28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

205. mál, hámarkslaun

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og síðasti ræðumaður að þessi till. vakti strax athygli mína. Og sannleikanum samkv. er það, að oft hef ég hugsað til þess að eitthvað slíkt þyrfti að gera eins og það sem hér er rætt um, þótt ég hins vegar geri mér fyllilega grein fyrir örðugleikum sem mundu vera í sambandi við framkvæmd á slíku. Þá er kannske ekki minnstur vandinn að ákveða hvað eru laun og hvaða laun hef ég og hvaða laun hefur þú. Mér dettur í hug að maður, sem hefur 60 þús. kr. í laun á mánuði, hefur nefnilega meira en hálf laun á við þann sem hefur 120 þús. kr. á mánuði, og það er þetta, sem veldur dálitlum örðugleikum. Eins og ég held að flm. hafi tekið fram, þá er svo mikið af öfund til í þessu þjóðfélagi og líklega öllum þjóðfélögum og það er svo mikið af misskilningi til, að ég held að það væri einmitt þess vegna mikil nauðsyn að fá hámarkslaun eða fá einhverja breytingu á launakerfinu frá því sem nú er. Sem sagt, þeir, sem hafa við skulum segja 150 þús. kr. á mánuði, borga háa skatta. Þeir eru ekki með tvöföld laun á við þann, sem hefur 75 þús. kr. á mánuði og borgar lága skatta. Þetta út af fyrir sig er ástæða til þess að athuga vel, hvort ekki er hægt að finna betri lausn á launamálum heldur en er í dag.

Eitt er það sem veldur nokkru um það, hvernig fólk kemst af, og hv. flm. kom svolítið inn á, og það er einfaldlega um þetta, hvort maðurinn gegnir störfum sem gera það mögulegt að eiginkonan vinni úti. Í okkar þjóðfélagi í dag mun vera meira en 11/2 fyrirvinna fyrir hverju heimili, þ.e. meiri hluti af eiginkonum hefur atvinnu utan heimilis. Þetta út af fyrir sig ruglar okkar tölur allmikið og gerir miklu erfiðara að gera sér grein fyrir hinum raunverulegu tekjum sem heimilið hefur til ráðstöfunar.

Ég held ekki að það yrðu menntamennirnir sem yrði erfiðast að eiga við í þessu efni, því að sé miðað við 40 stunda vinnuviku, þá hef ég ekki trú á því að stórir hópar þeirra hafi miklu meira en tvöföld verkamannalaun, þegar búið er að draga frá skatta og annan beinan kostnað sem þeir hafa fram yfir aðrar stéttir. Þetta er sjálfsagt að raunsaka, en ég held að í heildinni mundi vandinn ekki liggja þar. Aftur á móti munu flm. vera ofarlega í huga kjarasamningarnir 1974, í marsmánuði, — var það ekki? — þegar mér skilst að hafi farið eitthvað úrskeiðis með áhuga á launajöfnuði, en ekki meira um það. Við vitum allir að þetta eru erfið mál. En ég vil sérstaklega taka það fram, að mér finnst mjög ánægjulegt að þessi till. skuli koma fram, og ég held að hún sé þess virði að athuga hana mjög gaumgæfilega. Sannleikurinn er sá, að það er ósköp erfitt að draga ályktanir um tekjur manna af lifnaðarháttum þeirra þegar tekjur eru komnar yfir visst lágmark.

Mér dettur í hug að í sveitinni minni eru hjón sem hafa a.m.k. góðar meðaltekjur og hafa lifað ósköp skikkanlegu lífi og notað sínar tekjur eins og vera ber. Þau reyktu bæði. Fyrir nokkrum árum tóku þau upp á því að hætta að reykja. Síðan hafa þau siglt til útlanda, til sólarlanda á hverju ári og notað reykingapeningana til þess að sigla fyrir. Sem sagt, þau veita sér nú það sem hátekjufólk er eitt talið getað veitt sér, en einasta breyting á þeirra högum, fyrir utan það að fara burt frá heimili sínu á hverju ári til sólarlanda, er sú að þau hættu að reykja. Ekki þarf að segja ykkur það, að brennivínsnotkun gjörbreytir öllum möguleikum einstaklinga og fjölskyldna á því hvernig lífi þeir geti lifað, þannig að það er erfitt að draga ályktanir af tekjum út frá því hvernig lifnaðarhættir fólks eru, því að það er ekki eingöngu að afla teknanna, það er líka hvernig tekjurnar eru notaðar. Ég held að þetta gæti verið mjög skemmtilegt rannsóknarefni, hvernig lifnaðarhættir eru, miðað við raunverulegar tekjur. Það er mín skoðun að langsamlega flestir þeirra, sem hafa há laun í þessu landi, vinni meira en 40 stunda vinnuviku, — langsamlega flestir. Og ég veit að í þeirri stétt sem ég tilheyrði lengst, læknastéttinni, hafa hin háu laun byggst á löngum vinnutíma og óreglulegum vinnutíma og það er atriði sem þyrfti að koma skýrar fram þegar rætt er um launamisrétti.