvern þátttakanda í slíkum starfsþjálfunarnámskeiðum að viðbættri þátttöku í ferðakostnaði og öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum þátttakenda.“

Formaður sjóðsstjórnarinnar, Hjálmar Vilhjálmsson fyrrv. ráðuneytisstjóri, hefur upplýst að á fyrra ákvæðið hafi aldrei reynt í sjóðsstjórninni, en það kunni að hafa komið upp hjá úthlutunarnefndum.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir þessu frv. en hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði í Ed. og legg til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar.