28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3291 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

Umræður utan dagskrár

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki skorast undan því að gera grein fyrir skoðun minni hér úr þessum stól, en ég tala ekki í umboði Alþfl. Ég hef ekkert hlustað eftir því eða vissi ekki fyrr en í morgun um þær umr. sem hér áttu að vera, og kann að vera að ýmislegt, sem ég hugsa og nefni, sé alls ekki í samræmi við það sem minn flokkur hugsar og nefnir. Þetta vil ég taka fram í upphafi svo að enginn, sem á mál mitt hlýðir, kunni að segja sem svo að hér hafi verið töluð ýmis orð sem ekki falla að smekk eða skoðun Alþfl.

Ég ætla að byrja á því að geta þess, að þegar þetta mál var til umr. hér í vetur, þá var ég dálítið í efa hvort ég ætti að vera með eða móti samningunum. Ástæðan fyrir því, að ég var á móti þeim, var það fyrst og fremst að mér var talin trú um eftir þeirri lesningu, sem ég sá hafða eftir ýmsum mönnum sem við landhelgisgæsluna eru viðriðnir, að það mundi vera hægt að verjast bæði bretum og þjóðverjum. Nú hef ég séð af því, sem á undan hefur gengið, að þetta hefði ekki verið hægt, og þess vegna vil ég lýsa hér þeirri skoðun minni, að ég tel þrátt fyrir alla vankanta, sem voru á samningunum við þjóðverja, þá hafi verið rétt ráðið að semja við þá. Og ég ætla að vera þá sá maður, alveg eins og hv. 12. þm. Reykv. hér áðan, að lýsa skoðun minni umbúðalaust án nokkurra flokksbanda.

Ég er líka þeirrar skoðunar, að ef kostur væri á að semja við breta, þá eigi íslendingar að gera það. En það á ekki að vera neinn vandræðanauðungarsamningur, og ég vil að þjóðin öll geti staðið að slíku. Við verðum að gera okkur það ljóst að við erum engin stórþjóð og við höfum ekkert herskinavald til þess að setja sterkan hnefa á borðið. Og við eigum líka að sýna það, hvort sem við teljum okkur litla þjóð eða stóra þjóð, að þjóðir eiga að reyna að leita samkomulags.

En önnur ástæðan fyrir því, að ég stóð hér upp, var að lýsa því yfir — og ég held að ég tali fyrir munn mjög margra á meðal þjóðarinnar — að vinnubrögð ríkisstj. að þessum málum eru ekki að smekk þjóðarinnar. Hún er dulin allt of mikils og allt of margs, og þrátt fyrir það að ég ber persónulega virðingu fyrir okkar ágæta forsrh., ég hef aldrei öðru af honum kynnst, þá finnst mér hann hafa þann áberandi galla að segja þjóðinni ekki hug sinn allan. Og ég held að þetta sé misskilningur hjá honum. Hann á að vera miklu opinskárri og hreinskilnari í þessum málum og láta þjóðina fylgjast vel með hvað er að gerast. Persónulega velkist ég ekki í vafa um að það eru einhverjar áþreifingar við breta núna, annars mundu þeir ekki haga sér eins og þeir gera á miðunum, og ég tel rétt að þessar áþreifingar fari fram. En þjóðin á að vita um þær og hún á að fá að fylgjast með hvernig þær eru svo að hún geti leiðbeint stjórninni um það hvenær og hvort semjandi er.