30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3411 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

Varamaður tekur þingsæti

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh., sem nú var að ljúka máli sínu, lagði á það töluverða áherslu, að þeir hæstv. ráðh. og málgögn ríkisstj. hefðu alls ekki gagnrýnt alþýðusamtökin fyrir síðustu kjarasamninga, og spurði hvort hægt væri að finna þeim orðum stað, að þessir aðilar, þ.e.a.s. hæstv. ríkisstj. og málgögn hennar, hefðu gagnrýnt þessa kjarasamninga.

Ég held að það þurfi ekki mjög lengi að leita til þess að finna margvíslega gagnrýni í sambandi við það verkfall og þá kjarasamninga, sem loksins fengust eftir verkfallið, bæði af hálfu hæstv. ráðh. og þó alveg sérstaklega af hálfu málgagna ríkisstj. Vil ég nú minna hæstv. viðskrh. á höfuðmálgagn stjórnarinnar í þessu sambandi, eða við skulum segja annað af tveimur höfuðmálgögnum, Morgunblaðið, sem ég hygg að alloft hafi að þessum efnum vikið. Það er að vísu svo, að þeir gagnrýnendur, sem um þessi mál ræða nú, vita að það er heppilegra að gagnrýna verkfallið og kenna verkalýðshreyfingunni um verkfallið.

Var það nú svo að verkalýðshreyfingin vildi endilega knýja fram verkfall? Var það ekki eitt og annað sem hún vildi gera til þess að koma í veg fyrir að verkfall yrði? Ég hygg að svo sé, og ég hygg að margir telji að hæstv. ríkisstj. hafi verið heldur seinlát og seinheppin í viðskiptum sínum við aðila vinnumarkaðarins áður en til þessa verkfalls kom sem vitanlega var eins og ævinlega algjör nauðvörn verkalýðshreyfingarinnar.

Það er af hálfu hæstv. ríkisstj. og sérstaklega af hálfu málgagna hennar klifað á því hvað eftir annað að það sé í rauninni alveg tilgangslaust fyrir verkalýðshreyfinguna að vera að gera slíkar kröfur eins og hún gerir og sérstaklega að vera að fara í verkföll. Verkföllin eru alltaf hennar sök, að því er þessi málgögn, a.m.k. Morgunblaðið, telja. Þetta sjónarmið, að reyna að láta líta svo út sem í rauninni sé öll kaupgjaldsbarátta verkalýðshreyfingarinnar gersamlega þýðingarlaus, þetta hefur verið grunntónninn í áróðri sumra stjórnarblaðanna a.m.k. undanfarnar vikur. Og ég verð nú að segja að mér finnst hæstv. ríkisstj., annaðhvort vitandi vits eða þá óviljandi, hjálpa allmikið til þeim aðilum sem þessum kenningum halda fram. Hæstv. ríkisstjórn gerir það með því að leyfa hinar gífurlegu hækkanir á fjölmörgum sviðum strax fyrstu dagana eftir að kjarasamningum er lokið. Það er samið um 6–8% kauphækkun strax, og þær verðhækkanir, sem hæstv. ríkisstj. leyfir næstu daga og vikur, eru ekki nein 6 eða 8%, þær eru, eins og hefur verið margtekið fram, 20, 30, 35% og þar yfir, eins og t.d. allra síðasta hækkunin sem maður hefur frétt af, þ.e.a.s. varðandi bifreiðar og tryggingamál þeirra.

Ríkisfjölmiðlarnir hafa verið notaðir í þessu efni, sérstaklega ríkisútvarpið, til þess að reyna að koma því inn hjá öllum almenningi að kaupgjaldsbarátta verkalýðshreyfingarinnar sé gersamlega þýðingarlaus og raunar verri en engin. Ég minni þar á langan þátt sem ég hygg að hafi verið nefndur: „Hvað kostaði verkfallið“? — þar sem alveg var ljóst að verkalýðshreyfingin taldi a.m.k. að á sig hefði verið hallað í þeim málflutningi og þeim áróðri sem þar fór fram. Ég held að ég muni það rétt að sá ágæti maður, sem stjórnaði þeim þætti, hafi verið mjög efnilegur framsóknarmaður sem mun hyggja til forustu, aukinnar forustu í þeim flokki.

Annars skal ég ekki fjölyrða mikið um kjarasamninga og verðhækkanir. Það mál er að vísu stórt, en því hafa þegar verið gerð hér nokkur skil og ég tel að Alþýðusamband Íslands eigi þakkir skyldar fyrir að taka nú upp þann hátt að láta hagfræðinga sína og sérfræðinga gera glögga grein fyrir viðhorfum mála frá sjónarhóli alþýðusamtakanna og koma þannig á framfæri umræðugrundvelli um þessi verðlagsmál sem vissulega er full ástæða til að kryfja til mergjar.

Ég ætla ekki heldur að hafa mörg orð um það bann sem sett var á birtingu tiltekinnar sjón-sjónvarpsauglýsingar frá Alþýðusambandinu. Það er í sjálfu sér kannske ekki stórmál, þó að það sé eitt af þeim atriðum sem Alþýðusambandið hefur gagnrýnt í sambandi við skipti þess við ríkisfjölmiðlana. Ég sá ekki þessa sjónvarpsauglýsingu, en mér skilst að aðalinntak hennar hafi verið þessar tölur, þessar upplýsingar, sem Alþýðusambandið vildi koma á framfæri og hefur gert með sínum litla bæklingi sem alþm. hafa fengið í hendur, en einnig hafi fylgt í þessari sjónvarpsauglýsingu mynd af hæstv. ríkisstj. eins og hún lagði sig. Í ríkisstj. eru menn sem flestir, ef ekki allir, myndast frekar vel svo ég vona að það hafi ekki verið sú hrollvekja sem varð þess valdandi að ástæða þótti til að banna þessa sjónvarpsauglýsingu. En raunar með banni, eins og gjarnan vill verða, hefur Alþýðusambandið fengið algjörlega ókeypis einhverja þá bestu auglýsingu sem það gat fengið, og ég býst við að vegna bannsins sé nú komið á framfæri við þjóðina það sem Alþýðusambandið vildi ná fram með auglýsingu sinni.

Það er aðeins eitt atriði í sambandi við þessi mál öll saman sem ég vildi gera hér að umræðuefni lítils háttar. Það kom fram í einu eða tveimur sjónvarpsviðtölum við forseta Alþýðusambandsins ekki alls fyrir löngu að stjórnendur sambandsins litu þannig á að sjónarmið alþýðusamtakanna hefðu ekki fengið að njóta sín á þann hátt, sem eðlilegt og réttmætt væri, í ríkisfjölmiðlum að undanförnu og hann nefndi ákveðin dæmi sem hann taldi vera þessu til staðfestingar eða sönnunar. Nú vita allir að innan Alþýðusambands Íslands eru yfir 40 þús. félagsmenn. Þetta eru fjölmennustu samtök í þessu landi og þau eiga eðli máls samkvæmt fullan rétt á hví að mjög verulegt tillit sé til þeirra tekið í ríkisfjölmiðlum. Nú vildi ég koma því á framfæri, — æðsti yfirmaður ríkisfjölmiðlanna, hæstv. menntmrh., er því miður ekki viðstaddur, en til hans hefði ég gjarnan viljað beina þessum orðum mínum. Ég veit að formaður útvarpsráðs er ekki heldur viðstaddur þar sem hann situr nú annað merkisþing í annarri heimsálfu, og ég sé raunar ekki heldur varaformann útvarpsráðs. En ég vænti þá þess að fjölmiðlar, bæði blöð og útvarp, komi á framfæri þeirri ábendingu sem ég vil hér með lýsa stuttlega.

Þegar það kemur fram hvað eftir annað frá stærstu fjöldasamtökum þjóðarinnar eða forsvarsmönnum þeirra að þeirra mál, þeirra sjónarmið njóti ekki fyllsta réttar í ríkisfjölmiðlum og alls ekki samanborið við ýmis önnur samtök, — það eru nefnd samtök í því sambandi, sem ég skal ekki fara út í, — þá tel ég mjög eðlilegt og raunar skýrt andsvar af hálfu stjórnenda ríkisfjölmiðlanna að láta kanna þetta mál, láta athuga t.d. hvernig er háttað um viðskipti við þessi fjöldasamtök síðustu 3–4 árin og hvernig því er háttað um ýmis önnur samtök sem á einhvern hátt mega teljast hliðstæð, — er það rétt að alþýðusamtökin hafi ekki notið jafnréttis við ýmsa aðra í ríkisfjölmiðlum og hverju munar? Ég heiti á þá, sem stjórna útvarpi og sjónvarpi, að láta þessa könnun fara fram, það á að vera tiltölulega auðvelt. Um einstaka atriði kunna að vera skiptar skoðanir hvernig eigi að flokka, en í meginatriðum á að vera auðvelt að láta þessa könnun fara fram. Og ég skora á þá, sem stjórna útvarpi og sjónvarpi, að gera þetta, en sitja ekki lengur þegjandi undir því að á þá sé borið hvað eftir annað að þeir láti ekki stærstu fjöldasamtök landsins njóta jafnréttis við ýmsa aðra.