27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3256 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það brennur ákaflega mikið á hópi bænda hvernig þessi lánsloforð innheimtast, hvað Stofnlánadeildin geti gert fyrir menn í ár, og það er tímabært að fjalla um þetta hér á Alþingi.

Það er ljóst af þeim upplýsingum, sem hv. landbrh. gaf, að með því að verja einungis til þess arna 1230 millj. í lánin, þá verður samdráttur á framkvæmdamagni — talsverður samdráttur á framkvæmdamagni. Það þýðir sjálfsagt ekkert annað en að taka því á þessum erfiðu tímum, en það er ákaflega mikið atriði að treina þessa peninga og reyna að verja skynsamlega þessum litlu fjárhæðum sem til ráðstöfunar eru. Og þess vegna stend ég upp, að ég er óánægður við Stofnlánadeildina eða stjórn hennar að hafa ekki orðið við margítrekuðum óskum bændasamtakanna um að flokka lánin eftir bústærð.

Síðast á aðalfundi Stéttarsambands bænda á Laugarvatni í haust var gerð ályktun um að skora á Stofnlánadeildina að breyta um stefnu og lána ekki jafnhagstæð lán út á stórar byggingar og litlar. Það ergir menn að fá neitun um lánsloforð vegna bráðnauðsynlegra framkvæmda ef þeir á annað borð eiga að geta dregið fram lífið á jörðum sínum, en horfa svo upp á aðra fá tugi milljóna til ráðstöfunar til þess að byggja yfir margföld vísitölubú, a.m.k. tvöföld vísitölubú og sumir jafnvel meira. Um þetta eru orðin talsverð dæmi, og í þetta fer fjármagn Stofnlánadeildarinnar. Stóru búin eiga að vissu leyti rétt á sér. En það er ástæðulaust, þegar lítið fjármagn er til ráðstöfunar, annað en það komi frekar niður á þeim heldur en litlu búunum, og ég hygg að það sé ósk alls þorra bændastéttarinnar að þessu verði breytt þannig að ef menn vilja byggja stórt, þá sé þeim að sjálfsögðu heimilt að gera það, en þeir fái ekki nema upp að einhverri ákveðinni bústærð lán með bestu kjörum. Það er leiðinlegt að formaður bankaráðs Búnaðarbankans skuli ekki vera hér staddur, en ég hefði viljað minna á að mér finnst þessi tala, 55 millj., sem kostnaður er við Stofnlánadeildina, vera óþarflega hár. Ég held að Búnaðarbankinn fái fulla greiðslu fyrir þá þjónustu sem hann veitir Stofnlánadeildinni.